Kvenkyns raðmorðngjar eru til og hefur fjöldi þeirra verið metinn á bilinu 10-15 prósent allra raðmorðingja. Þekktar rannsóknir á kvenkynsraðmorðingjum eru rannsóknir Beleu Keeney og Kathleen Heide (1994) og Wade Myers, Erik Gooch og Reid Meloy (2005). Niðurstöðurnar sýna mun á karlkyns og kvenkyns raðmorðingjum. Karlar hafa tilhneigingu til að beita mun meira ofbeldi en konur. Konur beita meira ginningum og eitrunum en beinu ofbeldi. Konurnar voru að jafnaði eldri en karlarnir og áttu við meiri vímuefnavanda að stríða en karlarnir. Konurnar þjáðust af margvíslegum andlegum sjúkdómum meðan karlarnir voru oftar skilgreindir með andfélagslegan persónuleikavanda. Dæmigerður kvenkynsraðmorðingi er sá sem lokkar eða eitrar fyrir einhverjum sem hún þekkir. Æska þeirra er þyrnum stráð; einkennist af misnotkun og brotnum fjölskyldutengslum. Menntun þeirra er að jafnaði lakari en gengur og gerist og ef þær eru á vinnumarkaði stunda þær helst láglaunastörf. Þekkt dæmi af þessu tagi er mál Aileens Wuornos sem tekin var af lífi í BNA árið 2002 fyrir að myrða sjö karla. Hún var skilgreind með alvarlega siðblindu (e. psychopathic personality) sem stafaði að öllum líkindum af skelfilegri æsku sem einkenndist af ofbeldi, alkóhólisma, nauðgun, sifjaspjöllum og vændi. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað gerði Kobbi kviðrista (Jack the Ripper)? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Keeney, Belea og Heide, Kathleen (1994). „Gender differences in serial murderers. A preliminary analysis“ Journal of Interpersonal Violence 9: 37-56.
- Myers, Wade, Gooch, Erik og Meloy, Reid (2005). „The role of psychopathy and sexuality in a female serial killer“. Journal of Forensic Sciences 50: 652-658.
- Mynd: The Biography Channel. Sótt 29. 4. 2009.
Af hverju eru þessi brjáluðu og "frægu" morðingjar eingöngu karlar? Eru engar konur sem hafa sett sitt mark í söguna sem "serial killer"?