En þegar þeir komu að Öxl og Björn sá, að þeir voru vel útbúnir, og höfðu væna hesta, bauð hann þeim með sér út í fjós. Þar var myrkt, en þó sér annar þeirra glampa á eitthvað í hendinni á Birni...Björn myrðir 18 manns áður en upp um hann kemst þegar annað tveggja systkina sleppur lifandi frá honum og segir til hans. Fyrsta fórnarlamb sitt dysjaði hann í flórnum á Knerri en öllum hinum var sökkt í Íglutjörn fyrir neðan túnið á Öxl. Axlar-Björn var dæmdur til dauða og tekinn af lífi árið 1596 að Laugarbrekku; fyrst beinbrotinn á útlimum með sleggjum, síðan afhöfðaður og þar á eftir brytjaður niður og einstakir hlutar úr líkama hans festir upp á stengur. Ónáttúra Björns gekk í erfðir því að sonur hans Sveinn skotti var hengdur árið 1648 eftir að húsfreyjan í Rauðsdal á Barðaströnd gat látið binda hann þegar hann kom og vildi nauðga henni. Um Axlar-Björn hefur Úlfar Þormóðsson ritað sögulega skáldsögu, Þrjár sólir svartar (1988), og aðalpersónurnar í verki Megasar, Björn og Sveinn (1994), heita Axlar-Björn og Sveinn skotti. Ebba Guðný Guðmundsdóttir ritaði námsritgerð árið 1999 um Axlar-Björn í heimildum og þjóðsögum og er hún aðgengileg í Þjóðarbókhlöðu.
Útgáfudagur
4.12.2001
Spyrjandi
Hörður Friðriksson, f. 1982
Tilvísun
Gísli Sigurðsson. „Hver var Axlar-Björn?“ Vísindavefurinn, 4. desember 2001, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1987.
Gísli Sigurðsson. (2001, 4. desember). Hver var Axlar-Björn? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1987
Gísli Sigurðsson. „Hver var Axlar-Björn?“ Vísindavefurinn. 4. des. 2001. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1987>.