Þessi yfirborðsspenna er nægjanlega mikil til þess að vatnsyfirborðið geti haldið uppi léttum hlutum sem fljóta ekki, eins og ýmsum skordýrum. Það er líka yfirborðsspennan sem heldur vatni saman í dropum og veldur því að hægt er að fylla vatnsglas upp fyrir barma sína. Ýmis efni geta dregið úr yfirborðsspennu vatns og er sápa þar á meðal. Eftirfarandi tilraun sýnir það á áhrifaríkan hátt. Við tilraunina þarf að nota hreinan disk, talkúm-duft og sápustykki. Gakktu úr skugga um að diskurinn sé tandurhreinn; á honum má ekki vera nein fita eða sápa. Fylltu diskinn af vatni og stráðu talkúm-duftinu á vatnsyfirborðið. Snertu nú vatnsyfirborðið með sápustykkinu við einn enda disksins. Við það dregst talkúm-duftið skyndilega yfir í gagnstæðan hluta disksins. Talkúm-duftið leysist ekki upp í vatninu og það sekkur ekki; það liggur á vatnsyfirborðinu og yfirborðsspennan heldur því uppi. Þar sem sápan snertir vatnið dragast vatnssameindir frekar að sápusameindum en hver annarri. Hinum megin á diskinum dragast vatnssameindir hins vegar ennþá hver að annarri. Þegar vatnið er snert með sápunni er því eins og verið sé að skera á gúmmíteygju og yfirborðsspenna á mótstæðri hlið dregur talkúm-duftið frá sápunni. Heimild:
- Glass, Don, Why you can never get to the end of the rainbow. Bloomington: Indiana University Press, 1993, bls. 144-145.
- wikipedia.org - Surface tension. Sótt 21. 6. 2011.