Í grein sem birtist 2006 og byggir á rannsóknum, sem voru birtar á árunum 1997-2004, nefna sérfræðingar á vegum Bandaríska svæfingalæknafélagsins að tíðni meðvitundar í svæfingu sé 0,1-0,2%. Tvær stórar nýlegar rannsóknir mátu tíðnina 0,023% og 0,0068% (1/4300 og 1/14000) á þeim sjúkrahúsum, þar sem rannsóknirnar voru framkvæmdar. Talið er að meðvitund í svæfingu gerist oftar í svæfingum vegna sumra aðgerða, til dæmis vegna alvarlegra slysa, þar sem sjúklingur er hætt komin vegna blæðinga eða alvarlegra áverka og gjöf svæfingalyfja er takmörkuð til að halda uppi blóðþrýstingi (og halda sjúkling lifandi). Einnig hafa verið nefndar svæfingar vegna keisaraskurða, þar sem svæfingarlæknar takmörkuðu lyfjagjöf í byrjun svæfingar, til að hafa sem minnst áhrif á fóstrið. Svæfingar við keisaraskurði hafa breyst, vegna þess að vandamálið er þekkt og áhyggjur af áhrifum á fóstrið sennilega óþarfar. Loks hefur verið talinn aukin áhætta á meðvitund í svæfingu í hjartaaðgerðum, sérstaklega áður fyrr þegar eingöngu var svæft með morfín-skyldum lyfjum. Nýleg tækniþróun sem gerir mönnum kleyft að mæla magn svæfingargasa í líkamanum, og tilkoma tækja sem ætlað er að meta dýpt svæfingar, munu væntanlega draga úr þessu vandamáli í framtíðinni. Frekari fróðleikur á Vísndavefnum:
- Hvers vegna sofna sjúklingar við svæfingu?
- Hvaða efni eru notuð til svæfingar fyrir aðgerð og gera það að verkum að maður verður tilfinningalaus?
Virka svæfingar alltaf? Geta sjúklingar fundið fyrir sársauka ef eitthvað fer úrskeiðis í svæfingu?