Tereshkova fór aðeins í þessa einu geimferð, en lítill áhugi var á að senda konur út í geiminn eftir þessa fyrstu ferð. Það liðu næstum tveir áratugir þar til kona fór næst út í geiminn, en sú var einnig frá Sovétríkjunum, Svetlana Savitskaya. Þann 19. ágúst 1982 var hún ein af þriggja manna áhöfn Soyuz T-7 sem fór til Salyut 7 geimstöðvarinnar. Alls stóð ferð Savitskaya yfir í tæpa 8 daga. Tveimur árum seinna, í júlí 1984 fór hún í annað sinn í Salyut 7 geimstöðina og dvaldi þá tæpa 12 daga í geimnum. Í þeirri ferð fór hún í geimgöngu fyrst kvenna. Fyrsti bandaríski kvengeimfarinn var Sally Kristen Ride. Hún fór tvær ferðir með Challenger-geimskutlunni, þá fyrri 18. júní 1983 og þá síðari í október árið 1984. Samtals var hún rúma 14 sólahringa í geimnum. Undir lok árs 2009 höfðu 510 manns farið út í geiminn, þar af 50 konur. Fjórar konur hafa farist í geimferðaslysum. Tvær konur voru í sjö manna áhöfn geimferjunnar Kólumbíu sem brotnaði á leið til jarðar árið 2003 með þeim afleiðingum að allir um borð létust. Tvær konur voru einnig um borð í geimferjunni Challenger sem sprakk skömmu eftir að hafa verið skotið á loft árið 1986. Önnur þeirra, Christa McAuliffe, átti að verða fyrsti almenni borgarinn til að fara út í geiminn. Hún náði þó aldrei að komast í 100 km hæð sem eru þau mörk sem miðað er við til þess að geta talist hafa komið út í geiminn samkvæmt Fédération Aéronautique Internationale (FAI). Frekari fróðleikur á Vísindavefnum:
- Hvað hafa margir geimfarar látist í tilraunum til að fara út í geim? eftir EDS
- Hvað búa margir í geimförum? eftir EDS
- Hvað olli Challenger-slysinu árið 1986 og hvernig litu geimfararnir út? eftir Sævar Helga Bragason og Heiðu Maríu Sigurðardóttur
- Hvað hétu þau sem létust þegar geimskutlan Kólumbía fórst? eftir Sævar Helga Bragason
- Tereshkova á Encyclopedia Astronautica. Skoðað 18.1.2010.
- Women of Space á Encyclopedia Astronautica. Skoðað 18.1.2010.
- Leaders Among Women in Space á Space Today Online. Skoðað 18.1.2010.
- List of space travelers by name á Wikipedia. Skoðað 18.1.2010.
- Valentina Tereshkova Biography á About.com: Space / Astronomy. Skoðað 18.1.2010.
- Mynd: Women of Space á Encyclopedia Astronautica. Sótt 18.1.2010.
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Getið þig gefið mér einhverjar upplýsingar um fyrsta kvengeimfarann?