Í september árið 2008 hafa alls 485 manns frá 38 löndum farið út í geiminn frá upphafi geimferða samkvæmt lista Fédération Aéronautique Internationale (FAI). Samtals hafa þessir geimfarar dvalið í geimnum yfir 29.000 daga sem jafngildir tæplega 80 árum. Það er mjög misjafnt hversu lengi geimfarar eru í geimnum. Fyrsta mannaða geimferðin, ferð sovéska farsins Vostok 1 umhverfis jörðu með geimfarann Yuri Gagarin innanborðs, tók ekki nema 1 klukkustund og 48 mínútur frá því að farinu var skotið á loft þar til það lenti aftur. Smám saman lengdist sá tími sem geimferðir tóku og má nefna að fyrsta mannaða tunglferðin stóð í rétt rúmlega 8 sólahringa. Með tilkomu geimstöðva fóru geimfarar að dvelja í geimnum svo vikum og mánuðum skipti. Undanfarinn tæpan áratug hafa geimfarar dvalið í alþjóðlegu geimstöðinni. Fyrstu geimfararnir komu um borð í geimstöðina árið 2000 og voru það tveir Rússar og einn Bandaríkjamaður sem dvöldu þar í 140 daga. Geimstöðin hefur verið mönnuð allar götur síðan og er dvöl hvers og eins yfirleitt 5-6 mánuðir. Þegar þetta er skrifað, í september 2008, er sá sem dvalið hefur lengst í geimnum Rússi að nafni Sergei Krikalev. Alls hefur hann verið 803 daga, 9 klukkustundir og 39 mínútur í geimnum, í samtals 6 ferðum. Á Vísindavefnum eru fleiri svör um geimferðir, til dæmis:
- Til hvers voru menn sendir til tunglsins? eftir Tryggva Þorgeirsson
- Hver tók myndina af Neil Armstrong þegar hann tók fyrstu skrefin á tunglinu? eftir Sævar Helga Bragason og Þorstein Vilhjálmsson
- Hvað hefur mannað geimfar komist langt út í geiminn? eftir TÞ
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.