Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi?

Páll Björnsson

Til þess að svara þessari spurningu verður að horfa allmarga áratugi aftur í tímann. Rétt er byrja á því að staldra við árið 1925 þegar samþykkt voru lög á Alþingi sem meinuðu fólki að taka upp ný ættarnöfn. Segja má að þetta ákvæði sé að vissu leyti enn í gildi. Í stuttu máli sagt þá má halda því fram að lagasetningin frá 1925 hafi verið endurspeglun á þjóðernislegum andblæ sem þá hafði náð tökum á íslensku samfélagi. Formælendur ættarnafnabannsins, með Bjarna Jónsson frá Vogi í broddi fylkingar, vildu vernda gamlan þjóðlegan sið, það er þann að kenna sig við föður sinn, en Ísland var þá orðið síðasta evrópska landið sem enn hélt sig við föðurnafnasiðinn. Nokkur orð úr greinargerð með lagafrumvarpinu lýsa vel viðhorfum hörðustu andstæðinga ættarnafna:

Nú á dögum hefir erlend sníkjumenning, ljeleg í alla staði, náð svo sterkum tökum á mönnum, að þeir sæta hverju færi, sem gefst, til þess að skafa af sjer þjóðerni sitt og glata dýrmætri menning, er vaxið hefir um þúsundir ára upp af norrænni rót, en vjer geymum nú að mestu einir.

Reyndar er það svo að þeir sem töluðu fyrir innleiðingu ættarnafna, beittu einnig fyrir sig þjóðernislegum rökum, til að mynda þeim að Íslendingar yrðu með innleiðingunni að þjóð meðal þjóða.

Hér var um stefnubreytingu að ræða því að tólf árum fyrr eða 1913 hafði þingið sett lög sem heimiluðu ættarnöfn. Gegn vægu gjaldi gat fólk tryggt sér nýtt ættarnafn, bæði fyrir sig og niðja sína. Þar með gátu aðrir ekki notað viðkomandi nöfn. Þeir sem þegar báru ættarnöfn skyldu auk þess fá að halda þeim og láta þau ganga til niðja sinna. Mikilvægt er að hafa hugfast að þegar umræddar lagasetningar fóru í gegnum þingið 1913 og 1925 voru skoðanir á lögleiðingu ættarnafna í samfélaginu mjög skiptar. Reyndar hafði svo verið frá miðri 19. öld, þegar umræða um málið fór af stað. Og staðan er þannig enn.

Gjarnan er þó miðað við að elsta íslenska ættarnafnið sé Vídalín en það er frá 17. öld. Myndin er af Jóni Vídalín Skálholtsbiskupi.

Sé litið til útbreiðslu ættarnafna þá var þróunin í nágrannalöndunum sú að þau fóru að ná fótfestu á Bretlandi snemma á 11. öld og á sex öldum náði þessi hefð að verða ríkjandi. Svipaða sögu er að segja frá þýsku ríkjunum. Þróunin norðar í álfunni var ekki jafn hröð. Þannig voru ættarnöfn lögleidd í Danmörku árið 1828. Sú hefð að kenna sig við föðurinn lifði þó áfram góðu lífi í landinu, einkum í hinum dreifðari byggðum. Þess vegna var ættarnafnaskyldan áréttuð 1856. Þessar kvaðir skiluðu að lokum þeim árangri að um 1900 er talið að Danir hafi verið hættir að kenna sig við feður sína. Á Íslandi var þróunin töluvert hægari. Þeir Íslendingar sem fóru til náms við erlenda háskóla urðu fyrir áhrifum af þessum breytingum sem birtust í því að meðal þeirra voru ættarnöfn orðin kunn við lok 16. aldar. Gjarnan er þó miðað við að elsta íslenska ættarnafnið sé Vídalín en það er frá 17. öld. Nöfnunum fjölgaði síðan mjög hægt á 18. en hraðar á 19. öld. Árið 1855 voru þau 108 en þá hljóp vöxtur í þau sem sést á því að árið 1910 voru þau orðin 297. Dönsku lögin voru aldrei innleidd á Íslandi, ólíkt Færeyjum, og varla nokkur Íslendingur vildi ganga eins langt og Danir og margar aðrar þjóðir gerðu, það er að skylda alla landsmenn til að taka upp ættarnafn.

Með banninu frá 1925 var ákveðið að þeir sem hefðu tekið upp ættarnöfn á tímabilinu 1913–1925 skyldu fá að bera þau áfram og einnig börn þeirra en hins vegar ekki aðrir niðjar. Hugsunin var því sú að ættarnöfn myndu smátt og smátt hverfa. Þó var ekki gert ráð fyrir því að þau myndu alveg heyra sögunni til vegna þess að þeir, sem tóku upp gilt ættarnafn fyrir 1913, skyldu fá að halda þeim, og ekki aðeins þeir sjálfir heldur einnig niðjar þeirra. Þá var ákvæði um að ef fólk bryti lögin þá skyldi koma til nokkuð hárra sekta. Lögunum var þó ekki framfylgt þannig að mörg ættarnafnanna lifðu áfram.

Árið 1991 voru sett ný mannanafnalög, að vissu leyti til að bregðast við orðnum hlut. Þeim sem höfðu borið ættarnafn, og nánustu niðjum þeirra, skyldi nú heimilt að nota þau. Árið 1996 var síðan sú breyting gerð að tryggt var að innflytjendur mættu halda sínum ættarnöfnum. Af þessum ástæðum hefur ættarnöfnum fjölgað mjög á Íslandi. Einnig var öllum heimilt að taka upp svokallað millinafn en það var hugsað sem ígildi ættarnafns. Á liðnum árum hafa síðan verið lögð fram frumvörp til laga sem ganga út á að rýmka ákvæðin um mannanöfn, meðal annars með því að leyfa fólki að taka upp ný ættarnöfn. Róttækasta hugmyndin í þessa veru birtist í frumvarpsdrögum innanríkisráðuneytis frá 1. júní 2016 þar sem algjört frjálsræði var boðað, það er að segja að allir gætu notað hvaða eftirnafn sem er. Þannig myndi ríkisvaldið ekki lengur verja eignarrétt fólks yfir tilteknum ættarnöfnum.

Þau lagafrumvörp sem lögð hafa verið fyrir þingið á liðnum árum hafa öll dagað uppi. Rökin sem nú heyrast gegn því að aflétta banninu á nýjum ættarnöfnum eru einkum af menningarsögulegum toga. Þannig sagði til dæmis í umsögn mannanafnanefndar um nýtt frumvarp til laga um mannanöfn í mars 2015:

Huga þarf að því að hið ævaforna germanska nafnakerfi hefur eingöngu varðveist hér á landi. Ætla má að ef ættarnöfn verða gefin frjáls yrði það hörð atlaga að slíku kerfi. Fornt föður- og móðurnafnakerfi okkar er mikilvægur menningararfur og ábyrgðarhlutur að vega að því.

Í ljósi vaxandi gagnrýni í samfélaginu verða þó mögulega einhverjar breytingar gerðar á nafnalöggjöfinni á næstu árum.

Ítarefni:
  • Páll Björnsson. (2017). „Ættarnöfn á Íslandi.“ Saga: Tímarit Sögufélags.

Mynd:

Öll spurningin hljóðaði svona: Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi? Hver eru rökin fyrir því?

Höfundur

Páll Björnsson

sagnfræðingur og prófessor í nútímafræðum við HA

Útgáfudagur

24.6.2019

Spyrjandi

Bjarki Þór Gunnarsson

Tilvísun

Páll Björnsson. „Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=30832.

Páll Björnsson. (2019, 24. júní). Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=30832

Páll Björnsson. „Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=30832>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi?
Til þess að svara þessari spurningu verður að horfa allmarga áratugi aftur í tímann. Rétt er byrja á því að staldra við árið 1925 þegar samþykkt voru lög á Alþingi sem meinuðu fólki að taka upp ný ættarnöfn. Segja má að þetta ákvæði sé að vissu leyti enn í gildi. Í stuttu máli sagt þá má halda því fram að lagasetningin frá 1925 hafi verið endurspeglun á þjóðernislegum andblæ sem þá hafði náð tökum á íslensku samfélagi. Formælendur ættarnafnabannsins, með Bjarna Jónsson frá Vogi í broddi fylkingar, vildu vernda gamlan þjóðlegan sið, það er þann að kenna sig við föður sinn, en Ísland var þá orðið síðasta evrópska landið sem enn hélt sig við föðurnafnasiðinn. Nokkur orð úr greinargerð með lagafrumvarpinu lýsa vel viðhorfum hörðustu andstæðinga ættarnafna:

Nú á dögum hefir erlend sníkjumenning, ljeleg í alla staði, náð svo sterkum tökum á mönnum, að þeir sæta hverju færi, sem gefst, til þess að skafa af sjer þjóðerni sitt og glata dýrmætri menning, er vaxið hefir um þúsundir ára upp af norrænni rót, en vjer geymum nú að mestu einir.

Reyndar er það svo að þeir sem töluðu fyrir innleiðingu ættarnafna, beittu einnig fyrir sig þjóðernislegum rökum, til að mynda þeim að Íslendingar yrðu með innleiðingunni að þjóð meðal þjóða.

Hér var um stefnubreytingu að ræða því að tólf árum fyrr eða 1913 hafði þingið sett lög sem heimiluðu ættarnöfn. Gegn vægu gjaldi gat fólk tryggt sér nýtt ættarnafn, bæði fyrir sig og niðja sína. Þar með gátu aðrir ekki notað viðkomandi nöfn. Þeir sem þegar báru ættarnöfn skyldu auk þess fá að halda þeim og láta þau ganga til niðja sinna. Mikilvægt er að hafa hugfast að þegar umræddar lagasetningar fóru í gegnum þingið 1913 og 1925 voru skoðanir á lögleiðingu ættarnafna í samfélaginu mjög skiptar. Reyndar hafði svo verið frá miðri 19. öld, þegar umræða um málið fór af stað. Og staðan er þannig enn.

Gjarnan er þó miðað við að elsta íslenska ættarnafnið sé Vídalín en það er frá 17. öld. Myndin er af Jóni Vídalín Skálholtsbiskupi.

Sé litið til útbreiðslu ættarnafna þá var þróunin í nágrannalöndunum sú að þau fóru að ná fótfestu á Bretlandi snemma á 11. öld og á sex öldum náði þessi hefð að verða ríkjandi. Svipaða sögu er að segja frá þýsku ríkjunum. Þróunin norðar í álfunni var ekki jafn hröð. Þannig voru ættarnöfn lögleidd í Danmörku árið 1828. Sú hefð að kenna sig við föðurinn lifði þó áfram góðu lífi í landinu, einkum í hinum dreifðari byggðum. Þess vegna var ættarnafnaskyldan áréttuð 1856. Þessar kvaðir skiluðu að lokum þeim árangri að um 1900 er talið að Danir hafi verið hættir að kenna sig við feður sína. Á Íslandi var þróunin töluvert hægari. Þeir Íslendingar sem fóru til náms við erlenda háskóla urðu fyrir áhrifum af þessum breytingum sem birtust í því að meðal þeirra voru ættarnöfn orðin kunn við lok 16. aldar. Gjarnan er þó miðað við að elsta íslenska ættarnafnið sé Vídalín en það er frá 17. öld. Nöfnunum fjölgaði síðan mjög hægt á 18. en hraðar á 19. öld. Árið 1855 voru þau 108 en þá hljóp vöxtur í þau sem sést á því að árið 1910 voru þau orðin 297. Dönsku lögin voru aldrei innleidd á Íslandi, ólíkt Færeyjum, og varla nokkur Íslendingur vildi ganga eins langt og Danir og margar aðrar þjóðir gerðu, það er að skylda alla landsmenn til að taka upp ættarnafn.

Með banninu frá 1925 var ákveðið að þeir sem hefðu tekið upp ættarnöfn á tímabilinu 1913–1925 skyldu fá að bera þau áfram og einnig börn þeirra en hins vegar ekki aðrir niðjar. Hugsunin var því sú að ættarnöfn myndu smátt og smátt hverfa. Þó var ekki gert ráð fyrir því að þau myndu alveg heyra sögunni til vegna þess að þeir, sem tóku upp gilt ættarnafn fyrir 1913, skyldu fá að halda þeim, og ekki aðeins þeir sjálfir heldur einnig niðjar þeirra. Þá var ákvæði um að ef fólk bryti lögin þá skyldi koma til nokkuð hárra sekta. Lögunum var þó ekki framfylgt þannig að mörg ættarnafnanna lifðu áfram.

Árið 1991 voru sett ný mannanafnalög, að vissu leyti til að bregðast við orðnum hlut. Þeim sem höfðu borið ættarnafn, og nánustu niðjum þeirra, skyldi nú heimilt að nota þau. Árið 1996 var síðan sú breyting gerð að tryggt var að innflytjendur mættu halda sínum ættarnöfnum. Af þessum ástæðum hefur ættarnöfnum fjölgað mjög á Íslandi. Einnig var öllum heimilt að taka upp svokallað millinafn en það var hugsað sem ígildi ættarnafns. Á liðnum árum hafa síðan verið lögð fram frumvörp til laga sem ganga út á að rýmka ákvæðin um mannanöfn, meðal annars með því að leyfa fólki að taka upp ný ættarnöfn. Róttækasta hugmyndin í þessa veru birtist í frumvarpsdrögum innanríkisráðuneytis frá 1. júní 2016 þar sem algjört frjálsræði var boðað, það er að segja að allir gætu notað hvaða eftirnafn sem er. Þannig myndi ríkisvaldið ekki lengur verja eignarrétt fólks yfir tilteknum ættarnöfnum.

Þau lagafrumvörp sem lögð hafa verið fyrir þingið á liðnum árum hafa öll dagað uppi. Rökin sem nú heyrast gegn því að aflétta banninu á nýjum ættarnöfnum eru einkum af menningarsögulegum toga. Þannig sagði til dæmis í umsögn mannanafnanefndar um nýtt frumvarp til laga um mannanöfn í mars 2015:

Huga þarf að því að hið ævaforna germanska nafnakerfi hefur eingöngu varðveist hér á landi. Ætla má að ef ættarnöfn verða gefin frjáls yrði það hörð atlaga að slíku kerfi. Fornt föður- og móðurnafnakerfi okkar er mikilvægur menningararfur og ábyrgðarhlutur að vega að því.

Í ljósi vaxandi gagnrýni í samfélaginu verða þó mögulega einhverjar breytingar gerðar á nafnalöggjöfinni á næstu árum.

Ítarefni:
  • Páll Björnsson. (2017). „Ættarnöfn á Íslandi.“ Saga: Tímarit Sögufélags.

Mynd:

Öll spurningin hljóðaði svona: Hvers vegna má ekki taka upp nýtt ættarnafn á Íslandi? Hver eru rökin fyrir því?...