Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég er að reyna að finna hver uppruni kenninafnana okkar er. Sem sagt hver er ástæðan fyrir því að við berum föðurnafn okkar og svo dóttir eða sonur. Hvenær má sjá þau fyrst birtast í samfélaginu?
Notkun föður- eða móðurnafna er liður í langri þróun nafnaforða evrópskra þjóða í þeim tilgangi að tengja saman ættir og fjölskyldur. Að fornu báru germanir aðeins eitt nafn og það það var oft hlekkkur í ættartengslum. Elsta aðferð þeirra til þess að minna á fjölskylduna var að nota nöfn sem höfðu sama upphafsstaf. Í hinu forna Niflungaljóði, sem ort var á miðháþýsku á 12. öld, heita búrgúndsku bræðurnir, sem ljóðið fjallar meðal annars um, Gunther, Gernôt og Giselher og konungarnir í Skjöldunga sögu hétu Halfdan, Hróar og Helgi.
Elsta aðferð germana til þess að minna á fjölskylduna var að nota nöfn sem höfðu sama upphafsstaf. Í hinu forna Niflungaljóði heita búrgúndsku bræðurnir, sem ljóðið fjallar meðal annars um, Gunther, Gernôt og Giselher. Myndin er úr 15. aldar handriti að Niflungaljóði og sýnir þegar verið er að hálshöggva Gunther.
Önnur aðferð var sú að foreldrar gáfu börnum sínum sama nafn að hluta eða þá að hlutar nafna gengu í arf. Til dæmis hétu synir Ódysseifs Telemakhos og Telegonos og Sokrates var sonur Sophroniskosar.
Áframhaldandi þróun varð misjöfn meðal germanskra þjóða. Sumar þjóðir fóru þá leið að tengja fjölskyldu saman með sérstöku nafni. Í upphafi var um aðalsættir að ræða, sem kenndu sig til dæmis við ættarsetrið, en eftir því sem siðurinn breiddist út tóku aðrar stéttir að kenna sig til dæmis við atvinnu föður eða annað sem gat einkennt fjölskylduna. Þannig varð til dæmis til ættarnafnið Smith ‘smiður’ sem varð snemma útbreitt í þýsku- og enskumælandi löndum.
Á Norðurlöndum var farin sú leið að tengja nánustu fjölskyldu saman með því að geta þess hver faðirinn var með því að bæta við -sonur eða -dóttir við nafn föður. Hún hélst lengi eða þar til tískuáhrif tóku að berast frá meginlandi Evrópu sem ýttu undir notkun sérstakra ættarnafna.
Sá siður að kenna fólk hérlendis við föður eða móður er jafn gamall landnáminu og barst hingað frá Noregi. Ritið Landnámabók segir frá þeim sem námu hér land. Höfundur lætur oftast nægja að nefna fólk með eiginnafni og segja hverra manna það er í löngum upptalningum en stöku sinnum nefnir hann kenninafnið til frekari skýringar. Honum hefur einnig þótt mikilvægt að geta þess hverjir bjuggu á ákveðnum bæjum ef honum hefur þótt skipta máli að skýra bæjarheitið. Til dæmis bjó kona að nafni Arnbjörg á bænum Arnbjargarlæk. Af þessu má draga þá ályktun að maður hennar, ef hún þá átti mann, hafi ekki verið meðal landnemanna. Ekki var kenninafn hennar nefnt. Það hefur höfundi Landnámu þótt óþarft. Hún átti synina Eldgrím og Þorgest sem nefndir eru án kenninafns.
Málverk frá 1850 eftir Johan Peter Raadsig (1806-1882) sem sýnir landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Stundum er ósamræmi milli gerða Landnámabókar og Ingólfur gat bæði verið Arnarson og Björnólfsson.
Ekki er oft að finna að kennt sé til móður í Landnámu eða Íslendinga sögum. Það kemur þó fyrir og má til dæmis nefna þá Hárek og Hrærek Hildiríðarsyni í Egils sögu og Grím og Helga Droplaugarsyni í Droplaugarsona sögu.
Í Sturlunga sögu, sem er frá 14. öld, eru nokkur dæmi um karla og konur sem kenndir eru til móður. Þar má nefna Árna Borgnýjarson, Halldór Ragnheiðarson, Helgu Gyðudóttur og Þorgerði Védísardóttur.
Fyrsta manntal á Íslandi var tekið 1703. Þá var enginn, hvorki karl né kona, kenndur til móður. Í manntalinu 1801 bregður fyrir nokkrum nöfnum þar sem kennt er til móður. Óskilgetin börn voru litin hornauga og oft reynt að finna föður til að kenna þau við, oft gegn greiðslu eða öðrum hlunningum.
Myndir: