Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Nú spurði dóttir mín mig hvernig ættarnöfn urðu til og af hverju?
Elsta ættarnafnið, sem vitað er til að hafi verið notað hérlendis, er Vídalín. Það tók Arngrímur Jónsson lærði (1568–1648) upp á 17. öld og notaði það við stöku tækifæri. Barnabörn hans völdu það síðan sem ættarnafn. Litlu yngra er ættarnafnið Thorlacius myndað af föðurnafninu Þorláksson.
Fram undir miðja 19. öld fjölgaði ættarnöfnum hægt og sígandi. Í manntalinu frá 1801 má finna nöfnin Briem, Gröndal, Hítdal, Hjaltalín, Hjaltested, Móberg, Stephensen og Thorarensen. Ýmsar ástæður geta legið að baki því að menn kusu ættarnafn fram yfir það að kenna sig til föður. Ferðir til útlanda, einkum til Kaupmannahafnar, jukust mjög á 19. öld. Menn fóru til náms, bæði háskólanáms og iðnnáms, og fannst það falla betur að sið landsins að nota ættarnafn.
Ferðir til útlanda, einkum til Kaupmannahafnar, jukust mjög á 19. öld. Menn fóru til náms, bæði háskólanáms og iðnnáms, og fannst það falla betur að sið landsins að nota ættarnafn. Málverk af Højbro Plads í Kaupmannahöfn frá 1921 eftir Paul Gustav Fischer.
Oft voru þau sótt til örnefna en einnig var föðurnafnið lagað til og gert að ættarnafni, Stephensen til dæmis af Stefánsson og Thorarensen af Þórarinsson. En svo voru aðrir, einum í kaupstöðunum, sem tóku upp ættarnafn af því að þeim þótti það fínt og lyfta þeim á hærri stall í þjóðfélaginu.
Mörgum líkaði þessi nýi siður illa en einnig að menn gátu breytt eiginnafni sínu að eigin geðþótta og háværar deilur birtust í blöðunum. Þar kom að lög um mannanöfn voru samþykkt í nóvember 1913 og ættarnöfn heimiluð. Í 8. grein laganna var tekið fram að semja ætti skrá yfir orð og hluti, sem væru til þess fallin að hafa að ættarnöfnum, og aðra skrá yfir góð, íslensk, forn og ný eiginheiti karla og kvenna. Skráin var gefin út 1915 undir heitinu Íslenzk mannanöfn. Lög, nefndarálit og nafnaskrár. Á árunum frá 1915 til 1924 tóku margir upp ættarnafn og borguðu 10 krónur fyrir skráninguna sem voru talsverðir peningar í þá daga.
Andstæðingar ættarnafna létu áfram ákaft í sér heyra og þar kom að ný lög um mannanöfn voru samþykkt 1924 þar sem ættarnöfn voru ekki lengur leyfð og gildir það ákvæði enn. Í ritinu Nöfn Íslendinga er ítarlega fjallað um íslensk nafnalög og öll ættarnöfn birt sem skráð voru á meðan þau voru leyfð (s. 70–86).
Heimild:
Guðrún Kvaran og Sigurður Jónsson frá Arnavatni. 1991. Nöfn Íslendinga. Heimskringla, Reykjavík.
Guðrún Kvaran. „Hvernig urðu ættarnöfn til og af hverju?“ Vísindavefurinn, 12. janúar 2018, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=74663.
Guðrún Kvaran. (2018, 12. janúar). Hvernig urðu ættarnöfn til og af hverju? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=74663
Guðrún Kvaran. „Hvernig urðu ættarnöfn til og af hverju?“ Vísindavefurinn. 12. jan. 2018. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=74663>.