Í ljósi sannreyndra tengslakenninga um þroska mannsins skipta þó frumtengslin jafnframt miklu. Stundum er talað um tengsl barns og foreldris eða umönnunaraðila sem fyrstu ástina, fyrsta parið, eða fyrstu parmyndunina (e. first couple). Þessi frumtengsl eru undirstaðan fyrir hæfni einstaklings til að geta myndað náin tengsl, notið og sýnt fölskvalaust traust til annarra síðar meir, en í því felst líka að geta tekið við og tjáð ást og kærleika. Þessi frumást og þráin eftir að hún endurtaki sig er í raun eðlileg öllum heilbrigðum manneskjum á öllum aldri. Fólk á efri árum sem misst hefur maka sinn með einum eða öðrum hætti, verður oft ástfangið, laðast sterkt að ákveðinni persónu eða ræktar djúp vináttubönd. Börn geta fundið slíkt sterkt aðdráttarafl og aðdáun á vini eða vinkonu og viðkvæm tengsl á barns- og unglingsárum eru oft náskyld því að verða ástfangin, samanber til dæmis sögu eftir þýska rithöfundinn Thomas Mann frá 1914 um Tonio Kröger. Um og eftir kynþroskaaldur eykst næmi og þörf fyrir náin tengsl af kynferðislegum toga og oft er þá erfitt að greina á milli hvað er hrein andleg eða tilfinningaleg ást og hvað er kynferðislegt. Eitt af einkennum einstaklingshyggju í samtíma okkar er ýkt áhersla á og þörf fyrir iðkun tengslalauss kynlífs og frjálsra félaga- eða vináttutengsla fremur en skuldbindandi parsambands. En einnig má greina vaxandi firringu, efa og jafnvel ótta við áköf, náin tengsl. Þetta fyrirbæri endurspeglast í nútímabókmenntum og er meðal annars umfjöllunarefni í nýlegri bók eftir enska rithöfundinn Ian McEwan, Brúðkaupsnóttin (On Chesil Beach). Frumástin felur í sér og skapar hæfni til að renna næstum því saman við aðra manneskju, samanber hugtakið symbiósa, en það orð er komið er úr grísku og merkir "samlíf". Á fósturstiginu erum við jú öll hluti af líkama annarrar manneskju - ennþá móðurinnar - og fyrst eftir fæðingu er barninu nauðsynlegt að fá tíma til að njóta, vera áfram í þessu órofa sambandi við upphaf sitt, ef svo mætti að orði komast. Ef þetta næst og fær að vara ”nægilega lengi”, öðlast mannveran smám saman færni til að aðgreina sig sem persónu, aðlagast umhverfinu, verða sjálfstæð og síðar ástfanginn af öðrum einstaklingi. Sá sem hefur verið háður og lært að treysta á aðra manneskju án fyrirvara eða tortryggni, á auðveldara með að verða sjálfstæð persóna sem getur látið sig “falla fyrir öðrum” (e. fall in love) án þess að óttast að verða gleyptur af öðrum eða tapa sjálfum sér. Gott dæmi úr klassískum bókmenntum okkar um efa og togstreitu í þessu efni er lýsing Halldórs Laxness á ástarsambandi Sölku Völku og Arnalds:
En á einu stigi í atlotum þeirra var hún gripin felmtran. Það var hið ókannaða sem hún hræddist í veru sinni, þessi leyndardómur sem verið hafði orsök lífsótta hennar frá þeim tíma að hún óx fyrst til skynjunar á eðli móður sinnar [...] Þá gat hún altíeinu brotist úr faðmi hans án þess hún vissi hvað hún gerði, og fól andlitið í gaupnum sér [...] Ég er hrædd við sjálfa mig - og enn eftir nokkra þögn: Ég er svo hrædd um ég týni sjálfri mér - og finni mig aldrei aftur.Í öruggum jafningjatengslum skapar nálægðin hins vegar fölskvalausa sælu líkt og frumástin, en ekki hik eða ótta við að verða fangaður. Þessi reynsla þroskast síðan í hæfni til að setja sig í spor annarra, geta leyst ágreining og líka til að þola ýmislegt ”súrt” í sambúðinni. Það er þessi reynsla af samrunanum og öruggum frumtengslum í fyrsta parsambandinu sem endurvarpast þegar fólk verður ástfangið. Vel er þekkt hvernig djúpt ástfangið fólk getur hreinlega ekki séð hvort af öðru og þarf stöðugt að snertast og njóta bæði líkamlegrar og tilfinningalegrar návistar við hvort annað. Það vil helst vera eitt og í friði, getur ekki beðið eftir að hinn elskaði komi og óttast það mest að missa hann: ”farðu aldrei frá mér”, ”ég mun alltaf elska þig - að eilífu”. Þegar hversdagsleikinn tekur við með skuldbindingum, kærleika og tryggð, vaxa einstaklingarnir frá þessu ástandi og þörfinni fyrir stöðuga nærveru og staðfestingu. Þá reynir á að hlú að neistanum, ástríðunni í gagnkvæmu fullþroska parasambandi. Í þessu felst ef til vill munurinn á því að verða ástfangin (fall in love) og að varðveita ástina. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Kemur lauslæti í veg fyrir að maður finni sanna ást? eftir Sigrúnu Júlíusdóttur
- Hver var afstaða Sókratesar til ástarinnar? eftir Geir Þ. Þórarinsson
- Af hverju tengist hjartað ástinni og hvers vegna er hjartað teiknað eins og það er? eftir Símon Jón Jóhannsson
- Alberoni, F. (1984). Förälskelse och kärlek. Göteborg; Bokförlaget Korpen. (Innamoramento e amore, 1979).
- Halldór Laxness. (1996). Salka Valka. Reykjavík: Vaka-Helgafell. Bls. 413-414.
- Johnson S.M. & Whiffen V.E. (2006). Attachment Processes in Couple and family Therapy. London: Guilford. Bls. 43-63; 215-233.
- Ludlam M. & Nyberg V. ( 2007). Couple attachment. Theoretical and clinical studies. London: Karnac.
- MacEwan, I. (2008). Brúðkaupsnóttin. Reykjavík: Bjartur
- Young, L.J & Wang, Z. (2004). The neurology of pair bonding. Nature Neuroscience. Vol 7, 10. Bls. 1048-1054.
- Young, L.J (2009). Love: Neurocsience reveals all. Nature, Vol 457, 8. Bls 148.