Í Samdrykkjunni eftir Platon er umræðuefnið einmitt ástin. Veislugestir koma sér saman um að lofa guðinn Eros. Eros var persónugervingur ástar og losta. Í ræðu Sókratesar, sem er að hluta endursögn á því sem Díótíma frá Mantíneu á að hafa kennt Sókratesi í þessum efnum, kemur fram að ástin er að þrá að hafa alltaf hið góða. Þannig endursegir Sókrates samræðu sína við Díótímu:
Jæja þá, sagði hún [Díótíma], getum við einfaldlega sagt að mennirnir elski hið góða? Já, svaraði ég [Sókrates]. En eigum við ekki að bæta við, sagði hún, að þegar þeir elska þrái þeir að hið góða sé þeirra? Því skal bætt við. Og ekki aðeins því, heldur líka að það sé ævinlega þeirra? Þessu skal líka bætt við. Við getum þá dregið þetta saman sem svo að ástin beinist að því að eiga ævinlega hið góða. Þetta er hverju orði sannara, sagði ég. (Platon, Samdrykkjan 206A-B, þýð. Eyjólfs Kjalars Emilssonar)Með öðrum orðum beinist ástin að hinu góða en einnig að hinu fagra og að ódauðleika sem mennirnir reyna að öðlast með því að geta afkvæmi með fegurðinni. Eins og Díótíma útskýrir fyrir Sókratesi
[er] getnaðurinn það sem dauðlegum verum getur hlotnast af eilífð og ódauðleika. Sá sem þráir hlýtur að þrá ódauðleika jafnframt hinu góða, samkvæmt því sem við höfum komið okkur saman um, fyrst ástin beinist að því að eiga hið góða ævinlega. Af þessu leiðir óhjákvæmilega að ástin beinist líka að ódauðleikanum. (Pl., Samdr. 206E-207A, þýð. EKE)Af þessum sökum er okkur eðlilegt að þrá að geta af okkur afkvæmi. Fegurðin er frjó en ljótleikinn ekki eða eins og Díótíma segir er fegurðin fæðingardís en á hinn bóginn gerir ljótleikinn að verkum að það sem kemur nálægt honum „verpist saman af ógleði, snýr sér undan og hörfar frá.“ (Pl., Samdr. 206D, þýð. EKE). Ástin beinist þess vegna að hinu góða, að ódauðleikanum og að fegurðinni. En þessu fylgir ákveðið þroskaferli sem Díótíma lýsir þannig:
Að feta rétta leið í ástarmálum – eða láta annan leiða sig inn á hana – felst þá í þessu: maður leggur af stað frá fögrum jarðneskum hlutum, með hina handanverðu fegurð sem stefnumark, fetar sig æ uppávið og notar áfangana á leiðinni eins og fótstall: frá einum fögrum líkama til tveggja og frá tveimur til allra fagurra líkama; áfram frá fögrum líkömum upp til fagurra lífshátta, og frá lífsháttunum til fagurra vísinda, og frá vísindunum til þess að hafna að endingu í þessari hinstu vitneskju sem er ekki vitneskja um neitt annað en hið fagra sjálft, svo að um síðir skynjar maður sjálft eðli hins fagra. (Pl., Samdr. 211C, þýð. EKE)Þegar hér er komið sögu er maður þess umkominn að höndla frummynd hins fagra, það er að segja fegurðina sjálfa sem er ávallt fullkomin fegurð, verður hvorki til né eyðist og er það sem gerir að verkum að allt annað sem er fagurt er fagurt. Í annarri samræðu, Fædrosi, er ástinni lýst sem eins konar guðdómlegu brjálæði. Þar segir frá því að sálir hafi eitt sinn haft vængi og hafi átt vingott við guðina. En sumar sálir, sem misstu sjónir á sannleikanum og glötuðu réttvísinni, misstu vængina og hröpuðu niður til jarðlífsins þar sem þær fæddust í líkama fólks af ólíku tagi allt eftir því hvernig ástand sálarinnar var; þeir urðu heimspekingar sem best voru á sig komnir, aðrir urðu konungar og stjórnmálamenn, fjársýslumenn eða læknar, prestar, skáld og listamenn og svo framvegis. Þeir allra verstu urðu harðstjórar. Með góðu líferni bæta menn svo stöðu sína í næsta lífi og öfugt. Þegar maður hefur endurfæðst sem heimspekingur þrisvar í röð vaxa vængirnir aftur á mann. En þegar maður sér í jarðlífinu eitthvað fagurt og fegurðin sjálf sem hann man eftir frá því að sál hans hafði vængi rifjast upp fyrir honum, þá kemur yfir hann guðdómleg sturlun og hann þráir að hefja sig á loft á ný. Fegurðin er líklegust til þess að minna á sig í jarðlífinu en er ekki ein um að geta vakið slíka þrá, viskan gerir það til dæmis líka en hún minnir ekki á sig í sýnilegum hlutum. Þær hugmyndir sem hér hefur verið lýst eru hugmyndir Platons en ekki hins sögulega Sókratesar enda þótt Platon leggi þær í munn Sókratesar. Hinum sögulega Sókratesi (til aðgreiningar frá persónunni Sókratesi í samræðum Platons) eru oftast eignaðar tvær meginhugmyndir og er hvorug þeirra um ástina; önnur er sú að enginn sé vísvitandi illur en hin er sú að dygð sé þekking
Mynd: