Í Siðfræði Níkomakkosar, meginriti sínu um siðfræði, segir Aristóteles: „Þeir verknaðir eru ákjósanlegir í sjálfum sér sem maður sækir ekkert frekar til en verknaðinn sjálfan. Þannig virðast dyggðugar athafnir vera, enda ákjósanlegt vegna sjálfs sín að breyta af göfgi og góðleika.“ Og stuttu síðar: „Farsælt líf þykir vera dyggðugt.“ (Siðfræði Níkómakkosar X.6, 1176b6-8 og 1177a1-2. Þýð. Svavars Hrafns Svarassonar) Dygðin er þó ekki nægjanlegt skilyrði farsældar að mati Aristótelesar því ýmislegt fleira þarf að koma til. Fólk þarfnast til að mynda ýmissa lífsnauðsynja og það er ekki auðséð hvernig maður getur talist farsæll ef hann skortir þær enda þótt hann sé dygðugur. En þótt farsæld þarfnast ytri gæða þarfnast farsæll maður samt sem áður ekki mikils enda segir Aristóteles að við getum „breytt af göfgi þó við ráðum ekki yfir láði og legi; maður getur breytt dyggðuglega af litlum efnum“ og „[þ]etta nægir, því líf manns sem er virkur í samræmi við dyggð verður farsælt.“ (Siðfræði Níkómakkosar X.8, 1179a4-6 og 1179a8-9. Þýð. Svavars Hrafns Svarassonar) Síðar meir héldu stóuspekingar því fram að dygðin væri ekki einungis nauðsynlegt heldur einnig nægjanlegt skilyrði lífshamingjunnar. Sá sem er dygðugur er hamingjusamur og ekkert fær haggað hamingju hans. Þeir héldu því jafnframt fram að rétt eins og ekkert væri gott nema dygðin væri ekkert illt nema löstur. Allt annað sögðu þeir að væri hlutlaust og skipti einfaldlega ekki máli, hvorki fjármunir, virðing og völd, né jafnvel góð eða slæm heilsa. Dygðin er því ekki síður dýrmæt í stóískri siðfræði. Á 13. öld reyndi Tómas af Aquino að flétta aristótelíska dygðasiðfræði saman við kristindóminn en í þeirri siðfræði sem varð alls ráðandi á nýöld fór minna fyrir dygðinni. Kantísk skyldusiðfræði og nytjastefna urðu alls ráðandi á 19. öld og á fyrri hluta 20. aldar. Um miðbik aldarinnar var aristótelískri dygðasiðfræði haldið á loft á nýjan leik og nú er dygðin aftur orðin mikilvægt hugtak í siðfræði. Tengt efni á Vísindavefnum:
- Hvaða áhrif hafði Aristóteles á miðöldum og fyrir hvað var hann þekktur? Hvað getið þið sagt mér um samanburð á siðfræði Kants og Mills?
- Aristóteles, Siðfræði Níkomakkosar. Svavar Hrafn Svavarsson (þýð.) (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélags, 1995).
- Hursthouse, Rosalind, On Virtue Ethics (Oxford: Oxford University Press, 1999).
- Kristján Kristjánsson, Mannkostir: Ritgerðir um siðfræði (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2002).
- Athanassoulis, Nafsika, Virtue Ethics, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006).
- Hursthouse, Rosalind, Virtue Ethics, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2007).