Fræðimenn hafa á þessu mismunandi skoðanir og telja margir að fleiri þætti en íbúafjölda þurfi að skoða til að geta skilgreint smáríki, eins og til dæmis stærð og getu stjórnsýslunnar til að takast á við innanlandsverkefni sem og verkefni á alþjóðavettvangi. Hins vegar skilgreina flestir fræðimenn á sviði alþjóðasamskipta smáríki út frá getu eða hversu mikil áhrif þau í raun geta haft í alþjóðakerfinu. Þá skiptir máli hvort ríki geti eitt og sér haft áhrif á alþjóðasamfélagið eða verði að gera það í samfloti með öðrum ríkjum. Einkenni smáríkja eru fylgni þeirra við lög og reglur, og meiri áhugi á þátttöku í starfi alþjóðastofnana, en innan þeirra leita þau oft að efnahagslegu, pólitísku og hernaðarlegu skjóli. Alþjóðastofnanirnar sem veita smáríkjum þetta skjól eru til dæmis Sameinuðu þjóðirnar, Atlantshafsbandalagið, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn. Smáríki þurfa á þessu skjóli að halda þar sem efnahagur þeirra er háðari alþjóðaviðskiptum en efnahagur stærri ríkja, þau geta sjaldnast varið sig sjálf og hafa ekki sömu burði og stór ríki til að vinna að framgangi sinna mála í alþjóðakerfinu. Miðað við það sem á undan er sagt er sjálfgefið að erfitt er að lista nákvæmlega hvaða ríki teljast smáríki og hver ekki. Til að mynda eru flestir sammála um það að Svíþjóð, líkt og öll Norðurlöndin, sé smáríki. Íbúafjöldi landsins er engu að síður kominn yfir 10 milljónirnar sem Sameinuðu þjóðirnar miða við. Svíþjóð er líka auðugt land, víðfeðmt og hernaðarlega hlutlaust. Engu að síður dylst engum að erfitt er fyrir Svíþjóð að hafa bein áhrif í alþjóðakerfinu eitt og sér. Það þarf í flestum tilfellum að vera í samfloti með öðrum til að geta haft áhrif. Innan vébanda Sameinuðu þjóðanna eru flest ríki heims talin smáríki og hlutfall þeirra fer vaxandi í alþjóðasamfélaginu. Aukning varð til dæmis í lok nýlendutímans og í kjölfar upplausnar Júgóslavíu og Sovétríkjanna. Til gamans má bæta því við að miðað við flokkunina sem notuð er á kortinu hér fyrir ofan og upplýsingar af heimasíðu Sameinuðu þjóðanna (World Population Prospects The 2006 Revision) þá eru 152 lönd sem hafa færri íbúa en 10 milljónir árið 2007. Nánar tiltekið er skiptingin eftirfarandi:
Fjöldi íbúa | Fjöldi landa |
Færri en 1 milljón | 76 |
1 - 10 milljónir | 76 |
10 -25 milljónir | 32 |
25 - 50 milljónir | 22 |
50 - 100 milljónir | 12 |
100 - 1000 milljónir | 9 |
1 milljarður eða fleiri | 2 |
- Hvað eru til mörg lönd í heiminum? eftir EDS
- Hvað búa mörg prósent af íbúum jarðar á Íslandi? eftir EDS
- Hvert er strjálbýlasta land í heimi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- Hver eru fimm þéttbýlustu lönd í heimi? eftir Ulriku Andersson
- Hvar er hægt að finna upplýsingar um hversu margir búa í tilteknu landi? eftir Emilíu Dagnýju Sveinbjörnsdóttur
- List of countries by population á Wikipedia. Birt undir Creative Commons leyfi. Íslenskur texti settur inn af ritstjórn Vísindavefsins. Sótt 15. 12. 2008