Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hér er einnig að finna svör við eftirfarandi spurningum:
Hvenær fóru Íslendingar fyrst í verkfall? Og hvenær fóru opinberir starfsmenn fyrst í verkfall? Hvenær urðu verkföll fyrst lögleg og með hvaða hætti? Hvað er verkfall? Hver er munurinn á verkfalli og verkbanni?
Verkfall eða vinnustöðvun verður þegar starfsmenn fyrirtækis eða stofnunar leggja niður vinnu. Það getur orðið vegna þess að verkalýðsfélag eða starfsmannafélag ákveður að leggja niður vinnu, annað hvort að undangenginni atkvæðagreiðslu félagsmanna um vinnustöðvunina, eða með einhliða ákvörðun stjórnar félagsins, sem þá hefur umboð til þess í lögum félagsins. Hið fyrrnefnda er algengara hér á landi. Einnig geta verkföll orðið án þáttöku formlegra félaga, starfsmenn leggja þá jafnvel niður vinnu gegn vilja forystu viðkomandi verkalýðsfélags.
Verkföll verða oft vegna óánægju starfsfólks með kjör sín og aðbúnað. Oftast er farið fram á launahækkanir, en einnig eru stundum gerðar kröfur um bættan aðbúnað af ýmsu tagi, styttri vinnutíma, betri vinnuaðstæður og slíkt. Stundum tengjast verkföll miklum mótmælaöldum eða jafnvel byltingarhreyfingum. Þá eru þau hluti af því vopnabúri sem verkalýðsstéttin hefur til að berjast við stjórnvöld og atvinnurekendur.
Sú verkfallstækni hefur verið notuð að setjast niður og neita að vinna eins og í Flint sit-down verkfallinu 1936-1937.
Verkföll urðu í fornöld, til dæmis við byggingu pýramída í Egyptalandi. Stéttaátök á tímabilinu fyrir 1800 urðu þó oftar í formi uppreisna af einhverju tagi, til dæmis þrælauppreisna, sem voru algengar í Rómaveldi, og er uppreisn Spartacusar sem hófst um árið 73 f.Kr. einna þekktust þeirra. Þrælar gerðu uppreisn gegn eigendum sínum og heimtuðu frelsi. Þrælauppreisnir voru einnig mjög algengar í Ameríku á tíma þrælahalds þar, sérstaklega á 17., 18. og 19. öld. Uppreisnir bænda gegn lénsherrum voru algengar á miðöldum í Evrópu og Asíu og átök milli bænda og landeigenda voru einnig algeng hér á landi. Bændauppreisnir voru þess að auki mikilvægur þáttur í hinum miklu byltingum í Frakklandi 1789-1794, Rússlandi 1917 og Kína 1949. Bændur kröfðust þess meðal annars að eignast þær jarðir sem þeir bjuggu á, og að þurfa ekki að borga af þeim leigu eða skatta.
Á 17. öld breyttist samfélagið í Englandi úr lénssamfélagi í kapítalískt samfélag með byltingunni 1640-1660. Með henni tók enska þingið völdin af konungi og tryggði einkaeignarréttinn mun betur en áður. Áður höfðu langflestir búið í sveitum og lifað á bændabýlum af skepnum og kornökrum, og greiddu landeigendum leigu fyrir afnot af jörðinni. Landeigendur sáu sér hins vegar hag í því að taka land sitt undir sauðfjárrækt, sem gaf mun betur af sér en hefðbundin kornrækt, og reka bændur af jörðum sínum. Æ fleiri fengu nú stöðu verkafólks, fóru að vinna við landbúnað eða handiðnað af einhverju tagi og fá laun fyrir. Á 18. öld var orðin til stór stétt iðnverkafólks sem bjó í borgum og fékk laun fyrir að vinna í verksmiðjum eða námum. Með þessari þróun varð mikil breyting á því hvernig stéttaátök fóru fram. Þá urðu verkföll eitt beittasta vopn lágstéttarinnar.
Klæðskerar í verkfalli 1910.
Iðnverkafólkið komst fljótlega að því að með samstöðu og samtökum hafði það mun betri aðstöðu til að koma fram kröfum sínum um bætt kjör og bættan aðbúnað. Til urðu verkalýðssamtök eða verkalýðsfélög, og eitt sterkasta vopn þeirra voru verkföll. Þau voru fljótlega bönnuð með lögum, en það hafði lítil áhrif. Árið 1842 kom til fyrsta allsherjarverkfallsins í Bretlandi. Þá lagði stór hluti verkalýðs niður vinnu, fyrst í kolanámum í Staffordshire, en síðan í fjölmörgum verksmiðjum og námum um allt Bretland. Verkfallið var vandlega skipulagt og var um helmingur alls verkafólks í Bretlandi, um 500.000 manns, í verkfalli þegar mest var.
Verkalýðshreyfingin breiddist síðan ört út með æ vaxandi iðnvæðingu í Evrópu og Norður-Ameríku, og síðar í öðrum heimshlutum. Á Íslandi var fyrst reynt að stofna verkalýðsfélög seint á 19. öld. Árið 1905 var Verkamannafélagið Dagsbrún stofnað í Reykjavík. Það háði árangursríkt verkfallið árið 1913 við hafnargerðina í Reykjavík. Eftir það styrktist staða verkalýðsfélaga á Íslandi. Mörg verkföll voru háð á árunum 1930-1980, oft með mjög góðum árangri. Sérstaklega færðu hin svokölluðu skæruverkföll ársins 1942 verkafólki gríðarlegar kjarabætur, sem urðu varanlegar nokkra áratugi á eftir. Félög opinberra starfsmanna fengu þó ekki verkfallsrétt fyrr en 1976.
Eftir að félög opinberra starfsmanna fengu verkfallsrétt hafa þau stundum beitt því, oft með góðum árangri. Á tímabilinu 1984-1991 gerðist það stundum að ríkisvaldið svipti samtök þeirra árangri verkfallsaðgerðanna með lagasetningu að loknum samningum. Þetta skapaði mikla úlfúð meðal opinberra starfsmanna gagnvart ríkisvaldinu. Eftir 1991 hefur þó ekki komið til slíkra aðgerða af hálfu ríkisvaldsins.
Sú þróun hefur víða orðið, sérstaklega eftir 1985, að atvinnurekendur og ríkisvald hafa mætt verkfallsvopninu og baráttusinnuðum verkalýðssamtökum af æ meiri hörku. Í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur fjölda verksmiðja og vinnustaða einfaldlega verið lokað alveg eða framleiðslan flutt til annarra landa. Það er ein af afleiðingum svokallaðra opnari alþjóðaviðskipta og meira „frelsis“ í flutningum fjármagns. Þessi þróun hefur leitt til rýrnunar lífskjara meðal almennings og stöðugt meira atvinnuleysis, en æ meiri auðsöfnunar um 1% íbúa, hinnar vellauðugu yfirstéttar sem ein hefur aðstöðu til að nýta sér þetta „frelsi“. Margir hópar verkafólks og opinberra starfsmanna hafa þó enn öfluga stöðu og geta beitt verkfallsvopninu með góðum árangri án þess að ríkisvald eða atvinnurekendur fái að gert.
Nokkrar heimildir:
Harman, Chris: A People´s History of the World. London 2008.
Íslenskur söguatlas 3. bindi. Saga 20. aldar. (Ritstj. Árni Daníel Júlíusson, Helgi Skúli Kjartansson, Jón Ólafur Ísberg.) Rv. 1993, bls. 16-32, 86-87, 102-115, 158-159.
Marx, Karl: Capital. Oxford 1999.
Jón Rafnsson: Vor í verum. Af vettvangi stéttabaráttunar á Íslandi. Rv. 1957.
Sumarliði Ísleifsson: Saga Alþýðusambands Íslands. Rv. 2013.
Thompson, E.P.: The Making of the English Working Class. London 1964.
Árni Daníel Júlíusson. „Hvað er verkfall og hver er saga verkfallsréttar í heiminum?“ Vísindavefurinn, 31. mars 2014, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=25341.
Árni Daníel Júlíusson. (2014, 31. mars). Hvað er verkfall og hver er saga verkfallsréttar í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=25341
Árni Daníel Júlíusson. „Hvað er verkfall og hver er saga verkfallsréttar í heiminum?“ Vísindavefurinn. 31. mar. 2014. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=25341>.