- Hvenær verður bær að borg?
- Hvað þurfa margir að búa í Akureyrabæ til að hann verði kallaður borg?
- Hvenær verður bær að borg og kauptún að kaupstað?
- Hvenær breytist Kópavogur úr bæ í borg?
- Hvar eru mörkin á milli þorps, bæjar og borgar?
Á Vísindavefnum hefur áður verið fjallað um dreifbýli og þéttbýli og hvaða skilgreiningar liggja þar að baki (sjá svar Sigurðar Guðmundssonar við spurningunni Hvernig eru hugtökin dreifbýli og landsbyggð skilgreind hér á landi?). Yfirleitt er þéttbýli skilgreint út frá íbúafjölda og þéttleika byggðarinnar. Til dæmis er meginreglan á Norðurlöndum að þéttbýli sé svæði með yfir 200 íbúa og að ekki séu meira en 200 metrar á milli húsa. Í Kanada er gjarnan miðað við 1000 íbúa, í Vestur-Evrópu er algengt að mörkin séu 2000 íbúar, sums staðar í Afríku er þéttbýli talið þar sem íbúar eru 10.000 eða fleiri á ákveðnu svæði og í Japan er miðað við 50.000. Hvað sem mismunandi skilgreiningum á þéttbýli og dreifbýli líður þá er yfirleitt um að ræða einhverjar tölur sem hægt er að miða við þó að þær séu ekki alltaf algildar. Málið er hins vegar ekki svona einfalt þegar kafað er aðeins dýpra í þéttbýlið og reynt að útskýra muninn á borg og bæ út frá íbúafjölda. Byrjum á því að skoða þessi orð, borg (e. city) og bæ (e. town). Í Íslenskri orðabók er orðið borg útskýrt sem ‘staður, bær’. Orðið bær er hins vegar skilgreint sem sem ‘kaupstaður, borg (byggt svæði)’. Eins og sjá má er farið í hring, borg er bær og bær er borg, og því lítið á þessu að græða ef draga á einhverja línu þarna á milli. Við komumst aðeins lengra ef ensku orðin city og town eru skoðuð. Í Ensk-íslenskri orðabók er city þýtt sem ‘borg, stórbær’ á meðan town er ‘kaupstaður, bær, borg, þéttbýli’. Vissulega getur þetta þýtt það sama en þó fæst sú tilfinning að orðið city sé notað um eitthvað aðeins stærra en town þótt ekki séu dregin skýr mörk.
Á þessum tíma var Reykjavík aðeins um tíu þúsund manna bær og því athyglisvert að kalla embættið borgarstjóra en ekki bæjarstjóra en það tengist líklega væntingum manna um hlutverk höfuðstaðarins og þann stórhug sem ríkti eftir að heimastjórnin komst á árið 1904.Hugsanlega má rekja tal um borgarstjóra svona snemma til danskra áhrifa þar sem Danir nota orðið ‘borgmester’ þó að þeir tali raunar alls ekki um 'borg' sem borg í íslensku merkingunni, heldur þýðir þetta höll eða kastali. Raunar er ekkert orð í dönsku sem er notað sjálfstætt fyrir 'city', Kaupmannahöfn er 'by' alveg eins og Árósar og 5000 manna bæir. Ef tala þarf um stórborgir segja Danir hins vegar 'storby'. Í tilvitnuninni hér að ofan er vísað til þess að borg gegni öðru og meira hlutverki en bær. Það er kannski ekki verra að nota hlutverk eða gerð þéttbýlisins til þess að greina á milli borga og bæja heldur en íbúafjöldann. Í Landafræði – maðurinn, auðlindirnar, umhverfið segir til dæmis: „Borg er miðpunktur verslunar og viðskipta, samskipta, menntunar, menningar, afþreyingar og þjónustu“ (bls. 266). Hins vegar gefur þetta okkur ekki eina ákveðna og algilda línu sem hægt er að nota til að skilja á milli þess hvenær þéttbýli er bær og hvenær borg.
Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda byggi slík málnotkun á hefð. Byggðaráð skv. 38. gr. má á sama hátt nefnast bæjarráð eða hreppsráð og sveitarstjóra má kalla bæjarstjóra. Í Reykjavík nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.Niðurstaðan úr þessari litlu athugun á merkingu hugtakanna borg og bær er sú að þó að borg (city) kunni að vera sérstaklega skilgreind eining í stjórnsýslu tiltekinna landa, þá er í daglegu tali ekki ein ákveðin skilgreining á því hvað telst borg og hvað bær. Frekar er um huglægt mat að ræða og málvenju sem skapast hefur. Það er því ólíklegt að þegar og ef íbúar Kópavogs verða 30.000 eða Akureyri telur 25.000 íbúa verði farið að tala um þessa staði sem borgir. Þó eru þeir nú þegar fjölmennari en Reykjavík var þegar fyrst var talað um borgarstjóra. Heimildir og myndir:
- City og Town á Wikipedia, the free encyclopedia
- City á Encyclopædia Britannica Online
- Government of Saskatchewan
- Answers.com
- Global Education
- Geography Teachers Associations of South Australia
- Reykjavíkurborg
- Sveitarstjórnarlög nr. 45 frá 1998
- Peter Östman o.fl. 2000. Landafræði - maðurinn, auðlindirnar, umhverfið. Reykjavík: Mál og menning.
- Flickr - Empire State - New York City. Höfundur myndar Sam Valadi. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 7.12.2021).
- Flickr.com - Reykjavík. Höfundur myndar: Hugi Ólafsson. Birt undir CC BY 2.0 leyfi. (Sótt 7.12.2021).
Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og Þorsteinn Vilhjálmsson ritstjóri Vísindavefsins fá bestu þakkir fyrir góðar ábendingar varðandi breytingu Reykjavíkur úr bæ í borg.