Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Vísindavefurinn hefur fengið nokkrar spurningar um hvar mörkin liggi á milli bæjar og borgar. Spurningarnar eru meðal annars:
  • Hvenær verður bær að borg?
  • Hvað þurfa margir að búa í Akureyrabæ til að hann verði kallaður borg?
  • Hvenær verður bær að borg og kauptún að kaupstað?
  • Hvenær breytist Kópavogur úr bæ í borg?
  • Hvar eru mörkin á milli þorps, bæjar og borgar?

Á Vísindavefnum hefur áður verið fjallað um dreifbýli og þéttbýli og hvaða skilgreiningar liggja þar að baki (sjá svar Sigurðar Guðmundssonar við spurningunni Hvernig eru hugtökin dreifbýli og landsbyggð skilgreind hér á landi?). Yfirleitt er þéttbýli skilgreint út frá íbúafjölda og þéttleika byggðarinnar. Til dæmis er meginreglan á Norðurlöndum að þéttbýli sé svæði með yfir 200 íbúa og að ekki séu meira en 200 metrar á milli húsa. Í Kanada er gjarnan miðað við 1000 íbúa, í Vestur-Evrópu er algengt að mörkin séu 2000 íbúar, sums staðar í Afríku er þéttbýli talið þar sem íbúar eru 10.000 eða fleiri á ákveðnu svæði og í Japan er miðað við 50.000.

Hvað sem mismunandi skilgreiningum á þéttbýli og dreifbýli líður þá er yfirleitt um að ræða einhverjar tölur sem hægt er að miða við þó að þær séu ekki alltaf algildar. Málið er hins vegar ekki svona einfalt þegar kafað er aðeins dýpra í þéttbýlið og reynt að útskýra muninn á borg og bæ út frá íbúafjölda.

Byrjum á því að skoða þessi orð, borg (e. city) og (e. town). Í Íslenskri orðabók er orðið borg útskýrt sem ‘staður, bær’. Orðið bær er hins vegar skilgreint sem sem ‘kaupstaður, borg (byggt svæði)’. Eins og sjá má er farið í hring, borg er bær og bær er borg, og því lítið á þessu að græða ef draga á einhverja línu þarna á milli.

Við komumst aðeins lengra ef ensku orðin city og town eru skoðuð. Í Ensk-íslenskri orðabók er city þýtt sem ‘borg, stórbær’ á meðan town er ‘kaupstaður, bær, borg, þéttbýli’. Vissulega getur þetta þýtt það sama en þó fæst sú tilfinning að orðið city sé notað um eitthvað aðeins stærra en town þótt ekki séu dregin skýr mörk.

New York, stærsta borg Bandaríkjanna og ein af fjölmennustu borgum heims.

Ef farið er á netið og kannað hvað þar er sagt um þessi hugtök, það er borg (city) og bæ (town), þá má til dæmis sjá að á Wikipedia.org er stærð, þéttleiki byggðar eða mikilvægi sagt skilja á milli borgar og bæjar. Hið sama á við um skýringar á Encyclopedia Britannica. Ýmsar orðabækur á netinu gefa einnig þessa skýringu, það er að borg sé stærri en bær en án þess þó að segja hvar mörkin liggja.

Borg getur þó haft sérhæfðari merkingu þar sem sveitarfélag (e. municipality) getur kallað sig borg að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til dæmis í Bandaríkjunum og Kanada. Í Kanada er gjarnan miðað við íbúafjölda. Til dæmis getur sveitarfélag með 5000 íbúa kallast borg í Saskatchewan-fylki en 500 íbúa þarf til þess að sveitarfélag geti kallast bær. Mörkin eru þó breytileg á milli fylkja og fæstir eiga við 5000 manna sveitarfélag þegar þeir nota orðið borg í daglegu tali. Þessar skilgreiningar eiga meira skylt við stjórnsýslu heldur en að endurspegla hugmyndir fólks um stærð borga.

Almennt virðist vera lögð sú merking í hugtökin að borg sé eitthvað stærra og meira en bær. Nákvæmlega hvaða skilningur er svo lagður í þessi hugtök fer að miklu leyti eftir því hver á í hlut, í hvaða samhengi og hvaða venja hefur skapast í málnotkun. Vissulega geta flestir verið sammála því að London, París, New York, Tokyo og Peking séu borgir. En í óformlegri könnun sem höfundur gerði meðal nokkurra Kínverja, Indónesa og Pakistana kom berlega í ljós að þeim fannst skrýtið að tala um Reykjavík með sína rúmlega 100.000 íbúa sem borg á meðan þeir töluðu um sín heimkynni, þar sem búa mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir manna, sem ‘town’. Að sama skapi fannst þeim fulldjarft af Íslendingnum að vilja tala um meðalstórt sveitarfélag á Íslandi sem bæ (town), í þeirra huga er slíkt í mesta lagi aðeins þorp (e. village) en líklega bara sveit.

Og af hverju ætli Reykjavík, smábær á mælikvarða margra landa, sé kölluð borg? Strax upp úr aldamótunum 1900 heyrðist stundum talað um Reykjavík sem borg eða höfuðborg (það sést af og til í Reykjavíkurblöðum frá þessum tíma). Samt sem áður var hið opinbera heiti Reykjavíkurbær, bæjarstjórn, bæjarfógeti og svo framvegis. Frávik frá þessu var þegar embætti borgarstjóra var stofnað með lögum árið 1907 en ári síðar tók fyrsti borgarstjórinn til starfa. Hann var sem sagt kallaður borgarstjóri frá upphafi en ekki bæjarstjóri. Seinna komu fleiri undantekningar. Embætti borgarritara var stofnað 1934 og borgarlæknis 1949. Árið 1962 tóku gildi ný lög um sveitarstjórnir og tveimur árum síðar var sett ný borgarmálasamþykkt fyrir Reykjavík. Með henni breyttist Reykjavík opinberlega úr "bæ" í "borg". Þá var öllum embættis- og stofnanaheitum breytt nema nafni Bæjarútgerðar Reykjavíkur, borgarstjórn kom í stað bæjarstjórnar, borgarfógeti í stað bæjarfógeta og svo framvegis.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er að finna stutta klausu um stofnun borgarstjóraembættisins. Þar segir meðal annars:
Á þessum tíma var Reykjavík aðeins um tíu þúsund manna bær og því athyglisvert að kalla embættið borgarstjóra en ekki bæjarstjóra en það tengist líklega væntingum manna um hlutverk höfuðstaðarins og þann stórhug sem ríkti eftir að heimastjórnin komst á árið 1904.

Hugsanlega má rekja tal um borgarstjóra svona snemma til danskra áhrifa þar sem Danir nota orðið ‘borgmester’ þó að þeir tali raunar alls ekki um 'borg' sem borg í íslensku merkingunni, heldur þýðir þetta höll eða kastali. Raunar er ekkert orð í dönsku sem er notað sjálfstætt fyrir 'city', Kaupmannahöfn er 'by' alveg eins og Árósar og 5000 manna bæir. Ef tala þarf um stórborgir segja Danir hins vegar 'storby'.

Í tilvitnuninni hér að ofan er vísað til þess að borg gegni öðru og meira hlutverki en bær. Það er kannski ekki verra að nota hlutverk eða gerð þéttbýlisins til þess að greina á milli borga og bæja heldur en íbúafjöldann. Í Landafræði – maðurinn, auðlindirnar, umhverfið segir til dæmis: „Borg er miðpunktur verslunar og viðskipta, samskipta, menntunar, menningar, afþreyingar og þjónustu“ (bls. 266). Hins vegar gefur þetta okkur ekki eina ákveðna og algilda línu sem hægt er að nota til að skilja á milli þess hvenær þéttbýli er bær og hvenær borg.

Íslendingar eru stoltir af borginni sinni þó að sums staðar úti í hinum stóra heimi væri hún kannski frekar kölluð bær.

Fyrst minnst var á borgarstjóra má geta þess að í 11. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45 frá árinu 1998 kemur fram að Reykjavík eitt sveitarfélaga hefur borgarstjóra og hlýtur því að teljast eina borgin á Íslandi. Orðrétt segir:
Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda byggi slík málnotkun á hefð. Byggðaráð skv. 38. gr. má á sama hátt nefnast bæjarráð eða hreppsráð og sveitarstjóra má kalla bæjarstjóra.

Í Reykjavík nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.

Niðurstaðan úr þessari litlu athugun á merkingu hugtakanna borg og bær er sú að þó að borg (city) kunni að vera sérstaklega skilgreind eining í stjórnsýslu tiltekinna landa, þá er í daglegu tali ekki ein ákveðin skilgreining á því hvað telst borg og hvað bær. Frekar er um huglægt mat að ræða og málvenju sem skapast hefur.

Það er því ólíklegt að þegar og ef íbúar Kópavogs verða 30.000 eða Akureyri telur 25.000 íbúa verði farið að tala um þessa staði sem borgir. Þó eru þeir nú þegar fjölmennari en Reykjavík var þegar fyrst var talað um borgarstjóra.

Heimildir og myndir:


Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og Þorsteinn Vilhjálmsson ritstjóri Vísindavefsins fá bestu þakkir fyrir góðar ábendingar varðandi breytingu Reykjavíkur úr bæ í borg.

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

6.3.2007

Síðast uppfært

7.12.2021

Spyrjandi

Ívar Daði
Andri Ómarsson
Andri Sævar
Tryggvi R. Brynjarsson
Kristján Atli

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2007, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6519.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2007, 6. mars). Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6519

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2007. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6519>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað þurfa margir að búa í bæ til að hann verði að borg?
Vísindavefurinn hefur fengið nokkrar spurningar um hvar mörkin liggi á milli bæjar og borgar. Spurningarnar eru meðal annars:

  • Hvenær verður bær að borg?
  • Hvað þurfa margir að búa í Akureyrabæ til að hann verði kallaður borg?
  • Hvenær verður bær að borg og kauptún að kaupstað?
  • Hvenær breytist Kópavogur úr bæ í borg?
  • Hvar eru mörkin á milli þorps, bæjar og borgar?

Á Vísindavefnum hefur áður verið fjallað um dreifbýli og þéttbýli og hvaða skilgreiningar liggja þar að baki (sjá svar Sigurðar Guðmundssonar við spurningunni Hvernig eru hugtökin dreifbýli og landsbyggð skilgreind hér á landi?). Yfirleitt er þéttbýli skilgreint út frá íbúafjölda og þéttleika byggðarinnar. Til dæmis er meginreglan á Norðurlöndum að þéttbýli sé svæði með yfir 200 íbúa og að ekki séu meira en 200 metrar á milli húsa. Í Kanada er gjarnan miðað við 1000 íbúa, í Vestur-Evrópu er algengt að mörkin séu 2000 íbúar, sums staðar í Afríku er þéttbýli talið þar sem íbúar eru 10.000 eða fleiri á ákveðnu svæði og í Japan er miðað við 50.000.

Hvað sem mismunandi skilgreiningum á þéttbýli og dreifbýli líður þá er yfirleitt um að ræða einhverjar tölur sem hægt er að miða við þó að þær séu ekki alltaf algildar. Málið er hins vegar ekki svona einfalt þegar kafað er aðeins dýpra í þéttbýlið og reynt að útskýra muninn á borg og bæ út frá íbúafjölda.

Byrjum á því að skoða þessi orð, borg (e. city) og (e. town). Í Íslenskri orðabók er orðið borg útskýrt sem ‘staður, bær’. Orðið bær er hins vegar skilgreint sem sem ‘kaupstaður, borg (byggt svæði)’. Eins og sjá má er farið í hring, borg er bær og bær er borg, og því lítið á þessu að græða ef draga á einhverja línu þarna á milli.

Við komumst aðeins lengra ef ensku orðin city og town eru skoðuð. Í Ensk-íslenskri orðabók er city þýtt sem ‘borg, stórbær’ á meðan town er ‘kaupstaður, bær, borg, þéttbýli’. Vissulega getur þetta þýtt það sama en þó fæst sú tilfinning að orðið city sé notað um eitthvað aðeins stærra en town þótt ekki séu dregin skýr mörk.

New York, stærsta borg Bandaríkjanna og ein af fjölmennustu borgum heims.

Ef farið er á netið og kannað hvað þar er sagt um þessi hugtök, það er borg (city) og bæ (town), þá má til dæmis sjá að á Wikipedia.org er stærð, þéttleiki byggðar eða mikilvægi sagt skilja á milli borgar og bæjar. Hið sama á við um skýringar á Encyclopedia Britannica. Ýmsar orðabækur á netinu gefa einnig þessa skýringu, það er að borg sé stærri en bær en án þess þó að segja hvar mörkin liggja.

Borg getur þó haft sérhæfðari merkingu þar sem sveitarfélag (e. municipality) getur kallað sig borg að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til dæmis í Bandaríkjunum og Kanada. Í Kanada er gjarnan miðað við íbúafjölda. Til dæmis getur sveitarfélag með 5000 íbúa kallast borg í Saskatchewan-fylki en 500 íbúa þarf til þess að sveitarfélag geti kallast bær. Mörkin eru þó breytileg á milli fylkja og fæstir eiga við 5000 manna sveitarfélag þegar þeir nota orðið borg í daglegu tali. Þessar skilgreiningar eiga meira skylt við stjórnsýslu heldur en að endurspegla hugmyndir fólks um stærð borga.

Almennt virðist vera lögð sú merking í hugtökin að borg sé eitthvað stærra og meira en bær. Nákvæmlega hvaða skilningur er svo lagður í þessi hugtök fer að miklu leyti eftir því hver á í hlut, í hvaða samhengi og hvaða venja hefur skapast í málnotkun. Vissulega geta flestir verið sammála því að London, París, New York, Tokyo og Peking séu borgir. En í óformlegri könnun sem höfundur gerði meðal nokkurra Kínverja, Indónesa og Pakistana kom berlega í ljós að þeim fannst skrýtið að tala um Reykjavík með sína rúmlega 100.000 íbúa sem borg á meðan þeir töluðu um sín heimkynni, þar sem búa mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir manna, sem ‘town’. Að sama skapi fannst þeim fulldjarft af Íslendingnum að vilja tala um meðalstórt sveitarfélag á Íslandi sem bæ (town), í þeirra huga er slíkt í mesta lagi aðeins þorp (e. village) en líklega bara sveit.

Og af hverju ætli Reykjavík, smábær á mælikvarða margra landa, sé kölluð borg? Strax upp úr aldamótunum 1900 heyrðist stundum talað um Reykjavík sem borg eða höfuðborg (það sést af og til í Reykjavíkurblöðum frá þessum tíma). Samt sem áður var hið opinbera heiti Reykjavíkurbær, bæjarstjórn, bæjarfógeti og svo framvegis. Frávik frá þessu var þegar embætti borgarstjóra var stofnað með lögum árið 1907 en ári síðar tók fyrsti borgarstjórinn til starfa. Hann var sem sagt kallaður borgarstjóri frá upphafi en ekki bæjarstjóri. Seinna komu fleiri undantekningar. Embætti borgarritara var stofnað 1934 og borgarlæknis 1949. Árið 1962 tóku gildi ný lög um sveitarstjórnir og tveimur árum síðar var sett ný borgarmálasamþykkt fyrir Reykjavík. Með henni breyttist Reykjavík opinberlega úr "bæ" í "borg". Þá var öllum embættis- og stofnanaheitum breytt nema nafni Bæjarútgerðar Reykjavíkur, borgarstjórn kom í stað bæjarstjórnar, borgarfógeti í stað bæjarfógeta og svo framvegis.

Á heimasíðu Reykjavíkurborgar er að finna stutta klausu um stofnun borgarstjóraembættisins. Þar segir meðal annars:
Á þessum tíma var Reykjavík aðeins um tíu þúsund manna bær og því athyglisvert að kalla embættið borgarstjóra en ekki bæjarstjóra en það tengist líklega væntingum manna um hlutverk höfuðstaðarins og þann stórhug sem ríkti eftir að heimastjórnin komst á árið 1904.

Hugsanlega má rekja tal um borgarstjóra svona snemma til danskra áhrifa þar sem Danir nota orðið ‘borgmester’ þó að þeir tali raunar alls ekki um 'borg' sem borg í íslensku merkingunni, heldur þýðir þetta höll eða kastali. Raunar er ekkert orð í dönsku sem er notað sjálfstætt fyrir 'city', Kaupmannahöfn er 'by' alveg eins og Árósar og 5000 manna bæir. Ef tala þarf um stórborgir segja Danir hins vegar 'storby'.

Í tilvitnuninni hér að ofan er vísað til þess að borg gegni öðru og meira hlutverki en bær. Það er kannski ekki verra að nota hlutverk eða gerð þéttbýlisins til þess að greina á milli borga og bæja heldur en íbúafjöldann. Í Landafræði – maðurinn, auðlindirnar, umhverfið segir til dæmis: „Borg er miðpunktur verslunar og viðskipta, samskipta, menntunar, menningar, afþreyingar og þjónustu“ (bls. 266). Hins vegar gefur þetta okkur ekki eina ákveðna og algilda línu sem hægt er að nota til að skilja á milli þess hvenær þéttbýli er bær og hvenær borg.

Íslendingar eru stoltir af borginni sinni þó að sums staðar úti í hinum stóra heimi væri hún kannski frekar kölluð bær.

Fyrst minnst var á borgarstjóra má geta þess að í 11. grein sveitarstjórnarlaga nr. 45 frá árinu 1998 kemur fram að Reykjavík eitt sveitarfélaga hefur borgarstjóra og hlýtur því að teljast eina borgin á Íslandi. Orðrétt segir:
Yfirstjórn hvers sveitarfélags nefnist sveitarstjórn. Heimilt er sveitarstjórn að nota heitið hreppsnefnd eða bæjarstjórn, enda byggi slík málnotkun á hefð. Byggðaráð skv. 38. gr. má á sama hátt nefnast bæjarráð eða hreppsráð og sveitarstjóra má kalla bæjarstjóra.

Í Reykjavík nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.

Niðurstaðan úr þessari litlu athugun á merkingu hugtakanna borg og bær er sú að þó að borg (city) kunni að vera sérstaklega skilgreind eining í stjórnsýslu tiltekinna landa, þá er í daglegu tali ekki ein ákveðin skilgreining á því hvað telst borg og hvað bær. Frekar er um huglægt mat að ræða og málvenju sem skapast hefur.

Það er því ólíklegt að þegar og ef íbúar Kópavogs verða 30.000 eða Akureyri telur 25.000 íbúa verði farið að tala um þessa staði sem borgir. Þó eru þeir nú þegar fjölmennari en Reykjavík var þegar fyrst var talað um borgarstjóra.

Heimildir og myndir:


Guðjón Friðriksson sagnfræðingur og Þorsteinn Vilhjálmsson ritstjóri Vísindavefsins fá bestu þakkir fyrir góðar ábendingar varðandi breytingu Reykjavíkur úr bæ í borg. ...