Hvers vegna kemur ekki skuggi af eldi en eldur getur búið til skugga af öðrum hlutum?Þegar lýst er á hlut fer ljósið að hluta til í gegnum hann, það endurkastast af honum eða er gleypt af hlutnum. Styrkur ljóssins sem kemst í gegn og endar á fletinum fyrir aftan hefur því minnkað. Ljósið sem fer hins vegar framhjá hlutnum lendir á fletinum fyrir aftan í fullum ljósstyrk. Við nemum mun á ljósa fletinum og dekkri fletinum og köllum dekkri flötinn skugga hlutarins. Þetta getum við sett fram á eftirfarandi hátt: $$Skuggi = \frac{Ljósmagn sem fer í gegnum hlut}{Ljósmagn sem fer framhjá hlut} (1)$$ Því lægra sem hlutfall jöfnunnar er, því sterkari er skugginn og nær hann hápunkti sínum þegar hlutfallið er 0. Ef hlutfallið er hins vegar 1 (eða mjög nálægt einum) myndast ekki skuggi. Hægt er að búa til eld með því að hita eldfim efni nægilega mikið. Eldfimu efnin ganga þá í efnasamband við súrefni í loftinu. Ef lífrænt efni brennur hreinum bruna myndast koltvíildi (CO2, koltvíoxíð, koltvísýringur) og vatn (H2O). Hreinn bruni gerist þó sjaldan og við venjulegar aðstæður myndast því aðallega koltvíildi (CO2), vatn (H2O) og einnig koleinildi (CO) (koleinoxíð) og sót (kolefnisagnir, Cn). Guli, rauði og appelsínuguli litur eldsins stafar af því að heitar sótagnir geisla eins og svarthlutur (e. black body) þegar þær hitna. Gas (efni í gasham) er þekkt fyrir að vera gljúpt, það er að segja það er nóg pláss á milli sameindanna og frumeindanna og kemst ljós auðveldlega í gegnum gasið. Eldur er einungis rafsegulbylgjur, afleiðing efnasambanda sem myndast við brunann; við skynjum eld sem hita og ljós. Í eldinum leynast fjölmörg efnasambönd á gasformi en einnig sót, sem þyrlast upp í loftið vegna hitauppstreymis (e. convection). Gastegundirnar sem myndast við bruna lífrænna efna gleypa nánast ekkert ljós á sýnilega sviðinu, þessar gastegundir verða þess því ekki valdandi að minnka styrk ljóss sem fer í gegnum eld. Sótið getur hins vegar hindrað að ljós sem er beint að eldinum komist í gegnum eldinn; þetta gerist vegna þess að sótið gleypir ljósið sem skellur á það. Á þennan hátt getur eldur hagað sér eins og hluturinn sem rætt var um hér efst. Eldur, eða öllu heldur efni í eldinum, getur varpað skugga en sá skuggi er vanalega mjög daufur. Sýnileiki skuggans ræðst af magni sótsins sem er í eldinum; því meira sót, þeim mun greinilegri verður skugginn. Ljósgjafinn sem lýsir á eldinn spilar einnig stórt hlutverk, ljósgjafinn þarf að vera töluvert bjartari en eldurinn til þess að munur sjáist á ljósinu sem fer í gegnum eldinn og ljósinu sem fer framhjá eldinum. Þessu er hægt að lýsa með jöfnu 2: $$Skuggi með upplýstum bakgrunni = \frac{X+U}{Y+U} (2)$$ þar sem X = ljósmagn sem fer í gegnum hlut, Y = ljósmagn sem fer framhjá hlut, og U = upplýstur bakgrunnur vegna ljóss frá eldinum. Nú gildir að X er alltaf jafnt og eða minna en Y, sjá jöfnu 1. Y getur verið meira eða minna en U, það fer eftir ljósgjafanum og ljósstyrk eldsins. Sótagnirnar í eldinum valda ekki mikilli hindrun ljóss í gegnum eldinn, því er X mjög nálægt því að vera 1 fyrir skugga elds; við skulum gefa okkur að X = 0,95 í dæmunum okkar. Y er hins vegar alltaf 1 því það er styrkur óhindraðs ljóss, það er að segja styrkur ljósgjafans. Ef U = 100, það er mun meira ljós frá eldinum fellur á bakgrunninn en kemur frá ljósgjafanum, er hlutfall jöfnunnar 0,9995 og því sést enginn skuggi. Ef U = 0,01, það er mun meira ljós frá ljósgjafanum en eldinum fellur á bakgrunninn, þá er hlutfall jöfnunnar 0,9505 og við gætum séð örla á skugga.

Hægt er að fá fram daufan skugga af eldi sem inniheldur sót ef ljósstyrkur ljósgjafans er nægilega mikill.
- ATEX Bækl mars09. (Skoðað 13.08.2013).
- Experimental and numerical study of ammonia combustion | Catherine Duynslaegher - Academia.edu. (Skoðað 13.08.2013).
- Hydrogen sulfide - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 13.08.2013).
- Combustible Hydrocarbon Gas Monitoring. (Skoðað 13.08.2013).
- Hydrogen sulfide - Wikipedia, the free encyclopedia. (Skoðað 13.08.2013).
- Combustible Hydrocarbon Gas Monitoring. (Skoðað 13.08.2013).
- Absorption of light by soot particles: determination of the absorption coefficient by means of aethalometers. (Skoðað 13.08.2013).
- Wildfire - Wikipedia, the free encyclopedia. (Sótt 13.08.2013).
- Physics: Why does fire or a flame not make shadow while other things around it do? - Quora. (Sótt 13.08.2013).