Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ég var að velta því fyrir mér hvort að hægt væri að kveikja í vaxi svo það logi, eitt og sér.
Stutta svarið við spurningunni er eftirfarandi: Það þarf ekki kertaþráð til að kveikja í kertavaxi en kveikurinn sér til þess að þetta takist við venjulegar heimilisaðstæður. Ef ætlunin er að kveikja í kertavaxi án kveiks þarf fyrst að hita vaxið upp að svonefndu brunamarki þess sem er yfirleitt rétt yfir 240°C.
Kerti eru gerð úr vaxi og kveik sem einnig kallast kertaþráður. Parafínkerti eru algengustu kertin til daglegrar notkunar en uppistaða þeirra er vetniskolefni (e. hydrocarbons) með efnaformúluna C20H42 upp í C40H82 auk þess sem sterínsýru (C17H35COOH, e. stearic acid) er blandað út í til að bæta eiginleika kertisins.
Í miðju kerta er kveikur. Þegar logandi eldspýta er borin upp að kveiknum bráðnar kertavaxið á honum og gufar upp vegna hitans frá eldinum á eldspýtunni. Kertavaxgufan blandast súrefninu í kring og gengur í efnasamband við súrefnið. Þetta seinasta ferli kallast bruni og við hann myndast vatn (H2O) og koltvíoxíð (koldíoxíð, CO2), koleinoxíð (kolmónoxíð, CO) og sót (Cn) ásamt öðrum millisameindum.
Í miðju kerta er kveikur, en hlutverk hans er að halda brennslu kertisins stöðugri.
Þegar kertavaxið umbreytist í þessi nýju efni losnar orka úr læðingi. Það gerist vegna þess að efnatengi nýju sameindanna eru orkulægri en efnatengi vaxsameindanna. Umframorkan sem losnar við efnahvörfin veldur því að kertaloginn viðheldur sér eftir að hann kviknar fyrst. Orkan úr efnahvörfunum fer nefnilega í að bræða kertavaxið, hita kertavaxið að uppgufun og koma efnahvarfi kertavaxgufunnar og súrefnisins af stað. Nú segjum við að það hafi kviknað á kertinu og viðheldur hitinn frá kertaloganum áframhaldandi bruna kertisins, enda er kertaloginn 800-1000°C heitur.
Hlutverk kveiksins er að halda brennslu kertisins stöðugri. Jafnvægi þarf að ríkja milli bráðins kertavaxs og þess sem gufar upp. Kveikurinn á sem sagt að stjórna því að hæfilegt magn af kertavaxi bráðni í einu og að kertavaxið færist hæfilega hratt upp kveikinn til uppgufunar. Kveikurinn er vanalega gerður úr þéttofnum bómullarþráðum og meðhöndlaður með bórsýru, salmíaki og fosfötum til að varna því að hann brenni of hratt og gefi frá sér reyk. Þéttni kveiksins hefur mikil áhrif á brennsluhraða hans, því þéttari sem kveikurinn er þeim mun hægar brennur hann. Kerti með breiðum kveik brennur hraðar en kerti með grönnum kveik. Ástæðan er sú að breiður kveikur dregur bráðið kertavax hraðar upp í sig. Einnig brennur kerti með mörgum kveikjum hraðar en ef einungis einn kveikur væri í kertinu.
Það hvort hægt sé að kveikja í efni er háð blossamarki (e. flash point) efnisins, en það er lægsta hitastig efnisins sem dugir til að kveikja í brennanlegu gastegundunum sem losna frá því. Blossamark parafíns er á bilinu 200-240°C; blossamarkið er lægst fyrir hreint parafín en hækkar ef parafínið er íblandað. Þetta þýðir að þegar kerti, sem er gert úr hreinu parafíni, er hitað upp að 200°C ættu að hafa losnað nægilega mikið af brennanlegum lofttegundum sem hægt er að kveikja í með varmagjafa (til dæmis neista eða eldi); eldurinn sem myndast kulnar þó ef varmagjafinn er fjarlægður. Nokkrum gráðum hærra en blossamarkið liggur brunamark efnisins. Ef parafínið er hitað að brunamarki efnisins og kveikt í brennanlegu lofttegundunum nær eldurinn að loga eftir að varmagjafinn er fjarlægður.
Kerti með mörgum kveikjum brennur hraðar en ef einungis einn kveikur væri í kertinu.
Þar sem parafínkerti eru vanalega íblönduð með steríni liggur blossamark venjulegra kerta í kringum 240°C, það þarf því að hita þau upp að 240°C til að geta kveikt í þeim í stutta stund. Sé venjulegt kerti hitað aðeins meira (upp að brunamarki þess) ætti að vera hægt að kveikja í brennanlegum lofttegundum þess þannig að það logi á kertinu einu og sér þar til vaxið er uppurið, að því tilskyldu að nóg sé af súrefni og að hitastig efnisins fari ekki niður fyrir brunamark þess. Það þarf því ekki kertaþráð til að kveikja í kertavaxi en það er ekki hægt að kveikja beint í kertavaxi sem er við herbergishita (það þarf að hita það yfir 240°C hita) eins og hægt er með kerti sem í er kveikur. Kveikurinn gerir það sem sagt að verkum að hægt er að kveikja í kertum við venjulegar heimilisaðstæður.
Heimildir:
Emelía Eiríksdóttir. „Er hægt að kveikja í kerti án kveiks?“ Vísindavefurinn, 14. maí 2020, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=24445.
Emelía Eiríksdóttir. (2020, 14. maí). Er hægt að kveikja í kerti án kveiks? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=24445
Emelía Eiríksdóttir. „Er hægt að kveikja í kerti án kveiks?“ Vísindavefurinn. 14. maí. 2020. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=24445>.