Við getum hugsað okkur að fyrst sé ræktaður p-leiðandi kristallur (til dæmis bóríbættur kísill). Síðan er látin sveima inn í hann íbót sem gerir hann n-leiðandi í þunnu lagi næst yfirborðinu (til dæmis sé fosfór látinn sveima inn í kísil). Neðar myndast samskeyti milli n- og p-leiðandi efnanna. Yfirborðið er húðað með efni sem dregur úr speglun sólarljóssins og skaut eru tengd beggja vegna skeytanna eins og sjá má á myndinni. n-leiðandi lagið er gjarnan fremur þunnt. Skautin ofan á n-leiðandi laginu eru oft litlir fingur sem liggja dreift yfir yfirborðið. Þetta er gert til að draga úr viðnámi straumsins í hinu þunna n-lagi og til þess að sólarljósið eigi greiða leið inn í hálfleiðarann. Flest ljósspennurafhlöð eru gerð úr hreinum kísilkristöllum. Úr hreinni kísilbráð eru ræktaðir stórir kristallar sem eru skornir og íbættir til að mynda úr þeim ljósspennurafhlöð. Oft er einnig notaður fjölkristallaður eða myndlaus kísill sem er ódýrari í framleiðslu en hefur lægri nýtni. Eins eru hálfleiðarar eins og TiO2, CdTe CuInSe2 notaðir til þessa. Góðri nýtni er hægt að ná með GaAs hálfleiðara, en það er mjög dýrt efni. Mörg ljósspennurafhlöð eru gjarnan raðtengd til þess að fá hærri straum og meira afl. Framleitt afl frá hverju ljósspennurafhlaði er í réttu hlutfalli við ljósorkuna og yfirborðsflatarmál ljósspennurafhlaðsins. Frekara lesefni af Vísindavefnum:
- Hvernig verkar sólarrafhlaða? eftir Jón Tómas Guðmundsson
- Hvernig urðu orkulindirnar til? eftir ÞV
- Hvað er sólin með marga geisla? eftir ÞV
- Hvað er hálfleiðari? eftir Jón Tómas Guðmundsson
- Hvað eru vind- og sólarorka? eftir Guðmund Kára Stefánsson
- Jack L. Stone, Photovoltaics: Unlimited Electrical Energy From the Sun, Physics Today, no. 9, vol 46, page. 22 -29 (1993)