Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaHugvísindiFornfræðiHvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis?
Ljóðasafnið Satírur eftir Júvenalis hefur enn ekki komið út á íslensku. Í stystu máli inniheldur það kvæði af því tagi sem kallast satírur eða saturae á latínu. Með öðrum orðum heitir kvæðasafn Júvenalis eftir bókmenntaformi kvæðanna. En hvað eru satírur? Satírur eru í stuttu máli rómverskur ádeilukveðskapur. Varast ber að rugla honum saman við satýrleiki (sem eru einnig nefndir bukkaleikir á íslensku) en það voru ærslafull forngrísk leikrit sem áttu að hressa áhorfandann að harmleikjunum loknum.
Rómverki mælskufræðingurinn og rithöfundurinn Marcus Fabius Quintilianus (uppi um 35 – 98) segir að bókmenntaformið satírur séu algerlega rómversk uppfinning sem eigi sér engar hliðstæður hjá Grikkjum. Þó má segja að gamli skopleikurinn svonefndi – það er forngrískir skopleikir frá 5. öld f.Kr. þar sem oft var sett fram beinskeytt og óvægin gagnrýni á opinberar persónur – hafi haft nokkur áhrif á mótun satírukveðskapar.
Venjulega er rómverska skáldið Gaius Lucilius talinn upphafsmaður satíruformsins. Lucilius var uppi um 180 – 102 f.Kr. og á hann að hafa samið 30 bækur með satírum. Verk hans eru ekki varðveitt nema í brotum en alls eru brotin um 1300 ljóðlínur. Kvæðin voru undir sexliðahætti (eða hexametri, líkt og ljóðlínan Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!). Í kvæðum Luciliusar var að finna pólitíska gagnrýni, þjóðfélagsgagnrýni og gagnrýni á einstaklinga. Hann nafngreindi menn og hæddist óspart að þeim ef honum þótti þeir eiga það skilið. Rómverska skáldið Hóratíus (65 – 8 f.Kr.) segir að Lucilius hafi verið ámóta beittur og óvæginn og forngríska skopleikjaskáldið Aristófanes. Lucilius virðist einnig hafa látið í ljósi eitt og annað um sjálfan sig í kvæðum sínum. Þegar fram liðu stundir átti persóna skáldsins einmitt eftir að verða óaðskiljanlegur þáttur bókmenntaformsins sjálfs, þar sem skáldið kemur fram og lýsir hneykslan sinni meðal annars á hvers kyns græðgi og spillingu og setur sig í ýmsar stellingar, til dæmis utangarðsmannsins, siðferðispostulans og svo framvegis. En varast ber að líta svo á að kvæðin segi frá skáldinu sjálfu og upplifunum þess, líkt og um sjálfsævisögu væri að ræða. Þetta er einfaldlega hluti af bókmenntaforminu.
Meðal þeirra skálda sem sömdu satírur undir sexliðahætti má nefna Hóratíus, Persius og Júvenalis. Hóratíus samdi tvær bækur með satírum sem á latínu nefnast Sermones. Líkt og Lucilius gagnrýnir hann bæði græðgi og framhjáhald og annað af þeim toga en ólíkt Luciliusi nefnir Hóratíus menn ekki á nafn og ræðst ekki gegn fólki persónulega. Gagnrýni hans er engan veginn jafn beitt og hefur gjarnan einhvern siðferðisboðskap fram að færa. Ef til vill var Hóratíus að einhverju leyti undir áhrifum frá nýja skopleiknum svonefnda fremur en frá hinum gamla því hann gagnrýnir frekar manngerðir en einstaklinga. Hjá Hóratíusi var auk þess enga pólitíska gagnrýni að finna en ástandið í rómverskum stjórnmálum hafði breyst verulega frá tíma Luciliusar til þess tíma er Hóratíus var að störfum þannig að ekki var lengur óhætt að gagnrýna valdhafa. Og Hóratíus hafði tengsl við valdamestu menn í rómverkum stjórnmálum á sínum tíma.
Aulus Flaccus Persius (uppi 34 – 62) er venjulega talinn til satíruskálda en satírur hans eru að sumu leyti mun heimspekilegri en satírur hinna satíruskáldanna en Persius var undir áhrifum stóuspekinnar. Satírur hans eru ekki sams konar ádeilukvæði og Lucilius og Hóratíus sömdu og Júvenalis átti eftir að semja. Persius samdi einungis sex satírur en hann lést ungur.
Decimus Junius Júvenalis var uppi seint á 1. öld og snemma á 2. öld. Satírur hans eru 16 talsins og eru oft taldar hápunktur rómversks satírukveðskapar. Þau komu að öllum líkindum fyrst út á árunum 110 – 127. Júvenalis er einkar óvæginn í gagnrýni sinni á hvers kyns siðleysi og spillingu en hann þykir skorta kímnigáfuna sem einkennir margar af satírum Hóratíusar. Gagnrýni Júvenalis beinist ekki síst gegn auðmönnum en hann virðist hafa fundið til með fátækum. Ein af satírum hans gagnrýnir kvenfólk í löngu máli og skáldið finnur því allt til foráttu. Stundum einkennir bölsýni kvæði hans til dæmis í fjórtándu satírunni þar sem skáldið ræðir hvernig börnin erfa lesti foreldra sinna. Kvæði Júvenalis eru hreinræktaðar satírur af því tagi sem Lucilius samdi en án pólitískrar gagnrýni þó. Júvenalis gagnrýnir ekki valdhafana né nafngreinir hann samtímamenn sína, heldur einungis menn af næstu kynslóð á undan.
Auk skáldanna sem hér hafa verið nefnd má geta annarrar satíruhefðar sem á rætur að rekja til Enniusar og Varrós. Satírur í þessari hefð eru gjarnan samdar undir ýmsum bragarháttum í bland við óbundið mál. Þær geta verið gamansamar og færa lesandanum eða áheyrandanum stundum einhvern boðskap en skortir þó bæði háðið og ádeiluþáttinn sem einkenndi kvæði Luciliusar, Hóratíusar og Júvenalis. Quintus Ennius (239 – 169 f.Kr.) samdi fjórar bækur af satírum undir ýmsum bragarháttum. Satírur hans komu út á undan satírum Luciliusar. Einungis 31 lína er varðveitt. Marcus Terentius Varró (116 – 27 f.Kr.) samdi Meneppískar satírur í 150 bókum (nefndar eftir Menipposi frá Gadöru sem var grískur heimspekingur úr skóla hundingjanna). Satírur Varrós voru einnig satírur undir ýmsum bragarháttum í bland við óbundið mál og efni þeirra virðist hafa verið öðrum þræði heimspekilegt en með gamansömu ívafi. Þá má einnig nefna verkið Apocolocyntosis eftir Lucius Annaeus Senecu yngri (4 f.Kr. – 65 e.Kr.) sem gerði grín að Claudiusi keisara að honum látnum og fjallaði um það þegar hann var gerður að graskeri eftir dauðann. Að lokum má geta verksins Satýrikon eftir Petronius (dáinn 65) en það er líkt og Apocolocyntosis samið í óbundnu máli í bland við bundið mál. Einungis hluti af því er varðveittur. Satýrikon hefur komið út í íslenskri þýðingu (þýdd úr ensku).
Ítarefni:
Conte, Gian Bagio, Latin Literature: A History. Joseph B. Solodow (þýð.) (Baltimore: Johns Hopkins University Press, 1994).
Taplin, Oliver (ritstj.), Literature in the Roman World (Oxford: Oxford University Press, 2000).
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis?“ Vísindavefurinn, 25. mars 2009, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=20580.
Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 25. mars). Hvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=20580
Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers konar skáldskapur er ljóðasafnið Satírur eftir rómverska skáldið Júvenalis?“ Vísindavefurinn. 25. mar. 2009. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=20580>.