Hver er stærð og staðsetning megineldstöðvar Heklu?Hekla er megineldstöð á samnefndu eldstöðvakerfi á mörkum Austurgosbeltis og svonefnds Suðurlandsbrotabeltis (sjá mynd). Kerfið er um 40 kílómetra langt og um sjö kílómetra breitt eins og Sveinn Jakobsson skilgreinir það.[1] Sprungureinin nær um 15 kílómetra til suðvesturs og um 25 kílómetra til norðausturs frá Heklu ef miðað er við toppgíg hennar. Suðaustan við Heklukerfið er önnur sprungurein sem kennd er við Vatnafjöll.[2] Hún er stundum talin hluti af Heklukerfinu vegna þess hve lík efnasamsetning basalthrauna þessara eldstöðvakerfa er,[3] en þá er mesta breidd eldstöðvakerfisins um 20 kílómetrar og lengd þess um 60. Fjallið Hekla er hryggur, hlaðinn upp í eldgosum á nútíma og að einhverju leyti á ísöld, og rís hæst um 1500 metra yfir sjávarmál. Eftir fjallshryggnum endilöngum liggur Heklugjá, gossprunga (eða gossprunguþyrping) sem opnast hefur að minnsta kosti að hluta í flestum Heklugosum á síðari öldum. Tilvísanir:
- ^ Sveinn P. Jakobsson, 1979. Petrology of Recent Basalts of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Náttúrfræðistofnun Íslands, Acta Naturalia Islandica, 26, 1-103.
- ^ Sama heimild og í nr. 1.
- ^ Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson, 1992. Hekla, fjall með fortíð. Náttúrufræðingurinn, 61, 177-191. Olgeir Sigmarsson og fleiri, 1992. Origin of silicic magma in Iceland revealed by Th isotopes. Geology, 19, 621-624.
Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Myndefni kemur úr sama riti.