Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Gliðnun lands við frárek í gosbeltunum leiðir til eldgosa á löngum sprungum sem geta náð langt út fyrir megineldstöð. Víða er þannig að finna langar gígaraðir sem liggja að mestu leyti utan megineldstöðva. Dæmi um slíkt eru Lakagígar. Gígaraðir raðast stundum í þyrpingar, þannig að nokkrar slíkar úr mismunandi eldgosum eru á tiltölulega mjórri ræmu lands sem getur verið um 5-15 kílómetrar á breidd en meira en 70 kílómetrar að lengd. Ein eða fleiri gígaraðir, eins og lýst er hér að framan þar sem upp hefur kom skyld bergkvika, kallast gosrein. Gosreinar tengjast gjarnan megineldstöðvum í fráreksbeltunum, þannig að þær teygja sig út frá megineldstöð, oftast til tveggja gagnstæðra átta. Stefna gosreina á Íslandi er nokkuð breytileg og ákvarðast af flekahreyfingum og staðbundinni stefnu gosbeltis.
Gosreinar eru ekki einu merkin um mikla landgliðnun á Íslandi, heldur kemur þar einnig við sögu mikill fjöldi misgengja, togsprungna og gjáa. Þessi fyrirbæri, ásamt gossprungum, kallast einu nafni sprungur. Þéttleiki sprungna í gosbeltunum eða fjöldi þeirra á flatarmálseiningu er mjög mismunandi.
Sprungur tengdar eldstöðvum og landgliðnun sjást gjarnan í beinu framhaldi af gosreinunum og í sömu stefnu og þær. Gosreinar eru þannig aðeins hluti af svokölluðum sprungureinum eða sprungusveimum. Sprungusveimur er þannig skilgreindur sem ílangt kerfi misgengja, togsprungna, gjáa og gossprungna sem liggja að mestu samsíða og hafa myndast við gliðnun lands. Eldgos verða í gosreinum, en auk þess hefur landgliðnun á yfirborði átt sér stað vegna misgengishreyfinga. Sprungusveimar eru yfirleitt miklu lengri en gosreinarnar og geta náð út fyrir gosbeltin sjálf. Orðið sprungusveimur hefur skírskotun til hugtaksins gangasveimur, en þeir finnast í blágrýtismyndun. Talið er að gangasveimar liggi undir sprungusveimum, og sprungurnar á yfirborði séu að miklu leyti myndaðar vegna gangainnskota á nokkru dýpi í jarðskorpunni.
Mynd 1: Sprungusveimar og megineldstöðvar skv. korti Páls Einarssonar og Kristjáns Sæmundssonar frá 1987.
Nokkuð er á reiki hvernig nákvæm mörk megineldstöðva og sprungusveima eru dregin. Erfitt er að afmarka jaðra sprungusveima og megineldstöðva með einni línu, þar sem virkni fjarar yfirleitt smátt og smátt út eftir því sem fjær dregur megineldstöðinni, frekar en að um afgerandi skörp mörk sé að ræða. Einnig má deila um það hvað sé ein eða tvær megineldstöðvar og hvort réttmætara sé að deila einum sprungusveim í tvo. Jarðfræðileg þekking á Íslandi er jafnframt takmörkuð, en hún eykst þó jafnt og þétt með ítarlegum jarðvísindarannsóknum á ári hverju. Þekking á sprungusveimum, gosreinum og megineldstöðvum hefur því aukist talsvert. Jafnframt kann notkun þessara hugtaka að breytast. Yfirlitskort af eldvirkum svæðum á Íslandi eru því breytileg. Kortið á mynd 1 sýnir sprungusveima og megineldstöðvar samkvæmt Páli Einarssyni og Kristjáni Sæmundssyni,[1] en það kort er sambærilegt við það sem Kristján Sæmundsson setti fram 1978.[2] Kortið á mynd 2 sýnir þessi mörk eins og Haukur Jóhannesson og Kristján Sæmundsson telja þau vera samkvæmt korti gefnu út árið 1998 og síðari rannsóknum. Meginmunurinn á þessum tveimur kortum er sá, að á því seinna hefur sprungusveim og megineldstöð yst á Reykjanesskaga verið skipt upp í tvö kerfi: Reykjanes og Svartsengi. Einnig hefur sprungusveimur Öskju verið greindur sundur, en á milli Öskju og Fremrináma er að finna megineldstöð kennda við Hrúthálsa.
Mynd 2: Sprungusveimar og megineldstöðvar skv. korti Hauks Jóhannessonar og Kristjáns Sæmundssonar frá 1998.
Tilvísanir:
^ Páll Einarsson og Kristján Sæmundsson, 1987. Upptök jarðskjálfta 1982-1985 og eldstöðvakerfi á Íslandi. Kort, 1:750.000. Menningarsjóður, Reykjavík.
^ Kristján Sæmundsson, 1978. Fissure swarms and central volcanoes of the neovolcanic zones of Iceland. Crustal evolution in NW-Britain and adjacent regions (D. R. Bowes og B. E. Leake ristjórar). Seel Hous Press, Liverpool, 415-432.
Þetta svar er úr bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (2013) og birt með góðfúslegu leyfi. Það er lítillega aðlagað Vísindavefnum. Myndefni kemur úr sama riti.
Upprunaleg spurning Patreks hljóðaði svona: Hvað eru brotalínur og hvernig myndast sprungureinar? Upprunalega spurning Sveins Flóka hljóðaði svona: Hvað er sprungurein og hvaða umbrot verða á sprungureinum þegar flekarnir gliðna?
Freysteinn Sigmundsson, Sveinn Jakobsson (1939-2016), Guðrún Larsen, Páll Einarsson og Magnús Tumi Guðmundsson. „Hvað er gosrein og hvað er sprungusveimur?“ Vísindavefurinn, 9. mars 2023, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=84671.
Freysteinn Sigmundsson, Sveinn Jakobsson (1939-2016), Guðrún Larsen, Páll Einarsson og Magnús Tumi Guðmundsson. (2023, 9. mars). Hvað er gosrein og hvað er sprungusveimur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=84671
Freysteinn Sigmundsson, Sveinn Jakobsson (1939-2016), Guðrún Larsen, Páll Einarsson og Magnús Tumi Guðmundsson. „Hvað er gosrein og hvað er sprungusveimur?“ Vísindavefurinn. 9. mar. 2023. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=84671>.