Auk þess að ganga í skóla lærðu ungir drengir af samneyti sínu við fullorðna. Svokallaðar sveinaástir (paiderastia) tíðkuðust bæði í Aþenu og víðar á klassískum tíma en með því er átt við ástarsamband fullorðins manns og kynþroska unglingspilts eða yngri manns. Hér voru á ferðinni ákveðnar félagslegar venjur sem gegndu meðal annars uppeldislegu hlutverki og um þær giltu ákveðnar leikreglur. Samdrykkjur voru einn mikilvægur vettvangur fyrir slíka handleiðslu. Í Spörtu var fyrirkomulagið á annan veg. Þar má segja að hafi verið opinbert menntakerfi. Allir drengir hlutu herþjálfun frá sjö ára aldri og allt fram til tvítugs. Þeir bjuggu í herbúðum en ekki á heimilum foreldra sinna. Í Spörtu var jafnvel enn ríkari áhersla á íþróttir og líkamlega þjálfun en í Aþenu og öðrum borgríkjum enda miðaði spartverska kerfið að því öðru fremur að viðhalda hernaðarmætti borgarinnar. Á hinn bóginn fór minna fyrir bóknáminu. Þó lærðu börn að lesa og skrifa og einnig dans og tónlist. Stúlkur hlutu ekki herþjálfun eins og drengirnir en að öðru leyti var menntun þeirra svipuð og menntun drengjanna, með áherslu á leikfimi og íþróttir, dans og söng. Um miðja 5. öld f.Kr. komu fram á sjónarsviðið fræðararnir eða sófistarnir svonefndu en þeir áttu stóran þátt í að umbreyta menntun í Grikklandi. Fræðararnir voru frandkennarar sem ferðuðust á milli borga og héldu námskeið fyrir fullorðna borgarbúa, sem greiddu oft drjúgan skilding fyrir kennsluna. Uppistaðan í kennslu fræðaranna var mælskufræði en hverjum manni var afar mikilvægt að geta komið fyrir sig orði. Sumir fræðarar kenndu ýmislegt fleira, svo sem stjórnspeki, málfræði, landafræði, stjörnufræði, stærðfræði og fleira og sumir gáfu sig út fyrir að kenna fólki dygð, það er að segja að þeir gerðu fólk dygðugt. Meðal frægustu fræðaranna voru Prótagóras frá Abderu, Pródíkos frá Keos, Hippías frá Elís og Gorgías frá Leontíní. Auk þess sem nema mátti hjá fræðurunum var hægt að mennta sig í lögum eða læknisfræði. Ekki leið á löngu áður en stofnaðar voru varanlegar æðri menntastofnanir. Þar má nefna skóla Ísókratesar í Aþenu, sem stofnaður var um 392 f.Kr. og Akademíuna, sem Platon stofnaði um 385 f.Kr. Í skóla Ísókratesar var áherslan aðallega á mælskufræði og sagnfræði en í Akademíunni var einkum lögð stund á heimspeki, stærðfræði og stjörnufræði auk ýmissa annarra fræða. Á hellenískum tíma voru svo starfræktir ýmsir heimspekiskólar þar sem menn gátu numið heimspeki, svo sem stóuspeki og epikúrisma. Mælskufræðin hélt lengi stöðu sinni sem undirstaða allrar almennar menntunar. En auk bóknáms var hægt að læra ýmsar iðngreinar, svo sem leirkeragerð eða höggmyndalist. Rithöfundurinn Lúkíanos sem var uppi á annarri öld segir til að mynda frá því er hann var sendur til frænda síns að læra að höggva stein. Honum gekk erfiðlega í fyrstu, fór klaufalega að og braut steinhelluna sem hann átti að höggva í og hlaut skammir frænda síns fyrir. Þá hljóp hann grátandi heim til móður sinnar og sagði að frændi sinn væri strax orðinn afbrýðisamur vegna þess að hann óttaðist að drengurinn tæki sér fram áður en langt um liði. Móðir hans ákvað þá að leyfa honum að hætta að læra að höggva stein undir handleiðslu bróður síns en í staðinn hélt Lúkíanos í nám í mælskufræði og átti glæstan feril. Heimildir og ítarefni:
- Adkins, Lesley og Roy A. Adkins, Handbook to Life in Ancient Greece, endursk. útg. (New York: Facts on File, 2005).
- Beck, Frederick A.G., Greek Education 450-350 B.C. (New York: Barnes & Noble, Inc., 1964).
- Dobson, J.F., Ancient Eductaion and Its Meaning to Us (New York: Longmans, Green and Co., 1932).
- Robert Flaceliére, Daily Life in Greece at the time of Pericles, Peter Green (þýð.) (London: Phoenix Press, 2002).
- Daily News. Sótt 6.10.2009.