Nafn fellsins er augljóslega dregið af keilulaga lögun þess en öfugt við það sem halda mætti er Keilir þó ekki það sem kallað er eldkeila á fræðamáli jarðfræðinga. Eldkeilur, svo sem Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull, eru keilulaga eldstöðvar sem gjósa reglulega. Keilir myndaðist hins vegar í einu stöku gosi undir nokkuð þykkum ísaldarjökli. Slíkar eldstöðvar eru yfirleitt úr móbergi og gjósa þær aðeins einu sinni á lífstíð sinni. Keilir er því það sem kallast móbergsfell, eða jafnvel móbergskeila vegna lögunar sinnar.Ólíkt Snæfellsjökli og Eyjafjallajökli, er Keilir því ekki virkt eldfjall. Snæfellsjökull og Eyjafjallajökull nefnast eldkeilur og gjósa reglulega en Keilir er móbergskeila og þar mun ekki gjósa aftur.
- Keilir (fjall) - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið. (Sótt 05.07.2015).