Rit keltneska klerksins Dicuils frá byrjun 9. aldar fjallar meðal annars um flakk guðsmanna um lönd í norðri og setu þeirra þar. Frásögn hans hefur oft verið túlkuð sem heimild um veru Papa á Íslandi en engar sannanir eru fyrir því að Ísland sé meðal þeirra landa sem þar er minnst á. Keltneskir einsetumenn voru hins vegar áreiðanlega á Orkneyjum og Hjaltlandi enda hafa þar fundist fornleifar sem tengja má við þá. Nokkur örnefni á Íslandi minna á Papa og þeirra vegna hafa menn oft talið víst að til dæmis Papey hafi verið bústaður þeirra. Engar ritheimildir eru þó um veru Papa í Papey og vel má vera að örnefnið sé aðflutt frá Bretlandseyjum en í byggðum norrænna manna þar voru Papaörnefni nokkuð algeng. Örnefni sanna því ekkert um veru Papa á Íslandi. Talsvert hefur verið leitað að minjum um dvöl Papa í landinu. Kristján Eldjárn rannsakaði til dæmis búsetuleifar í Papey en þar fannst þó ekkert sem benti til veru Papa þar. Ýmsar fornleifar eru þess eðlis að þær gætu verið frá Pöpum komnar. Það gildir til dæmis um nokkrar krossristur í manngerðum hellum á Suðurlandi og eins um rústir nokkurra einfaldra mannvirkja frá landnámstímanum, en allt á þetta sér þó aðrar og sennilegri skýringar. Fornleifarannsóknir geta aldrei afsannað veru Papa á Íslandi en það mætti hugsa sér að það fyndust leifar sem bæru svo sterk einkenni að þær sönnuðu dvöl Papa hér. Engar slíkar leifar hafa enn fundist. Þrátt fyrir það hafa menn yfirleitt ekki séð ástæðu til að efa að Papar hafi verið hér, og treyst menn þá Íslendingabók um þetta atriði. Nýlega hefur þó Helgi Guðmundssonson (í bókinni Um haf innan, Reykjavík 1997) sett fram þá skoðun að Íslendingabók byggi frásögn sína af Pöpum á áðurnefndu riti Dicuils og hafi túlkað það svo að þar hafi verið rætt um Ísland þótt það sé í raun alveg óvíst. Ef Helgi hefur rétt fyrir sér eru frásagnir Diculis og Ara ekki óháðar hvor annarri og fullyrðingar þess síðarnefnda um Papa einskis virði. Þá höfum við engar heimildir lengur sem tengja Papa við Ísland. Niðurstaðan er því þessi: Engar áþreifanlegar sannanir eru fyrir veru Papa á Íslandi og full ástæða til að efast um að þeir hafi verið hér. Á hinn bóginn er heldur engin ástæða til að útiloka það. Frekara lesefni á Vísindavefnum
- Hvers vegna er Ingólfur Arnarson talinn fyrsti landnámsmaðurinn þegar Papar og fleiri menn fundu Ísland á undan honum? eftir JGÞ
- Hvert er heimildargildi Landnámu? Hvenær er talið að hún hafi verið notuð? eftir Sverri Jakobsson
- Hvaða vitneskju höfðu erlendar þjóðir um Ísland fyrir landafundi norrænna manna? eftir Gísla Gunnarsson
- Ingólfur Arnarson á að hafa fundið Ísland en hafði enginn komið til Íslands áður? eftir ÞV
- Hver gaf Íslandi það nafn? eftir Vigni Má Lýðsson
- Mats: Íslandsmyndasafn. © Mats Wibe Lund. Sótt 5.8.2010.