Þessi réttur til að stofna flokk eða samtök er varinn í félagafrelsisákvæði 74. gr. stjórnarskrárinnar en þar segir í 1. mgr.:
Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.Eins og þetta ákvæði ber með sér er rétturinn til að stofna stjórnmálaflokka sterkur, en í algerum undantekningartilfellum er heimilt að banna starfsemi félags sem talið er hafa ólögmætan tilgang en kveðið er á um í ákvæðinu að höfða verði án ástæðulausrar tafar mál gegn félaginu til að fá því slitið með dómi. Á þessa heimild hefur ekki enn reynt hér á landi og ljóst er að hún yrði túlkuð mjög þröngt enda er það afar ólýðræðislegt ef sitjandi stjórnvöld geta staðið gegn því að tilteknir flokkar eða félög séu stofnuð. Í 7. kafla laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 er tekið fram hvaða reglur gilda um framboð og hvernig staðið skuli að þeim, svo sem um tímafresti, fjölda frambjóðenda og fleiri skilyrði sem framboð verða að uppfylla. Í 1. mgr. 30. gr. segir að þegar alþingiskosningar eigi að fara fram skulu öll framboð tilkynnt skriflega yfirkjörstjórn þeirri sem í hlut á eigi síðar en klukkan 12 á hádegi 15 dögum fyrir kjördag. Í 31. gr. segir að á framboðslista skuli vera nöfn tvöfalt fleiri frambjóðenda en nemur þingsætum í kjördæminu, hvorki fleiri né færri. Í 32. gr. segir að hverjum framboðslista skuli fylgja skrifleg yfirlýsing allra þeirra sem á listanum eru um að þeir hafi leyft að setja nöfn sín á listann. Framboðslista skal og fylgja skrifleg yfirlýsing um stuðning við listann frá kjósendum í hlutaðeigandi kjördæmi. Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili. Fjöldi meðmælenda skal vera margfeldi af þingsætatölu kjördæmisins og talnanna 30 að lágmarki og 40 að hámarki. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu? eftir Hrafnkel Tjörva Stefánsson
- Mega krakkar á Íslandi stofna stjórnmálaflokk? eftir Arndísi Önnu K. Gunnarsdóttur
- Skilar stjórnmálaáróður árangri og hvers vegna þá? eftir Anton Örn Karlsson
- Lög um kosningar til Alþingis nr. 24/2000.
- Smugan. Sótt 21.9.2009.