Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess.Þetta ákvæði gildir um alla, líka um börn. Sérstakt ákvæði um funda- og félagafrelsi barna er að finna í 15. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar segir í 1. mgr.:
Aðildarríki viðurkenna rétt barns til að mynda félög með öðrum og koma saman með öðrum með friðsömum hætti.Þessi réttindi má aðeins takmarka í mjög sérstökum tilfellum, eins og greinir í 2. mgr. 15. gr., og þá aðeins með lögum.
15. gr. Barnasáttmálans, ásamt ákvæðum 12. og 13. gr. hans um virðingu fyrir sjónarmiðum barns og rétt þess til þess að tjá skoðanir sínar, stuðlar að því að börn séu virkir þátttakendur í þjóðfélaginu. Það er því ljóst að börn mega stofna stjórnmálaflokk og aldursmörkin eru engin. Hitt er svo annað mál að það mega ekki allir bjóða sig fram í alþingis- eða sveitarstjórnarkosningum, en það er oftast tilgangurinn með stofnun stjórnmálasamtaka. Sá sem má bjóða sig fram kallast á lagamáli kjörgengur. Í 4. gr. laga um kosningar til Alþingis nr. 24/2000 segir meðal annars:
Kjörgengur við kosningar til Alþingis er hver sá sem kosningarrétt á skv. 1. gr. og hefur óflekkað mannorð.Til þess að bjóða sig fram í alþingiskosningum þarf maður því að vera orðinn 18 ára þegar kosning fer fram, eiga lögheimili á Íslandi og hafa óflekkað mannorð. Sömuleiðis segir í 3. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna:
Kjörgengur í sveitarstjórn er hver sá sem á kosningarrétt í sveitarfélaginu skv. 2. gr. og hefur ekki verið sviptur lögræði.Kosningarrétt við kosningar til sveitarstjórnar á hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili í sveitarfélaginu. Menn þurfa þó ekki endilega að hafa kosningarétt til þess að geta haft áhrif með stofnum stjórnmálasamtaka. Stjórnmálafélög án kosningaréttar geta til dæmis haldið fundi og samþykkt yfirlýsingar sem stundum eru kallaðar ályktanir. Svo er hægt að senda ályktanirnar til fjölmiðla og þannig má hafa áhrif á umræðuna í þjóðfélaginu. Einnig geta stjórnmálafélög staðið fyrir mótmælum eða öðrum gjörningum, til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Stofnun stjórnmálasamtaka kostar ekkert, en rekstur þeirra getur verið dýr enda hefur mönnum þótt ástæða til þess að setja sérstök lög um fjármál stjórnmálaflokka.
Til þess að geta átt eignir þarf félag að hafa kennitölu. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um fyrirtækjaskrá nr. 17/2003 gefur ríkisskattstjóri út kennitölur til annarra en einstaklinga. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra þarf maður að vera orðinn 18 ára til þess að fá kennitölu fyrir félag, og kostar hún 5.000 kr. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Ef ég vil stofna nýjan stjórnmálaflokk og fara í framboð, hvernig geri ég það? eftir Árna Helgason
- Hver er munurinn á stjórnmálaflokki og stjórnmálahreyfingu? eftir Hrafnkel Tjörva Stefánsson
- Alþingi
- RSK - Ríkisskattstjóri
- Umboðsmaður barna
- Hodgkin, Rachel. Implementation handbook for the convention on the rights of the child. New York: UNICEF, 2002.
- Pbase.com. Sótt 27.5.2008
Mega krakkar stofna stjórnmálaflokk? Hver eru aldurstakmörkin og hvað kostar það?