Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hver var Émile Zola og hvert var framlag hans til bókmenntanna?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Franski rithöfundurinn Émile Zola fæddist í París árið 1840. Móðir hans var frönsk og faðir hans var byggingarverkfræðingur af ítölskum ættum. Zola eyddi bernskuárunum í borginni Aix–en–Provence í suðurhluta Frakklands. Þar vann faðir hans að vatnsveitumálum og við stífluhönnun en vatn var af skornum skammti í borginni vegna árstíðabundinna þurrka.

Faðir Émile Zola lést af völdum brjósthimnubólgu árið 1846, aðeins 51 árs gamall. Fjölskyldan hafði búið í millistéttarhverfi í Aix–en–Provence en eftir andlát föðurins fluttu Zola og móðir hans í fátækari hluta borgarinnar. Stíflan sem Zola eldri hafði hannað var reist árið 1854 og er kennd við hann. Franski síðimpressjónistinn Paul Cézanne (1839–1905) málaði mynd um 1880 þar sem Zola–stíflan sést en Cézanne var skólafélagi og vinur Zola. Verk frönsku impressjónistanna heilluðu Zola og hann skrifaði áhrifamiklar greinar til varnar list þeirra.

Málverk franska impressjónistans Édouard Manet (1832–1883) af Émile Zola. Málverkið er frá 1868.

Émile Zola er einna þekktastur fyrir 20 binda sagnaleik sem kallast Les Rougon-Macquart. Undirtitill hans er Náttúruleg og félagsleg saga fjölskyldu á tímum síðara keisaradæmisins (Histoire naturelle et sociale d'une famille sous le Second Empire). Samspil erfða og umhverfis er til umfjöllunar í verkinu og áhrif frá darwinisma greinileg. Í sagnaleiknum segir frá ævi tvígreindrar ættar. Í annarri kvíslinni eru verslunareigendur og smáborgarar en í hinni smyglarar og drykkjumenn.

Zola tók virkan þátt í umræðu um samfélagsmál og skrifaði meðal annars víðfræga grein sem heitir „J’accuse …!“. Hún birtist á forsíðu dagblaðsins L’Aurore 13. janúar 1898. Þar gagnrýndi hann málsmeðferð gegn gyðingnum Alfred Dreyfus, sem hafði verið dæmdur sekur um njósnir fyrir Þjóðverja og sendur á Djöflaeyju í Frönsku–Gvæjana í Suður–Ameríku.

Fyrir gagnrýni sína var Zola dæmdur í eins árs fangelsi 23. janúar 1898. Hann flúði til Englands en var náðaður og sneri aftur til Frakklands 1899. Alfred Dreyfus var endanlega hreinsaður af öllum ásökunum 1906.

Teikning af ættartré sem birtist í einni af 20 bókum sagnaleiksins Les Rougon-Macquart.

Émile Zola lést í París 29. september 1902. Kvöldið áður lagðist hann til svefns ásamt konu sinni í lokuðu svefnherbergi þar sem eldur logaði í arni. Morguninn eftir var hann látinn af völdum koleinildiseitrunar en kona hans bjargaðist. Við rannsókn kom í ljós að skorsteinn á húsi hjónanna var stíflaður. Margir töldu að hann hefði verið myrtur vegna Dreyfus–málsins. Sú tilgáta fékk byr undir báða vængi um miðja síðustu öld þegar gömul játning birtist í franska blaðinu Libération. Játningin var frá manni sem sagðist hafa tekið þátt í því að stífla skorsteininn á húsi Zola.

Við andlátið var Zola einn af mest lesnu höfundum samtímans í hinum vestræna heimi. Hann var jarðsettur í Montmartre–kirkjugarðinum í París en árið 1908 voru jarðneskar leifar hans fluttar í Panthéon þar sem helstu þjóðhetjur Frakka hvíla. Þar var honum fundinn staður í grafhvelfingu ásamt frönsku höfundunum Alexandre Dumas (1802–1870) og Victor Hugo (1802–1885). Sá síðarnefndi var eitt helsta skáld frönsku rómantíkurinnar og leiðtogi stefnunnar í Frakklandi.

Hvað er natúralismi?

Émile Zola var líklega fyrstur til að nota orðið natúralisti um rithöfunda og hann var helsti forvígismaður stefnu í bókmenntum sem kallast natúralismi. Stefnan sótti margt til nýrra kenninga í náttúru- og læknavísindum, til að mynda til þróunarkenningar Charles Darwins (1809–1882). Þeir sem aðhylltust natúralisma í bókmenntum lögðu til að rithöfundar tækju upp aðferðir vísindanna.

Orðið natúralismi á sér nokkra sögu. Það hafði meðal annars verið notað til að tákna efnishyggju, heimspeki Epikúrosar eða hvers kyns efahyggju í trúmálum. Á ensku málsvæði kom hugtakið fram snemma á 17. öld. Þar var það notað sem skammaryrði yfir villutrúarmenn sem vildu útskýra atburði út frá náttúrlegum orsökum. Andstæða hugtaksins var supernaturalism, það er segja sú hugmynd að guðlegur kraftur stýri veröldinni.

Löng hefð var fyrir því að nota hugtakið yfir málara sem reyndu að líkja eftir náttúrunni í stað þess að mála söguleg eða goðsöguleg fyrirbæri og atburði. Í þessari merkingu hafði orðið verið notað allt frá 17. öld og það kom oft fyrir í listgagnrýni á 19. öld, sér í lagi í Frakklandi.

Á sjöunda áratug 19. aldar skrifaði Émile Zola nokkra dóma um listsýningar frönsku impressjónistanna. Þar notaði hann jöfnum höndum orðin impressjónisti, raunsæisti, aktúalisti og natúralisti yfir þá.

Í formála að annarri útgáfu af bók Zola Thérèse Raquin er orðið líklega í fyrsta sinn haft um rithöfunda. Önnur útgáfa bókarinnar kom út árið 1868 og í sögunni er fjallað um framhjáhald, glæp og morð. Formálinn var skrifaður sem svar við þeirri gagnrýni að bókin væri lítt annað en ruddafengið klám.

Í formálanum segist Zola tilheyra hópi natúralískra höfunda og hann líkir sér við málara, vísindamann og skurðlækni. Hlutverk hans sem rithöfundur er hið sama og skurðlækna sem kryfja lík, munurinn er aðeins sá að hann kryfur lifandi persónur. Zola segir að hægt sé að útskýra athafnir aðalpersóna bókarinnar fullkomlega með hjálp nútímalíffærafræði og eðlisfræði. Það er fyrst og fremst blóð, taugastarfsemi og ósveigjanleg lögmál sem ráða gjörðum þeirra. Skáldsaga eftir Zola frá árinu 1890 er frekari vitnisburður um þennan skilning á manninum. Hún ber heitið La Bête humaine sem merkir bókstaflega ,hið mennska dýr`.

„Le Roman expérimental“

Í ritgerð sem birtist á prenti í Frakklandi árið 1880 útfærði Zola hugmyndir sínar um natúralismann frekar. Ritgerðin nefndist „Le Roman expérimental“ og hafði reyndar birst í tvennu lagi fimm árum áður, í tímariti sem gefið var út í Sankti Pétursborg og kallaðist Vestnik Evropy. Zola skrifaði um nokkurt skeið greinar í tímaritið sem kölluðust bréf frá París.

Skopmynd af rithöfundinum Émile Zola frá árinu 1876.

Ritgerðin hefur lengi verið til vandræða í höfundarverki Zola, ásamt ýmsum öðrum greinum um listir og menningarmál eftir Zola. Hún hefur þótt einfeldningsleg, barnaleg og af sumum beinlínis heimskuleg.

Ritgerðin er margt í senn. Hún er meðal annars eins konar stefnuyfirlýsing natúralismans, útskýring á því hvað rithöfundar geta lært af nútímavísindum og greining á hugtakinu tilraunaskáldsaga. En fyrst og fremst er hún útlegging Zola á riti franska vísindamannsins Claude Bernards (1813–1878) frá árinu 1965 um aðferðafræði tilraunavísinda í læknisfræði (Introduction à l'étude de la médicine expérimentale).

Rit Bernards lagði grunn að læknisfræði sem vísindagrein og ætlunarverk Zola var að gera það sama fyrir bókmenntir. Zola taldi að aðferð Bernards félli í raun svo vel að bókmenntum að hana væri hægt að taka upp nær óbreytta fyrir rithöfunda.

Samantekt

Natúralisminn varð ekki langlíf stefna. Hann leið að ýmsu leyti undir lok við andlát Zola og í byrjun 20. aldar tóku framúrstefnuhreyfingar módernismans við, svo sem fútúrismi, expressjónismi, dadaismi og súrrealismi. Í þeim urðu svonefndar stefnuyfirlýsingar eða manifestó leiðarstef. Hægt er að líta á ritgerð Zola um natúralismann og tilraunaskáldsöguna sem fyrirrennara þess háttar tilrauna.

Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem höfðu áhrif á marga rithöfunda. Vinnubrögðin voru markviss, skipulögð og að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði.

Fyrir ritun hverrar skáldsögu lagðist Zola í rannsóknir og safnaði efni í miklar skjalamöppur sem nú eru geymdar í Franska þjóðarbókasafninu. Í skjalamöppunum var til að mynda sett fram bráðabirgðaplan til útskýringar á efni hverrar sögu í heild sinni, síðar fylgdi yfirleitt skrá yfir atburði hvers kafla fyrir sig og einnig stutt æviágrip lykilpersóna í sögunum.

Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem voru að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði. Myndin er úr skjalamöppum Émile Zola og sýnir æviágrip nokkura persóna í sagnaleiknum Les Rougon-Macquart.

Rannsóknarvinna Zola fyrir ritun bókanna fólst ekki aðeins í því að fletta upp í heimildum eða viðtölum við sérfræðinga heldur einnig í rannsókn á raunveruleikanum sjálfum. Í sögunni La Bête humaine eru lestarsamgöngur í forgrunni. Við undirbúning hennar ferðaðist Zola í lest frá París til Mantes og skrifaði ítarlegr athugasemdir um ferðalagið. Þegar hann undirbjó sig fyrir ritun sögunnar Germinal (1885), sem segir frá þjáningum verkamanna í frönskum námum, þóttist hann vera verkfræðingur og heimsótti kolanámur í norðurhluta Frakklands. Vinnubrögð af þessu tagi hafa haft áhrif á marga seinni tíma rithöfunda.

Natúralisminn var tilraun til að fanga og útskýra sálarlíf manna í texta. Það er ekki tilviljun að Émile Zola var einn þeirra höfunda sem Sigmund Freud (1856–1939) hélt upp á. Lokatakmark læknisfræðinnar, eins og Zola greindi það í verki Bernards, er að lækna og skilja alla sjúkdóma sem herja á mannslíkamann. Að sama skapi er endanlegt markmið hins natúralíska höfundar að skilja og greina á vísindalegan hátt innra sálarlíf manna. Í tilraunaskáldsögunni átti að framkvæma tilraunir á ástríðum, vitsmunum og tilfinningum manna til að stuðla að félagslegum úrbótum.

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:

Spurningu Baldurs er hér svarað að hluta.

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

17.5.2018

Spyrjandi

Baldur Sigurlaugsson

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver var Émile Zola og hvert var framlag hans til bókmenntanna?“ Vísindavefurinn, 17. maí 2018, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=16575.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2018, 17. maí). Hver var Émile Zola og hvert var framlag hans til bókmenntanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=16575

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver var Émile Zola og hvert var framlag hans til bókmenntanna?“ Vísindavefurinn. 17. maí. 2018. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=16575>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hver var Émile Zola og hvert var framlag hans til bókmenntanna?

Franski rithöfundurinn Émile Zola fæddist í París árið 1840. Móðir hans var frönsk og faðir hans var byggingarverkfræðingur af ítölskum ættum. Zola eyddi bernskuárunum í borginni Aix–en–Provence í suðurhluta Frakklands. Þar vann faðir hans að vatnsveitumálum og við stífluhönnun en vatn var af skornum skammti í borginni vegna árstíðabundinna þurrka.

Faðir Émile Zola lést af völdum brjósthimnubólgu árið 1846, aðeins 51 árs gamall. Fjölskyldan hafði búið í millistéttarhverfi í Aix–en–Provence en eftir andlát föðurins fluttu Zola og móðir hans í fátækari hluta borgarinnar. Stíflan sem Zola eldri hafði hannað var reist árið 1854 og er kennd við hann. Franski síðimpressjónistinn Paul Cézanne (1839–1905) málaði mynd um 1880 þar sem Zola–stíflan sést en Cézanne var skólafélagi og vinur Zola. Verk frönsku impressjónistanna heilluðu Zola og hann skrifaði áhrifamiklar greinar til varnar list þeirra.

Málverk franska impressjónistans Édouard Manet (1832–1883) af Émile Zola. Málverkið er frá 1868.

Émile Zola er einna þekktastur fyrir 20 binda sagnaleik sem kallast Les Rougon-Macquart. Undirtitill hans er Náttúruleg og félagsleg saga fjölskyldu á tímum síðara keisaradæmisins (Histoire naturelle et sociale d'une famille sous le Second Empire). Samspil erfða og umhverfis er til umfjöllunar í verkinu og áhrif frá darwinisma greinileg. Í sagnaleiknum segir frá ævi tvígreindrar ættar. Í annarri kvíslinni eru verslunareigendur og smáborgarar en í hinni smyglarar og drykkjumenn.

Zola tók virkan þátt í umræðu um samfélagsmál og skrifaði meðal annars víðfræga grein sem heitir „J’accuse …!“. Hún birtist á forsíðu dagblaðsins L’Aurore 13. janúar 1898. Þar gagnrýndi hann málsmeðferð gegn gyðingnum Alfred Dreyfus, sem hafði verið dæmdur sekur um njósnir fyrir Þjóðverja og sendur á Djöflaeyju í Frönsku–Gvæjana í Suður–Ameríku.

Fyrir gagnrýni sína var Zola dæmdur í eins árs fangelsi 23. janúar 1898. Hann flúði til Englands en var náðaður og sneri aftur til Frakklands 1899. Alfred Dreyfus var endanlega hreinsaður af öllum ásökunum 1906.

Teikning af ættartré sem birtist í einni af 20 bókum sagnaleiksins Les Rougon-Macquart.

Émile Zola lést í París 29. september 1902. Kvöldið áður lagðist hann til svefns ásamt konu sinni í lokuðu svefnherbergi þar sem eldur logaði í arni. Morguninn eftir var hann látinn af völdum koleinildiseitrunar en kona hans bjargaðist. Við rannsókn kom í ljós að skorsteinn á húsi hjónanna var stíflaður. Margir töldu að hann hefði verið myrtur vegna Dreyfus–málsins. Sú tilgáta fékk byr undir báða vængi um miðja síðustu öld þegar gömul játning birtist í franska blaðinu Libération. Játningin var frá manni sem sagðist hafa tekið þátt í því að stífla skorsteininn á húsi Zola.

Við andlátið var Zola einn af mest lesnu höfundum samtímans í hinum vestræna heimi. Hann var jarðsettur í Montmartre–kirkjugarðinum í París en árið 1908 voru jarðneskar leifar hans fluttar í Panthéon þar sem helstu þjóðhetjur Frakka hvíla. Þar var honum fundinn staður í grafhvelfingu ásamt frönsku höfundunum Alexandre Dumas (1802–1870) og Victor Hugo (1802–1885). Sá síðarnefndi var eitt helsta skáld frönsku rómantíkurinnar og leiðtogi stefnunnar í Frakklandi.

Hvað er natúralismi?

Émile Zola var líklega fyrstur til að nota orðið natúralisti um rithöfunda og hann var helsti forvígismaður stefnu í bókmenntum sem kallast natúralismi. Stefnan sótti margt til nýrra kenninga í náttúru- og læknavísindum, til að mynda til þróunarkenningar Charles Darwins (1809–1882). Þeir sem aðhylltust natúralisma í bókmenntum lögðu til að rithöfundar tækju upp aðferðir vísindanna.

Orðið natúralismi á sér nokkra sögu. Það hafði meðal annars verið notað til að tákna efnishyggju, heimspeki Epikúrosar eða hvers kyns efahyggju í trúmálum. Á ensku málsvæði kom hugtakið fram snemma á 17. öld. Þar var það notað sem skammaryrði yfir villutrúarmenn sem vildu útskýra atburði út frá náttúrlegum orsökum. Andstæða hugtaksins var supernaturalism, það er segja sú hugmynd að guðlegur kraftur stýri veröldinni.

Löng hefð var fyrir því að nota hugtakið yfir málara sem reyndu að líkja eftir náttúrunni í stað þess að mála söguleg eða goðsöguleg fyrirbæri og atburði. Í þessari merkingu hafði orðið verið notað allt frá 17. öld og það kom oft fyrir í listgagnrýni á 19. öld, sér í lagi í Frakklandi.

Á sjöunda áratug 19. aldar skrifaði Émile Zola nokkra dóma um listsýningar frönsku impressjónistanna. Þar notaði hann jöfnum höndum orðin impressjónisti, raunsæisti, aktúalisti og natúralisti yfir þá.

Í formála að annarri útgáfu af bók Zola Thérèse Raquin er orðið líklega í fyrsta sinn haft um rithöfunda. Önnur útgáfa bókarinnar kom út árið 1868 og í sögunni er fjallað um framhjáhald, glæp og morð. Formálinn var skrifaður sem svar við þeirri gagnrýni að bókin væri lítt annað en ruddafengið klám.

Í formálanum segist Zola tilheyra hópi natúralískra höfunda og hann líkir sér við málara, vísindamann og skurðlækni. Hlutverk hans sem rithöfundur er hið sama og skurðlækna sem kryfja lík, munurinn er aðeins sá að hann kryfur lifandi persónur. Zola segir að hægt sé að útskýra athafnir aðalpersóna bókarinnar fullkomlega með hjálp nútímalíffærafræði og eðlisfræði. Það er fyrst og fremst blóð, taugastarfsemi og ósveigjanleg lögmál sem ráða gjörðum þeirra. Skáldsaga eftir Zola frá árinu 1890 er frekari vitnisburður um þennan skilning á manninum. Hún ber heitið La Bête humaine sem merkir bókstaflega ,hið mennska dýr`.

„Le Roman expérimental“

Í ritgerð sem birtist á prenti í Frakklandi árið 1880 útfærði Zola hugmyndir sínar um natúralismann frekar. Ritgerðin nefndist „Le Roman expérimental“ og hafði reyndar birst í tvennu lagi fimm árum áður, í tímariti sem gefið var út í Sankti Pétursborg og kallaðist Vestnik Evropy. Zola skrifaði um nokkurt skeið greinar í tímaritið sem kölluðust bréf frá París.

Skopmynd af rithöfundinum Émile Zola frá árinu 1876.

Ritgerðin hefur lengi verið til vandræða í höfundarverki Zola, ásamt ýmsum öðrum greinum um listir og menningarmál eftir Zola. Hún hefur þótt einfeldningsleg, barnaleg og af sumum beinlínis heimskuleg.

Ritgerðin er margt í senn. Hún er meðal annars eins konar stefnuyfirlýsing natúralismans, útskýring á því hvað rithöfundar geta lært af nútímavísindum og greining á hugtakinu tilraunaskáldsaga. En fyrst og fremst er hún útlegging Zola á riti franska vísindamannsins Claude Bernards (1813–1878) frá árinu 1965 um aðferðafræði tilraunavísinda í læknisfræði (Introduction à l'étude de la médicine expérimentale).

Rit Bernards lagði grunn að læknisfræði sem vísindagrein og ætlunarverk Zola var að gera það sama fyrir bókmenntir. Zola taldi að aðferð Bernards félli í raun svo vel að bókmenntum að hana væri hægt að taka upp nær óbreytta fyrir rithöfunda.

Samantekt

Natúralisminn varð ekki langlíf stefna. Hann leið að ýmsu leyti undir lok við andlát Zola og í byrjun 20. aldar tóku framúrstefnuhreyfingar módernismans við, svo sem fútúrismi, expressjónismi, dadaismi og súrrealismi. Í þeim urðu svonefndar stefnuyfirlýsingar eða manifestó leiðarstef. Hægt er að líta á ritgerð Zola um natúralismann og tilraunaskáldsöguna sem fyrirrennara þess háttar tilrauna.

Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem höfðu áhrif á marga rithöfunda. Vinnubrögðin voru markviss, skipulögð og að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði.

Fyrir ritun hverrar skáldsögu lagðist Zola í rannsóknir og safnaði efni í miklar skjalamöppur sem nú eru geymdar í Franska þjóðarbókasafninu. Í skjalamöppunum var til að mynda sett fram bráðabirgðaplan til útskýringar á efni hverrar sögu í heild sinni, síðar fylgdi yfirleitt skrá yfir atburði hvers kafla fyrir sig og einnig stutt æviágrip lykilpersóna í sögunum.

Zola tamdi sér öguð vinnubrögð sem voru að einhverju leyti grundvölluð á hugmyndum hans um vísindalega aðferðafræði. Myndin er úr skjalamöppum Émile Zola og sýnir æviágrip nokkura persóna í sagnaleiknum Les Rougon-Macquart.

Rannsóknarvinna Zola fyrir ritun bókanna fólst ekki aðeins í því að fletta upp í heimildum eða viðtölum við sérfræðinga heldur einnig í rannsókn á raunveruleikanum sjálfum. Í sögunni La Bête humaine eru lestarsamgöngur í forgrunni. Við undirbúning hennar ferðaðist Zola í lest frá París til Mantes og skrifaði ítarlegr athugasemdir um ferðalagið. Þegar hann undirbjó sig fyrir ritun sögunnar Germinal (1885), sem segir frá þjáningum verkamanna í frönskum námum, þóttist hann vera verkfræðingur og heimsótti kolanámur í norðurhluta Frakklands. Vinnubrögð af þessu tagi hafa haft áhrif á marga seinni tíma rithöfunda.

Natúralisminn var tilraun til að fanga og útskýra sálarlíf manna í texta. Það er ekki tilviljun að Émile Zola var einn þeirra höfunda sem Sigmund Freud (1856–1939) hélt upp á. Lokatakmark læknisfræðinnar, eins og Zola greindi það í verki Bernards, er að lækna og skilja alla sjúkdóma sem herja á mannslíkamann. Að sama skapi er endanlegt markmið hins natúralíska höfundar að skilja og greina á vísindalegan hátt innra sálarlíf manna. Í tilraunaskáldsögunni átti að framkvæma tilraunir á ástríðum, vitsmunum og tilfinningum manna til að stuðla að félagslegum úrbótum.

Heimildir og frekara lesefni:

Myndir:

Spurningu Baldurs er hér svarað að hluta.

...