Í byrjun 20. aldar spruttu upp ýmsar stefnur í lista- og menningarlífi Evrópu, svo sem fútúrismi, expressjónismi, dadaismi og súrrealismi. Forsprakkar stefnanna gerðu mikið af því að skilgreina eigin listsköpun og með framúrstefnuhreyfingum 20. aldarinnar urðu umfjallanir listamanna á listinni að listformi. Svonefndar stefnuyfirlýsingar eða manifestó voru rauður þráður í list framúrstefnumanna. Með stefnuyfirlýsingum var sköpuð ný tegund bókmenntaforms. Ávörp voru í sjálfu sér ævafornt form, yfirleitt opinber yfirlýsing valdhafa, lesin upp að viðstöddu fjölmenni. Tilgangur þeirra var fyrst og fremst pólitískur en nú voru þau notuð í listrænum tilgangi. Sumir telja að greina megi upphaf þessarar breytingar á formi ávarpsins með Kommúnistaávarpi Karls Marx (1818-1883) og Friedrich Engels (1820-1895) sem kom út árið 1848. Þar brýst ljóðrænt tungutak í gegnum pólitískt orðfæri og boðskap. Ávarpið hefst á skáldlegum nótum: „Vofa gengur nú ljósum logum í Evrópu – vofa kommúnismans“.
Fútúristaávarp forsprakka fútúrismans, Ítalans Filippos Tommaso Marinetti (1876-1944), birtist í franska dagblaðinu Le Figaro 20. febrúar 1909. Þar kemur fram dýrkun á hverskyns vélum, hlutum og hraða nútímans, samfara höfnun og andúð á fortíðinni. Vélar sem geysast áfram með ógnarhraða eiga að knýja fútúrismann áfram, burt frá fortíð og glæstri sögu Ítalíu og Marinetti lýsir því yfir að hann vilji eyðileggja söfn landsins. Í öðru ávarpi fútúristanna er fullyrt að heitt járn vekji meiri áhuga og hlýju meðal fútúristanna en bros eða tár kvenmanns. Með því að smella hér er hægt að hlýða á upplestur Marinettis. Textinn sem hann les upp er aðgengilegur hér. Stefnuyfirlýsingar ítölsku fúturistanna voru fjölmargar. Á árunum 1909-16 gáfu þeir út rúmlega 50 yfirlýsingar. Þeir lýstu meðal annars skoðunum sínum á bókmenntum, kvikmyndum, byggingarlist, stjórnmálum, tónlist, leikhúslífi, unaðssemdum holdsins og tónleikahöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd. Stefnuyfirlýsingunum var oft ætlað að ná til breiðs hóps og tungutak þeirra minnti stundum á auglýsingaslagorð nútímans. Yfirlýsingarnar voru oftar en ekki gefnar út í víðlesnum miðlum. Stundum voru ávörpin gefin út í þúsundatali sem dreifirit. Ítalski fútúrisminn var fyrsta listastefnan sem gerði bílinn að mikilvægu tákni. Málarinn Giacomo Balla (1871-1958) gerði til dæmis rúmlega hundrað verk þar sem bíll á ofshraða er meginviðfangsefnið. Mikilvægi bílsins í hugmyndafræði fúturistanna fólst fyrst og fremst í því að þeir álitu hann vera tækniundur sem breytti bæði umhverfi manna og skynjun þeirra á veröldinni. Bíllinn tákngerði þannig hugmyndir fútúristanna um nútímaleika og framfarir tækninnar. Í hraða bílsins fólst andóf gegn festu hefðarinnar sem fútúristunum var meinilla við.
Fútúrisminn hafnaði hefðbundnu formi skáldskapar og vildi umbylta tungumálinu. Í ávarpi um fútúrískar bókmenntir frá 1912 lagði Marinetti til að hefðbundinni setningaskipan yrði kastað fyrir róða. Í skrifum ætti að beita á handahófskenndan hátt sem flestum nafnorðum. Sagnir í persónuhætti voru bannaðar og eingöngu átti að notast við lýsingarhátt, annars væri stíllinn of persónukenndur. Einnig lagði Marinetti blátt bann við notkun allra lýsingar- og atviksorða. Nafnorðin áttu að fá að standa ein í textanum. Ef til voru það þessar kenningar Marinettis sem ameríska ljóðskáldið Ezra Pound (1885-1972) hafði í huga þegar hann líkti fútúrískum skrifum við niðurgang. Seinna viðurkenndi hann þó að án fútúrismans hefði ýmislegt tengt módernisma í bókmenntum á 20. öld aldrei komið fram. Ítölsku fútúristarnir voru algjör andstæða svonefndra hnignunarskálda sem komu fram á síðari hluta 19. aldar og snemma á 20. öld. Hnignunarskáldin voru hugfangin af hverskyns endalokum en fútúristarnir dýrkuðu upphafið. Þeir trúðu á sigur tækninnar yfir náttúrunni og að hægt væri að endurfæðast með hjálp tækninýjunga nútímans án þess að vera mengaður af fortíð eða hefð. Hægt er að lesa meira um fútúrisma í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Þar fjallar höfundur þess svars um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem stendur í bókarkafla um fútúrisma. Frekara lesefni og myndir:
- Marinetti, Filippo Tomasso, et al., Yfirlýsingar: Evrópska framúrstefnan (þýð. og skýringar eftir Áka G. Karlsson, Árna Bergmann og Benedikt Hjartarson), Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2001.
- Art of Giacomo Balla
- Futurism: Manifestos and Other Resources
- Manifesto del futurismo