Þekktasta skáld rússneska fútúrismans var Vladimir Majakovskij (1893-1930). Hann ráðlagði þeim sem vildu yrkja ástarljóð að taka sér far með strætisvagni því fátt væri betra til að laða fram unaðslegt og fagurt ástarkvæði en hristingur í strætisvagni. Þessi skáldskaparfræði Majakovskijs eru gott dæmi um það hvernig rússnesku fútúristarnir leituðust við að setja mannlegar tilfinningar eins og ást, í samhengi við hreyfiafl nútímaborgarlífs. Fagurfræði rússnesku fútúristanna snerist fyrst og fremst um það að frelsa tungumálið frá ofurvaldi bókmenntahefðarinnar. Að því leyti var rússneski fútúrisminn samstíga þeim ítalska. Bæði ítölsku og rússnesku fútúristarnir myndskreyttu með orðum frekar en að þeir hafi alltaf notað orð til að skrifa merkingarbæran texta. Stundum prentuðu þeir og gáfu út handskrifað efni. Í textum rússnesku fútúristanna er orðum oft raðað upp og niður á síðuna, þau stækka eða minnka á víxl og mynda hin ýmsu form. Kveðskapur rússnesku fútúristanna var þó ekki eingöngu af myndrænum toga heldur lögðu þeir einnig mikla áherslu á hljómfall tungumálsins. Stundum glataði tungumálið nær algjörlega merkingu sinni, eins og til að mynda í kunnu hljóðljóði eftir Kruchonykh (1886-1968). Á rússnesku gefa hljóðin þó til kynna einhvern vísi að merkingu en í enskri þýðingu er kvæðið svona:
dyr bul schyl ubeshchur skum vy so bu r l ezLjóðskáldið hélt því fram að þetta kvæði væri þjóðlegra en allt höfundarverk rússneska þjóðskáldins Alexanders Púshkin (1799-1837). Eins og ítölsku fútúristarnir voru hinir rússnesku andsnúnir hefðinni og þeir lýstu því yfir í fyrsta ávarpi sínu að réttast væri að kasta Púshkin fyrir borð af gufuskipi nútímans. Hægt er að lesa um ítalska fútúrismann í svari sama höfundar við spurningunni Hvað getið þið sagt mér um fútúrisma?
Hægt er að lesa meira um fútúrisma í bókinni Þættir úr menningarsögu, Nýja bókafélagið, Reykjavík 2004. Þar fjallar höfundur þess svars um sömu hluti. Texti svarsins fer nærri því sem stendur í bókarkafla um fútúrisma. Mynd: