1542. 14. marz í Hamborg. Bréf borgarstjóra og ráðs í Hamborg „an hern Gysel beschop vor suden Jn Jsslandt” (þ.e. Gizur)[„til Gissurar biskups yfir suður Íslandi” skv. lauslegri þýðingu], þar sem skýrt er frá því að „Ögmundur [Ögmundur Pálsson var biskup í Skálholti 1521-1540] sálugi biskup hafi keypt orgelverk til Skálholtskirkju af Hinrik Martens Hamborgara og standi enn eftir 20 mörk og 10 skildagar lýbskir af andvirðinu, sem Gizur biskup er beðinn að greiða”. Hér kemur fram að orgel var til í Skálholti í tíð síðasta kaþólska biskupsins þar. Þá eru til frásagnir af hljóðfærum sem til voru er Friðrik Konungi III voru svarnir hollustueiðar á alþingi 1649 og 1662 og eru nefnd hljóðfærin „pípr og trómetr” (pípur/flautur og trompetar) og einnig eru nefnd í heimildum frá fyrri tímum hljóðfærin langspil, fiðla, fíól, bumba, harpa, sinfón og klavier. Fiðla og langspil eru talin íslensk hljóðfæri, þau einu sem nefnd eru svo, og voru þau í notkun sennilega frá siðaskiptum og til loka 19. aldar. Hér hefur verið minnst á hljóðfærin en ekki tónlistina. Eins og ég benti á í upphafi eru engar heimildir til (svo mér sé kunnugt) um hljóðfæratónlist á nótum frá fyrri tímum á Íslandi. En fjöldi frásagna er til um söng og fagrar raddir. Verður því að ætla að hljóðfæri þessi hafi aðallega verið notuð til undirleiks við söng, bæði sálmasöng sem veraldlegan söng, frekar en að um hreina hljóðfæratónlist hafi verið að ræða. Má því að framansögðu ætla að sú tónlist sem iðkuð var á Íslandi á 16. og 17. öld hafi mest verið sungin kvæði, sálmar og vikivakar og í þeim tilfellum sem hljóðfæri voru notuð hafi þau verið söngnum til stuðnings. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvert var fyrsta hljóðfærið? eftir Helgu Sverrisdóttur
- Hver er líkleg þróun tónlistar? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Hvernig var tónlistin á árunum 1400-1600? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Hvernig var tónlist stríðsáranna? eftir Ingibjörgu Eyþórsdóttur
- Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Getið þið sagt mér hvað barokktónlist er? eftir Árna Heimi Ingólfsson
- Hver fann upp tónlistina? eftir HMS
- Hvað aðgreinir tónlist frá hávaða? eftir Karólínu Eiríksdóttur
- Bjarni Þorsteinsson: Íslensk Þjóðlög. Kaupmannahöfn 1906-09.
- Guðbrandur Jónsson: Skrá um skjöl er snerta Ísland, íslensk málefni eða íslenska menn, og geymd eru í nokkrum erlendum söfnum. 1931.
- Matthías Þórðarson: Íslenskir listamenn. Reykjavík 1920.
- Ólafur Davíðsson: Íslenzkar skemtanir. Kaupmannahöfn, Hið íslenzka bókmentafélag, 1888-92.
- Wikipedia.com - orgel. Sótt 5.8.2010.