Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar?

Karólína Eiríksdóttir

Eitt sinn heyrði ég bandarískan tónlistarprófessor svara spurningunni „til hvers er tónlist?“ á þessa leið: „Tónlist er alls staðar, það er ekki einu sinni hægt að selja sápu án hennar.“ Það er heilmikið til í þessu einfalda svari, því að tónlist hefur frá örófi alda verið samofin flestu því sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Tónlist er leikin á íþróttakappleikjum og við hátíðlegustu stundir í lífi einstaklinga og þjóða, auglýsingar, leikrit og kvikmyndir eru varla framleidd án tónlistar og eftir því sem kirkjuathafnir eru stærri og hátíðlegri þeim mun veglegri sess skipar tónlist í þeim.

Þannig má segja að eðlislæg þörf mannsins fyrir að tjá sig með tónum hafi verið upphaflega ástæðan fyrir því að tónlist varð hluti af kirkjulegum athöfnum, en þegar kirkjunni óx ásmegin settu fræðimenn kirkjunnar kirkjulegar athafnir í kerfi og færðu fræðileg rök fyrir tilvist og gerð kirkjutónlistarinnar.

Í musterinu og í sýnagógum gyðinga var tónlist hluti af daglegri iðkun trúarinnar. Þar voru biblíutextar tónaðir og sálmar sungnir. Fyrstu kristnu kirkjusöfnuðirnir byggðu trúarathafnir sínar á gyðingdómi, enda ber samanburður á gamalli gyðinglegri og kristinni trúartónlist vott um greinilegan skyldleika. Tónlist var álitin hið rétta tungumál til að tala við Guð. Í Gamla testamentinu er víða talað um tónlistariðkun, til dæmis spilaði Davíð konungur á hörpu og í Síðari Kroníkubók er þessa lýsingu á musterisvígslu Salómons að finna:
En er prestarnir gengu út úr helgidóminum - því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt, og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra, en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin - og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins „því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu,“ þá fyllti ský musterið, musteri Drottins, og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs. (5:11-14)
Á miðöldum skipaði tónlist stóran sess í starfi kaþólsku kirkjunnar, bæði sem hluti af almennum lærdómi og einnig til daglegs brúks við messur og tíðasöng. Grísk og rómversk heimspeki mótaði kirkjulegar kenningar; guðfræði, heimspeki og tónlistarfræði voru samofin.

Snemma á 6. öld e. Kr. setti rómverski fræðimaðurinn og stjórnmálaskörungurinn Boethius (um 470-524) fram kenningar sínar um tónlist í miklu riti, De Musica (Um tónlistina). Kenningar hans voru meðal annars byggðar á speki Pýþagórasar, Platons og Aristótelesar. Tónlist var hluti af lærdómslistunum sjö, hinar voru málfræði, mælskulist, rökfræði, reikningur, flatarmálsfræði og stjörnufræði.

Samkvæmt kenningum Boethiusar byggðist allt á himni og jörðu á tölum og hlutföllum. Sömu hlutföll voru undirstaða tónlistar og hlutföllin sem réðu samsetningu mannslíkamans, líkama og sálar, ennfremur hlutföll stjarnanna, himinhvolfsins og himnaríkis. Fallegast af öllu var Guð almáttugur og allt annað endurspeglaði aðeins þá fegurð. Þar sem tónlistin er byggð á sömu hlutföllunum endurspeglar hún fegurð himnanna, eða Guðs, og gerir þá fegurð þar með heyranlega mannlegu eyra.

Segja má að öll vestræn tónlist eigi rætur að rekja til kirkjunnar, þar var bæði þekking og vilji til að þróa hana áfram. Tónlistarsaga miðalda og endurreisnartímabilsins er margbreytileg og fjölmargar tilraunir voru gerðar með form og tónsmíðaaðferðir. Fljótlega komst skipulag á tónlist kirkjuársins og viðeigandi tónlist var raðað á hvern dag, bæði í messum og tíðasöng. Upphaflega var kirkjutónlistin einraddaður söngur, en á sjöundu og áttundu öld fóru menn að syngja í fleiri röddum og fjölröddun (pólýfónía) varð til. Tóntegundir þróuðust smám saman og um 1600 var dúr- og mollkerfið orðið fullmótað eins og við þekkjum það í dag.

Nótnaskrift þróaðist einnig innan kirkjunnar. Mikilvæg tónlistarform voru messan og mótettan. Hljóðfæri fóru smám saman að heyrast jafnhliða sönglistinni. Sjálfstæðar hljóðfæratónsmíðar urðu til og orgelið var mikilvægt kirkjuhljóðfæri þegar um 1500.

Með tilkomu lútersku kirkjunnar þróaðist sérstök lútersk kirkjutónlist og lúterska sálmalagið átti mikinn þátt í áframhaldandi þróun kirkjutónlistar. Þessi þróun náði hápunkti í kirkjulegum stórvirkjum Bachs og Händels; kantötum, óratoríum (Messías eftir Händel, Jólaóratóría eftir Bach) og passíum (Mattheusarpassía og Jóhannesarpassía eftir Bach). Þetta eru tilkomumiklar tónsmíðar fyrir einsöngvara, stóra kóra og hljómsveit og því komnar býsna langt frá einradda kirkjusöng miðalda.

Öll helstu tónskáld sem þekkt eru frá upphafi skráðrar tónlistarsögu og fram á barokktímabilið létu til sín taka á sviði kirkjutónlistar og má segja að um samfellda þróum hafi verið að ræða í 17 aldir. Mörg tónskáld komu úr prestastétt, enda var tónmennt samofin námi presta og munka. Frá og með 18. öldinni varð vægi veraldlegrar tónlistar meira og megnið af tónlist klassísku og rómantísku tónskáldanna var veraldleg hljóðfæratónlist. Þó hafa flest tónskáld skrifað kirkjuleg stórvirki inn á milli, Verdi og Mozart skrifuðu til dæmis báðir frægar sálumessur, Beethoven skrifaði Missa solemnis, Brahms skrifaði Þýska sálumessu og Stravinsky Sálmasinfóníu.

Uppistaðan í íslenskri kirkjutónlist eru sálmar sem oftast eru sungnir af kór með orgelundirleik. Sálmarnir eru að mestu danskættaðir, en til Danmerkur bárust þeir frá Þýskalandi og eru því byggðir á þýsk-lútersku tónlistarhefðinni.

Mikil gróska er um þessar mundir í íslenskri kirkjutónlist og mikið er samið af stórum og smáum verkum til flutnings í íslenskum kirkjum, auk þess sem metnaðarfullir kirkjutónlistarmenn flytja erlend stórvirki. Af íslenskum verkum nægir að nefna fjölmargar kirkjulegar tónsmíðar Þorkels Sigurbjörnssonar, nýlega Jólaóratoríu eftir John Speight og Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson.

Höfundur

Útgáfudagur

14.1.2003

Spyrjandi

Kristín Magnúsdóttir, f. 1991

Tilvísun

Karólína Eiríksdóttir. „Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar?“ Vísindavefurinn, 14. janúar 2003, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=3002.

Karólína Eiríksdóttir. (2003, 14. janúar). Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=3002

Karólína Eiríksdóttir. „Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar?“ Vísindavefurinn. 14. jan. 2003. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=3002>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Af hverju er sungið í kirkjum og hvernig skapaðist sú gerð tónlistar sem leikin er þar?
Eitt sinn heyrði ég bandarískan tónlistarprófessor svara spurningunni „til hvers er tónlist?“ á þessa leið: „Tónlist er alls staðar, það er ekki einu sinni hægt að selja sápu án hennar.“ Það er heilmikið til í þessu einfalda svari, því að tónlist hefur frá örófi alda verið samofin flestu því sem maðurinn tekur sér fyrir hendur. Tónlist er leikin á íþróttakappleikjum og við hátíðlegustu stundir í lífi einstaklinga og þjóða, auglýsingar, leikrit og kvikmyndir eru varla framleidd án tónlistar og eftir því sem kirkjuathafnir eru stærri og hátíðlegri þeim mun veglegri sess skipar tónlist í þeim.

Þannig má segja að eðlislæg þörf mannsins fyrir að tjá sig með tónum hafi verið upphaflega ástæðan fyrir því að tónlist varð hluti af kirkjulegum athöfnum, en þegar kirkjunni óx ásmegin settu fræðimenn kirkjunnar kirkjulegar athafnir í kerfi og færðu fræðileg rök fyrir tilvist og gerð kirkjutónlistarinnar.

Í musterinu og í sýnagógum gyðinga var tónlist hluti af daglegri iðkun trúarinnar. Þar voru biblíutextar tónaðir og sálmar sungnir. Fyrstu kristnu kirkjusöfnuðirnir byggðu trúarathafnir sínar á gyðingdómi, enda ber samanburður á gamalli gyðinglegri og kristinni trúartónlist vott um greinilegan skyldleika. Tónlist var álitin hið rétta tungumál til að tala við Guð. Í Gamla testamentinu er víða talað um tónlistariðkun, til dæmis spilaði Davíð konungur á hörpu og í Síðari Kroníkubók er þessa lýsingu á musterisvígslu Salómons að finna:
En er prestarnir gengu út úr helgidóminum - því að allir prestarnir, er viðstaddir voru, höfðu helgað sig, flokkaskiptingar var eigi gætt, og allir levítasöngmenn, Asaf, Heman og Jedútún og synir þeirra og bræður, stóðu þar, klæddir baðmullarskikkjum, með skálabumbur, hörpur og gígjur, að austanverðu við altarið, og hjá þeim hundrað og tuttugu prestar, er þeyttu lúðra, en lúðramenn og söngmenn áttu að byrja í senn og einraddað að lofa og vegsama Drottin - og er menn létu lúðra og skálabumbur kveða við og hin önnur hljóðfæri og þakkargjörð til Drottins „því að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu,“ þá fyllti ský musterið, musteri Drottins, og máttu prestarnir eigi inn ganga fyrir skýinu til þess að gegna þjónustu, því að dýrð Drottins fyllti hús Guðs. (5:11-14)
Á miðöldum skipaði tónlist stóran sess í starfi kaþólsku kirkjunnar, bæði sem hluti af almennum lærdómi og einnig til daglegs brúks við messur og tíðasöng. Grísk og rómversk heimspeki mótaði kirkjulegar kenningar; guðfræði, heimspeki og tónlistarfræði voru samofin.

Snemma á 6. öld e. Kr. setti rómverski fræðimaðurinn og stjórnmálaskörungurinn Boethius (um 470-524) fram kenningar sínar um tónlist í miklu riti, De Musica (Um tónlistina). Kenningar hans voru meðal annars byggðar á speki Pýþagórasar, Platons og Aristótelesar. Tónlist var hluti af lærdómslistunum sjö, hinar voru málfræði, mælskulist, rökfræði, reikningur, flatarmálsfræði og stjörnufræði.

Samkvæmt kenningum Boethiusar byggðist allt á himni og jörðu á tölum og hlutföllum. Sömu hlutföll voru undirstaða tónlistar og hlutföllin sem réðu samsetningu mannslíkamans, líkama og sálar, ennfremur hlutföll stjarnanna, himinhvolfsins og himnaríkis. Fallegast af öllu var Guð almáttugur og allt annað endurspeglaði aðeins þá fegurð. Þar sem tónlistin er byggð á sömu hlutföllunum endurspeglar hún fegurð himnanna, eða Guðs, og gerir þá fegurð þar með heyranlega mannlegu eyra.

Segja má að öll vestræn tónlist eigi rætur að rekja til kirkjunnar, þar var bæði þekking og vilji til að þróa hana áfram. Tónlistarsaga miðalda og endurreisnartímabilsins er margbreytileg og fjölmargar tilraunir voru gerðar með form og tónsmíðaaðferðir. Fljótlega komst skipulag á tónlist kirkjuársins og viðeigandi tónlist var raðað á hvern dag, bæði í messum og tíðasöng. Upphaflega var kirkjutónlistin einraddaður söngur, en á sjöundu og áttundu öld fóru menn að syngja í fleiri röddum og fjölröddun (pólýfónía) varð til. Tóntegundir þróuðust smám saman og um 1600 var dúr- og mollkerfið orðið fullmótað eins og við þekkjum það í dag.

Nótnaskrift þróaðist einnig innan kirkjunnar. Mikilvæg tónlistarform voru messan og mótettan. Hljóðfæri fóru smám saman að heyrast jafnhliða sönglistinni. Sjálfstæðar hljóðfæratónsmíðar urðu til og orgelið var mikilvægt kirkjuhljóðfæri þegar um 1500.

Með tilkomu lútersku kirkjunnar þróaðist sérstök lútersk kirkjutónlist og lúterska sálmalagið átti mikinn þátt í áframhaldandi þróun kirkjutónlistar. Þessi þróun náði hápunkti í kirkjulegum stórvirkjum Bachs og Händels; kantötum, óratoríum (Messías eftir Händel, Jólaóratóría eftir Bach) og passíum (Mattheusarpassía og Jóhannesarpassía eftir Bach). Þetta eru tilkomumiklar tónsmíðar fyrir einsöngvara, stóra kóra og hljómsveit og því komnar býsna langt frá einradda kirkjusöng miðalda.

Öll helstu tónskáld sem þekkt eru frá upphafi skráðrar tónlistarsögu og fram á barokktímabilið létu til sín taka á sviði kirkjutónlistar og má segja að um samfellda þróum hafi verið að ræða í 17 aldir. Mörg tónskáld komu úr prestastétt, enda var tónmennt samofin námi presta og munka. Frá og með 18. öldinni varð vægi veraldlegrar tónlistar meira og megnið af tónlist klassísku og rómantísku tónskáldanna var veraldleg hljóðfæratónlist. Þó hafa flest tónskáld skrifað kirkjuleg stórvirki inn á milli, Verdi og Mozart skrifuðu til dæmis báðir frægar sálumessur, Beethoven skrifaði Missa solemnis, Brahms skrifaði Þýska sálumessu og Stravinsky Sálmasinfóníu.

Uppistaðan í íslenskri kirkjutónlist eru sálmar sem oftast eru sungnir af kór með orgelundirleik. Sálmarnir eru að mestu danskættaðir, en til Danmerkur bárust þeir frá Þýskalandi og eru því byggðir á þýsk-lútersku tónlistarhefðinni.

Mikil gróska er um þessar mundir í íslenskri kirkjutónlist og mikið er samið af stórum og smáum verkum til flutnings í íslenskum kirkjum, auk þess sem metnaðarfullir kirkjutónlistarmenn flytja erlend stórvirki. Af íslenskum verkum nægir að nefna fjölmargar kirkjulegar tónsmíðar Þorkels Sigurbjörnssonar, nýlega Jólaóratoríu eftir John Speight og Passíu eftir Hafliða Hallgrímsson.

...