Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Á Vísindavefnum er einnig að finna svar við spurningunni Hafa bóluefni eða ómíkron áhrif á það hvenær þeir sem eru með COVID-19 geta smitað aðra? Við bendum lesendum á að skoða það svar líka. Þar er fjallað sérstaklega um sama efni og hér, með hliðsjón af tilkomu bóluefna við COVID-19 og ómíkron-afbrigði veirunnar SARS-CoV-2.
Einstaklingar sem sýkjast af venjulegri árstíðabundinni inflúensu verða yfirleitt fyrst smitandi eftir að einkenni sjúkdómsins gera vart við sig, vanalega eftir 2-3 daga. Þessu er öðruvísi háttað hjá þeim sem sýkjast af veirunni SARS-CoV-2 sem veldur sjúkdómnum COVID-19. Sýnt hefur verið fram á að markverður hluti af dreifingu COVID-19 á sér stað áður en einkenni koma fram.
Þegar einstaklingur smitast af SARS-CoV-2 tekur vanalega um 5-6 daga fyrir einkenni að gera vart við sig - þetta kallast meðgöngutími COVID-19 (e. incubation period). Sýnt hefur verið fram á að smit getur átt sér stað áður en einkenni koma í ljós; í raun þýðir þetta að veiran finnst í efri öndunarfærum okkar áður en við fáum nokkur einkenni sjúkdómsins. Rannsóknir hingað til sýna að jafnaði er möguleiki á smiti allt að tveimur dögum áður en einkenni koma fram. Enn fremur virðast einstaklingar með COVID-19 vera mest smitandi degi áður en einkenni koma fram. Líklegast eru einstaklingar mest smitandi af COVID-19 á fjögurra daga tímabili sem hefst tveimur dögum áður en einkenni gera vart við sig og nær til loka annars dags eftir upphaf einkenna.
Rannsóknir hingað til sýna að jafnaði möguleika á smiti allt að tveimur dögum áður en einkenni koma fram. Enn fremur virðast einstaklingar með COVID-19 vera mest smitandi degi áður en einkenni koma fram.
Ef við tengjum þessi gögn saman við þekktan meðgöngutíma sjúkdómsins sjáum við að það tekur nokkra daga að verða smitandi með COVID-19 eftir smit, eða um 3-4 daga að jafnaði. Þetta passar við þá staðreynd að það tekur einnig nokkra daga fyrir sýni að verða jákvætt fyrir SARS-CoV-2 úr stroki frá upphafi smits.
Því miður þýðir þetta að einstaklingar með COVID-19 geta smitað aðra áður en þeir fá einkenni sjálfir. Þetta undirstrikar mikilvægi bæði sóttkvíar, þar sem tryggt er að hætta á smiti sé í lágmarki þrátt fyrir að einkenni séu ekki til staðar og ekki síður almennrar aðgátar í hegðun og öllum sóttvörnum. Enn fremur er þetta forsenda þess að nota grímur víðar en vaninn er með aðrar öndunarfærasýkingar. Notkun gríma getur minnkað hættu á að dreifa COVID-19 áfram til annarra óháð einkennum auk þess að vernda mann sjálfan.
Ef smit verður frá einstaklingi sem er einkennalaus er talað um dreifingu án einkenna - hins vegar má skipta þessari dreifingu í tvennt. Ef einstaklingur er í fyrstu einkennalaus en fær síðan einkenni er það nefnt á ensku presymptomatic transmission. Þetta er talið vera ráðandi dreifingarmáti COVID-19. Ef einstaklingur fær hins vegar aldrei einkenni er talað um asymptomatic transmission. Þessi skipting hefur verulega þýðingu - ef flest smit eiga sér stað frá einstaklingum sem eru annað hvort með einkenni eða fá einkenni síðar meir má beita smitrakningu til að meta hættu á útsetningu annarra. Ef einstaklingur dreifir ómeðvitað COVID-19 áfram en fær aldrei einkenni verður þessi smitrakning hins vegar næstum ómöguleg nema ítarleg skimun sé í samfélaginu.
Að lokum er rétt að taka fram að töluverður breytileiki er milli einstaklinga í framgangi sýkingar og smits. Þær tölur og stærðir sem hér hefur verið fjallað um eru meðaltöl fyrir stóra hópa. Sumir einstaklingar smita lengur en aðrir skemur. Því er að sjálfsögðu afar mikilvægt að einstaklingar með COVID-19 fari varlega og fylgi öllum tilmælum, þó svo að tveir dagar eða lengri tími hafi liðið frá upphafi einkenna.
Samantekt:
Það tekur nokkra daga fyrir einstakling að verða smitandi af COVID-19 - að jafnaði um 3-4 daga frá smiti.
Einstaklingur með COVID-19 getur verið smitandi áður en einkenni koma fram.
Hættan á smiti virðist vera mest á tímabili frá tveimur dögum áður en einkenni gera vart við sig til loka annars dags eftir upphaf einkenna.
Mikill breytileiki er hins vegar á milli einstaklinga og almennt gildir mikilvægi sóttkvíar, almennrar smitgátar og notkun gríma til að minnka hættu á dreifingu.
Jón Magnús Jóhannesson og Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hversu fljótt geta þeir sem fá COVID-19 farið að smita aðra og hvenær eru þeir mest smitandi?“ Vísindavefurinn, 7. október 2020, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=80220.
Jón Magnús Jóhannesson og Jón Gunnar Þorsteinsson. (2020, 7. október). Hversu fljótt geta þeir sem fá COVID-19 farið að smita aðra og hvenær eru þeir mest smitandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=80220
Jón Magnús Jóhannesson og Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hversu fljótt geta þeir sem fá COVID-19 farið að smita aðra og hvenær eru þeir mest smitandi?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2020. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=80220>.