Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig virkar vaxtarhormón?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Vaxtarhormón manna (e. human growth hormone, HGH) myndast í heiladingli okkar alla ævi. Seyti þess nær hámarki á unglingsárunum þegar fólk tekur vaxtarkipp en fer minnkandi eftir það.

Allar frumur líkamans hafa viðtaka fyrir vaxtarhormón. Hormónið örvar flutning amínósýra inn í frumurnar og myndun prótína úr þeim þar. Þannig veldur hormónið því að frumur vaxa og fjölga sér. Það stuðlar einnig að fitusundrun og hindrar notkun glúkósa til myndunar orkuefnisins ATP. Hormónið hefur mikil áhrif á beinagrind og vöðvana sem tengjast henni, svokallaða beinagrindarvöðva eða þverrákótta vöðva. Einkum örvar það vöxt beina og vöðva og viðheldur stærð þeirra þegar vexti er lokið.

Seyti vaxtarhormóns er undir stjórn tveggja annarra hormóna sem berast frá undirstúku heilans: Losunarhormóns sem örvar seyti vaxtarhormónsins og hömluhormóns sem hindrar það.

Einn þeirra þátta sem örvar seyti vaxtarhormóns er lágur blóðsykur. Þegar undirstúkan verður þess vör að blóðsykur lækkar bregst hún við með því að seyta losunarhormóni í blóðrás sem liggur beint til heiladinguls. Heiladingullinn seytir þá vaxtarhormóni í blóðið sem ber það meðal annars til lifrarinnar. Við þetta tekur lifrin í meira mæli til við að breyta fjölsykrunni glýkógeni yfir í glúkósa og losa hann í blóðið. Þetta hefur aftur í för með sér að blóðsykurinn hækkar á ný. Ef blóðsykurinn hækkar mjög mikið gerist hins vegar hið gagnstæða fyrir áhrif hömluhormónsins sem undirstúkan losar og sendir til heiladinguls.



Til þess að fólk vaxi eðlilega á vaxtarskeiði verður seyti þriggja hormóna – vaxtarhormóns, þýroxíns og insúlíns – að vera eðlilegt. Fyrstu tvö ár ævinnar virðumst við vaxa að mestu óháð vaxtarhormóni en eftir það er seyti þess nauðsynlegt.

Ef vanseyti er á vaxtarhormóni í bernsku vex barn mjög lítið og verður svokallaður heiladingulsdvergur. Heiladingulsdvergvöxtur lýsir sér í því að öll hlutföll milli líkamshluta eru eðlileg en í smækkaðri mynd. Heiladingulsrisar mynda aftur á móti of mikið af hormóninu á vaxtarskeiði og er Jóhann risi dæmi um slíkan einstakling.

Vaxtarhormón hefur fyrst og fremst þau áhrif á bein að þau lengjast. Slík stækkun getur haldið áfram þangað til vaxtarlínur beinanna lokast en hvenær það gerist er háð erfðum. Ef ofgnótt af vaxtarhormóni myndast eftir að vaxtarlínur beina lokast kemur fram svokallaður æsavöxtur (e. acromegaly). Beinin geta ekki lengst meira, ef undanskilin eru sum andlitsbein eins og kjálka- og nefbein, en þau geta aftur á móti gildnað. Þetta hefur í för með sér breytingu á andlitsfalli, kryppumyndun og almennt þykkari og grófari útlimi.



Kona með æsavöxt. Á myndinni lengst til vinstri er hún einkennalaus en á hinum tveimur myndunum má sjá hvernig einkenninn ágerast með aldrinum.

Vaxtarhormón er fjölpeptíð gert úr 191 amínósýru, og var það fyrst einangrað árið 1956. Þremur árum síðar var það fyrst notað til að meðhöndla heiladingulsdvergvöxt. Hormónið verður að gefa í æð því að ef það er tekið í töfluformi brotanar það niður í einstakar amínósýrur í meltingarveginum og missir við það hormónavirkni sína.

Í fyrstu var einungis hægt að nota vaxtarhormón manna sem unnið var úr heiladinglum látinna einstaklinga. Þetta var því mjög dýrt efni. Á sama tíma var hins vegar hægt að nota insúlín sem einnig er nauðsynlegt fyrir eðlilegan vöxt eins og áður var getið. Insúlínið var ekki eins fágætt og dýrt þar sem það var einangrað úr briskirtli nautgripa og svína.

Sumir íþróttamenn fóru brátt að sækjast eftir vaxtarhormóni þar sem það veldur stækkun vöðva. Þar með voru þeir komnir í samkeppni við heiladingulsdverga um rándýrar og takmarkaðar birgðir af vaxtarhormóni.

Með tilkomu erfðatækni á níunda áratug tuttugustu aldar varð mikil breyting í framleiðslu lyfja og fleiri efna. Nú er svo komið að hægt er að framleiða nánast ótakmarkað magn af vaxtarhormóni, insúlíni og öðrum efnum með aðferðum erfðatækni.

Notkun vaxtarhormóns í íþróttum hefur verið vel þekkt í um hálfa öld. Yfirleitt hefur hormónið verið notað til þess að auka vöðvastyrk, svipað og gerist við notkun vefaukandi stera, og eins til þess að hjálpa fólki að jafna sig fyrr eftir meiðsli á vöðvum. Hins vegar geta ýmsar aukaverkanir fylgt notkun vaxtarhormóns og getur það haft óæskileg og jafnvel hættuleg áhrif á vöðva, bein og líffæri. Nánar má lesa um mögulegar aukaverkanir vaxtarhormóns í nokkrum heimildanna sem tilteknar eru í lok svarsins.

Vaxtarhormón er á lista Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) yfir bönnuð efni og aðferðir í íþróttum og hefur verið það í hátt í tvo áratugi. Til skamms tíma var erfitt að greina misnotkun íþróttamanna á hormóninu en árið 2004 var kynnt próf sem gerir þetta mun auðveldara.

Nú á dögum er hægt að finna mörg þúsund greinar um ýmis áhrif vaxtarhormóns og mikil markaðssetning og sölumennska er stunduð á því um allan heim. Þetta á ekki aðeins við í íþróttum heldur hefur meðal annars verið haldið fram að vaxtarhormón megi nota sem yngingarlyf, að það dragi úr líkamsfitu, bæti svefn, kynlíf, minni og sjón svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður vísindarannsókna hafa ekki stutt slíkar staðhæfingar svo að óyggjandi sé. Það borgar sig því að fara varlega og trúa ekki öllu sem hægt er að lesa um þetta mál.

Dæmi um önnur svör á Vísindavefnum um skyld efni:

Heimildir, frekara lesefni og mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

7.11.2006

Spyrjandi

Sigþrúður Jóhannesdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig virkar vaxtarhormón?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6364.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2006, 7. nóvember). Hvernig virkar vaxtarhormón? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6364

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvernig virkar vaxtarhormón?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6364>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig virkar vaxtarhormón?
Vaxtarhormón manna (e. human growth hormone, HGH) myndast í heiladingli okkar alla ævi. Seyti þess nær hámarki á unglingsárunum þegar fólk tekur vaxtarkipp en fer minnkandi eftir það.

Allar frumur líkamans hafa viðtaka fyrir vaxtarhormón. Hormónið örvar flutning amínósýra inn í frumurnar og myndun prótína úr þeim þar. Þannig veldur hormónið því að frumur vaxa og fjölga sér. Það stuðlar einnig að fitusundrun og hindrar notkun glúkósa til myndunar orkuefnisins ATP. Hormónið hefur mikil áhrif á beinagrind og vöðvana sem tengjast henni, svokallaða beinagrindarvöðva eða þverrákótta vöðva. Einkum örvar það vöxt beina og vöðva og viðheldur stærð þeirra þegar vexti er lokið.

Seyti vaxtarhormóns er undir stjórn tveggja annarra hormóna sem berast frá undirstúku heilans: Losunarhormóns sem örvar seyti vaxtarhormónsins og hömluhormóns sem hindrar það.

Einn þeirra þátta sem örvar seyti vaxtarhormóns er lágur blóðsykur. Þegar undirstúkan verður þess vör að blóðsykur lækkar bregst hún við með því að seyta losunarhormóni í blóðrás sem liggur beint til heiladinguls. Heiladingullinn seytir þá vaxtarhormóni í blóðið sem ber það meðal annars til lifrarinnar. Við þetta tekur lifrin í meira mæli til við að breyta fjölsykrunni glýkógeni yfir í glúkósa og losa hann í blóðið. Þetta hefur aftur í för með sér að blóðsykurinn hækkar á ný. Ef blóðsykurinn hækkar mjög mikið gerist hins vegar hið gagnstæða fyrir áhrif hömluhormónsins sem undirstúkan losar og sendir til heiladinguls.



Til þess að fólk vaxi eðlilega á vaxtarskeiði verður seyti þriggja hormóna – vaxtarhormóns, þýroxíns og insúlíns – að vera eðlilegt. Fyrstu tvö ár ævinnar virðumst við vaxa að mestu óháð vaxtarhormóni en eftir það er seyti þess nauðsynlegt.

Ef vanseyti er á vaxtarhormóni í bernsku vex barn mjög lítið og verður svokallaður heiladingulsdvergur. Heiladingulsdvergvöxtur lýsir sér í því að öll hlutföll milli líkamshluta eru eðlileg en í smækkaðri mynd. Heiladingulsrisar mynda aftur á móti of mikið af hormóninu á vaxtarskeiði og er Jóhann risi dæmi um slíkan einstakling.

Vaxtarhormón hefur fyrst og fremst þau áhrif á bein að þau lengjast. Slík stækkun getur haldið áfram þangað til vaxtarlínur beinanna lokast en hvenær það gerist er háð erfðum. Ef ofgnótt af vaxtarhormóni myndast eftir að vaxtarlínur beina lokast kemur fram svokallaður æsavöxtur (e. acromegaly). Beinin geta ekki lengst meira, ef undanskilin eru sum andlitsbein eins og kjálka- og nefbein, en þau geta aftur á móti gildnað. Þetta hefur í för með sér breytingu á andlitsfalli, kryppumyndun og almennt þykkari og grófari útlimi.



Kona með æsavöxt. Á myndinni lengst til vinstri er hún einkennalaus en á hinum tveimur myndunum má sjá hvernig einkenninn ágerast með aldrinum.

Vaxtarhormón er fjölpeptíð gert úr 191 amínósýru, og var það fyrst einangrað árið 1956. Þremur árum síðar var það fyrst notað til að meðhöndla heiladingulsdvergvöxt. Hormónið verður að gefa í æð því að ef það er tekið í töfluformi brotanar það niður í einstakar amínósýrur í meltingarveginum og missir við það hormónavirkni sína.

Í fyrstu var einungis hægt að nota vaxtarhormón manna sem unnið var úr heiladinglum látinna einstaklinga. Þetta var því mjög dýrt efni. Á sama tíma var hins vegar hægt að nota insúlín sem einnig er nauðsynlegt fyrir eðlilegan vöxt eins og áður var getið. Insúlínið var ekki eins fágætt og dýrt þar sem það var einangrað úr briskirtli nautgripa og svína.

Sumir íþróttamenn fóru brátt að sækjast eftir vaxtarhormóni þar sem það veldur stækkun vöðva. Þar með voru þeir komnir í samkeppni við heiladingulsdverga um rándýrar og takmarkaðar birgðir af vaxtarhormóni.

Með tilkomu erfðatækni á níunda áratug tuttugustu aldar varð mikil breyting í framleiðslu lyfja og fleiri efna. Nú er svo komið að hægt er að framleiða nánast ótakmarkað magn af vaxtarhormóni, insúlíni og öðrum efnum með aðferðum erfðatækni.

Notkun vaxtarhormóns í íþróttum hefur verið vel þekkt í um hálfa öld. Yfirleitt hefur hormónið verið notað til þess að auka vöðvastyrk, svipað og gerist við notkun vefaukandi stera, og eins til þess að hjálpa fólki að jafna sig fyrr eftir meiðsli á vöðvum. Hins vegar geta ýmsar aukaverkanir fylgt notkun vaxtarhormóns og getur það haft óæskileg og jafnvel hættuleg áhrif á vöðva, bein og líffæri. Nánar má lesa um mögulegar aukaverkanir vaxtarhormóns í nokkrum heimildanna sem tilteknar eru í lok svarsins.

Vaxtarhormón er á lista Alþjóða lyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) yfir bönnuð efni og aðferðir í íþróttum og hefur verið það í hátt í tvo áratugi. Til skamms tíma var erfitt að greina misnotkun íþróttamanna á hormóninu en árið 2004 var kynnt próf sem gerir þetta mun auðveldara.

Nú á dögum er hægt að finna mörg þúsund greinar um ýmis áhrif vaxtarhormóns og mikil markaðssetning og sölumennska er stunduð á því um allan heim. Þetta á ekki aðeins við í íþróttum heldur hefur meðal annars verið haldið fram að vaxtarhormón megi nota sem yngingarlyf, að það dragi úr líkamsfitu, bæti svefn, kynlíf, minni og sjón svo eitthvað sé nefnt. Niðurstöður vísindarannsókna hafa ekki stutt slíkar staðhæfingar svo að óyggjandi sé. Það borgar sig því að fara varlega og trúa ekki öllu sem hægt er að lesa um þetta mál.

Dæmi um önnur svör á Vísindavefnum um skyld efni:

Heimildir, frekara lesefni og mynd:...