- Getur risaeldgos orðið að veruleika? Ef svo er hverjar eru líkurnar?
- Gæti orðið ofureldgos á Íslandi?
- Hvað er VEI-flokkun (þetta hefur eitthvað með jarðfræði að gera)?
Til þess að bæta þar úr eru því alla jafna notaðir þrír aðrir mælikvarðar ásamt ofangreindri flokkun. Fyrst skal geta VEI-kvarðans sem notaður er til að leggja mat á hversu mikil gjóska myndast í eldgosinu. Þessi kvarði nær frá 1 upp í 8 þar sem að 1 stendur fyrir hraungos en 8 fyrir mikil gjóskugos. Kvarðinn hefur þó þann galla að mjög stór hraungos falla öll í VEI-1 og hann gefur því enga hugmynd um umfang slíkra eldgosa. Til þess að bregðast við því eru notaðir tveir aðrir mælikvarðar til viðbótar. Annars vegar er mat á magni (M=magnitute) þeirra gosefna sem að upp koma í eldgosinu og er þungi gosefnanna (kg) er táknaður með m:
Hins vegar er mælikvarði sem snýr að styrkleika eldgossins (I=intensity), eða hversu hratt kvikan sem að myndar gosefnin kom upp, og táknar q útstreymi gosefna á hverri sekúndu í eldgosinu (kg/s):
Ef útstreymi er lágt þá verða áhrif eldgossins lítil og svo öfugt. Sem dæmi má nefna dyngjur á Íslandi. Dyngjur eru rúmmálsmiklar (frá 10 til 25 km3) en gosefnin koma alla jafna hægt upp í dyngjugosum sem geta varað í áratugi. Því verða áhrif slíkra gosa mun minni en sambærilegra sprungugosa eins og Laka árið 1783 þar sem öll gosefnin komu upp á einu ári. Í súpereldgosum fara saman mikið magn gosefna og hár styrkleiki; þau eru mjög efnismikil og efnið gýs upp á stuttum tíma. Í dag eru súpereldgos skilgreind sem eldgos þar sem upp koma 300 km3 af kviku eða meira í einstöku gosi. Til samanburðar eru stærstu eldgos á Íslandi um 25 km3.
Stærsta súpereldgos sem að þekkt er varð í Bandaríkjum Norður-Ameríku fyrir um 28 milljónum ára. Þá gusu um 3200 km3 af kviku í einu eldgosi. Þetta samsvarar því að Stór-Reykjavíkursvæðið myndi grafast undir sem nemur um 1 km af ösku. Súpereldgos eru sem betur fer frekar óalgeng á jörðinni, en hlutfallslega smá súpereldgos eru þó algengari en árekstrar loftsteina við jörðina. Nútímasamfélag manna hefur ekki þurft að takast á við afleiðingar súpereldgoss enn, en mun klárlega þurfa að gera það í framtíðinni. Afleiðingar slíks eldgoss yrðu gífurlegar og gætu stór svæði eins og Bandaríkin eða Evrópa orðið fyrir gríðarlegu manntjóni ef slíkt eldgos yrðu þar. Landbúnaður myndi leggjast af sem og flugsamgöngur, en það gæti fljótt leitt til hungursneyðar í þessum heimshlutum. Veðurfarsáhrif yrðu jafnframt gríðarleg þar sem að mikið magn gosefna og eldfjallagufa bærist upp í heiðhvolfin. Sjónir vísindamanna eru farnar að beinast að þessum eldgosum, einkum vegna þess hversu gríðarleg umhverfisáhrif þau koma til með að hafa. Það er enn langt í land að við þekkjum öll súpereldgos sem átt hafa sér stað á jörðinni og þess vegna er langt því frá að við skiljum til fullnustu afleiðingar slíkra gosa. Síðasta súpereldgos í Evrópu átti sér stað fyrir um 35 þúsund árum, en þá gaus í Campanian-lægðinni við Napólíflóa á Ítalíu með þeim afleiðingum að um 300 km3 af kviku komu upp til yfirborðs. Afleiðingar þessa eldgoss eru ekki þekktar til fullnustu. Best þekkta súpereldgosið er Toba-eldgosið á Indónesíu sem varð fyrir um 74 þúsund árum. Í því eldgosi komu upp um 2500 km3 af kviku. DNA-rannsóknir á mönnum benda til að það hafi myndast "flöskuháls" í þróun mannsins í kjölfar þessa eldgoss þar sem talið er að einungis um 10 þúsund einstaklingar hafi lifað gosið af. Súpereldgos eru bundin við svæði þar sem að flekar rekast saman og fara undir hvor annan. Því eru ekki miklar líkur á því að slíkt eldgos geti átt sér stað á Íslandi þar sem landið er á flekaskilum. Almennt eru líkur á súpereldgosum litlar, en þó er vert að geta þess að líkur á súpereldgosi af stærðinni 300 km3 nú á 21. öld eru taldar um 1%. Á Vísindavefnum eru fjölmörg svör um eldgos, til dæmis svör Sigurðar Steinþórssonar við spurningunum:Hægt er að nálgast fleiri svör um eldgos með því að nota leitarvélina hér til vinstri eða með því að smella á efnisorð neðst í þessu svari. Myndir: