Það er því ekki skrýtið að jafnvel hátekjufólk vinnur iðulega verk sem lægra launað fólk getur unnið hraðar og betur. Tannlæknirinn hefur sennilega talsvert hærra tímakaup en málarinn í næsta húsi og sá síðarnefndi málar bæði hraðar og betur. Engu að síður getur fleygurinn sem skattheimtan rekur á milli þeirra komið í veg fyrir viðskipti. Franskir eða ítalskir vínbændur gætu líka hugsað velferðarkerfinu íslenska þegjandi þörfina því að vínið margfaldast í verði á leiðinni frá ekrum þeirra og að hillunum í ríkinu. Fyrir vikið blómstrar framleiðsla á ýmsum göróttum vökvum á Íslandi við grátbroslegar aðstæður og ærinn tilkostnað, drykkjum sem eiga fátt annað en áfengismagnið sameiginlegt með fjöldaframleiðslu annarra ríkja. Vandinn er í hnotskurn sá að fólk sem getur lækkað skattgreiðslur sínar með því að breyta hegðun sinni mun í mörgum tilfellum gera það. Sá sem málar eigin íbúð eða framleiðir eigið áfengi greiðir fyrir vikið lægri skatta. Eftir því sem skatthlutföll eru hærri þeim mun meiri hvatning er til þess að komast hjá skattgreiðslum og því hafa háir skattar meiri áhrif á hegðun fólks en lágir. Ef tekjuskattur væri 100% myndu fáir mæta til vinnu. Nær allir skattar reka fleyg á milli ábata einstaklings af ákvörðun sem hann tekur og ábata þjóðfélagsins sem heildar af ákvörðuninni. Útkoman getur hæglega orðið sú að einstaklingar taka ákvarðanir sem koma þeim vel en öðrum illa. Kostnaður þjóðfélagsins vegna slíkra ákvarðana er nefndur umframbyrði skatta á máli hagfræðinnar. Forskeytið umfram endurspeglar það að hér er ekki bara um að ræða tilfærslu fjár frá skattgreiðendum til þiggjenda opinberrar þjónustu, sem skapar augljóslega byrði fyrir skattgreiðendur, heldur verðmæti sem fara forgörðum án þess að það hafi verið ætlunin. Tölvunarfræðingur sem ákveður að taka sér frí úr vinnunni til þess að smíða grindverk utan um húsið sitt í stað þess að fá til þess smið sparar sér hugsanlega fé þótt kostnaður þjóðfélagsins sé meiri fyrir vikið. Tölvunarfræðingurinn lækkar við þetta bæði tekju- og virðisaukaskattgreiðslur sínar en fyrir vikið verður annaðhvort að draga úr þjónustu ríkisins eða leggja hærri skatta á einhverja aðra til að vega upp á móti þessu. Sárir þumlar tölvunarfræðingsins eru hluti af skattbyrði hans og þjóðfélagið situr uppi með dýrt grindverk og kannski eilítið skakkt. Skattar sem fólk getur ekki komist hjá að greiða hafa lítil áhrif á hegðun þess. Ef góðkunningi okkar, rakarinn, greiddi engan tekjuskatt hefði hann minni ástæðu til að draga úr vinnu til að lækka skattgreiðslur sínar. Það sama ætti reyndar við ef ríkið teldi frístundir rakarans honum til tekna og skattlegði þær þannig að hann greiddi jafnmikið í skatt sama hversu mikið hann vinnur. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hversu hátt hlutfall er tekjuskattur einstaklinga af allri skattheimtu ríkissjóðs og hver yrðu áhrif þess að fella hann niður? eftir Gylfa Magnússon
- Hvernig er tekið tillit til beinna og óbeinna skatta við mat á launaþróun? eftir Gylfa Magnússon
- Er eitthvert ríki svo vel stætt að það greiðir borgurunum í stað þess að leggja gjöld á þá? eftir Gylfa Magnússon
- Hver er réttlætingin fyrir álagningu erfðafjárskatts? eftir Gylfa Magnússon
- Hvað eru jaðarskattar? eftir Gylfa Magnússon
- Er líklegt að lækkun á tekjuskattshlutfalli auki skatttekjur ríkissjóðs? eftir Gylfa Magnússon
- Hvers vegna er borgaður skattur af ellilífeyri? eftir Gylfa Magnússon
- Wikipedia.com. Sótt 30.7.2010.