Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvaða grænmeti & ávextir voru ræktuð hér (ef einhver) í það heila fyrir 20. öldina? Voru t.d. einhver grænmeti og/eða ávextir ræktuð hér á víkingaöld?
Gera má ráð fyrir að landnemar hafi reynt að rækta nytjajurtir sem þeir könnuðust við. Í Skandinavíu og Bretlandseyjum var garðrækt og akuryrkja talsvert stunduð á landnáms- og söguöld. Fáar heimildir liggja hins vegar fyrir um þá ræktun.
Hjörleifur, fóstbróðir Ingólfs Arnarsonar hugðist rækta korn vorið eftir að hann tók land við Hjörleifshöfða en ekkert varð af því. Í Landnámabók er nefnt að hann hafi haft með sér arður, sem er frumstætt jarðvinnsluverkfæri og undanfari plógsins, og auk þess hefur hann haft með sér fræ, langsennilegast er að það hafi verið byggfræ. Einnig flutti hann með sér arðuruxa.
Bygg er ein þeirra tegunda sem örugglega hefur verið ræktuð til matar á Íslandi frá upphafi byggðar.
Erfitt er að nefna ákveðnar tegundir sem örugglega voru ræktaðar til matar í upphafi en nefna má næpur og grænkál auk byggsins. Á landnámsöld þekkti fólk til ræktunar ýmissa matjurta í nágrannalöndunum. Má þar til dæmis nefna ýmsar lauktegundir, dill, steinselju, kóríander, hestabaunir, gráertu, næpu og grænkál. Sennilega hefur hvönn og njóli verið ræktaður í einhverjum mæli þar sem þær tegundir var ekki að finna í náttúrunni.
Getið er laukagarða, kálgarða og hvanngarða í fornum ritum íslenskum og norskum.
Byggræktun var stunduð á Íslandi en sú ræktun lagðist að mestu niður um 1400 og fáum sem engum sögum fer eftir það af matjurtaræktun á landinu næstu 250 ár eða svo. Eina undantekningin þar er ræktun í klaustrum, sem sýnt hefur verið fram á að hafi verið stunduð meðan þau voru starfrækt, fram til um 1550. Tegundir sem þar voru ræktaðar voru bæði matjurtir og skrautjurtir til prýðis í klaustrunum en þó einkum ýmsar lækningajurtir.
Gísli Magnúson (Vísi-Gísli, 1621-1696) var fremstur í ræktun matjurta um miðja 17. öld. Hann hafði kynnst ræktun á námsferðum sínum til Evrópu og hafði mikinn áhuga á að kynna hana fyrir löndum sínum. Árið 1646 hóf hann ræktun á heimili foreldra sinna á Munkaþverá í Eyjafirði og kom sér upp garðlöndum þar sem hann bjó eftir það, á Skriðu í Fljótsdal, Hlíðarenda í Fljótshlíð og í Skálholti. Gísli ræktaði meðal annars bygg, rúg, hvítkál og aðrar káltegundir, ertur, rófur, salat, radísur, steinselju, graslauk og kúmen.
Rófur eru meðal þeirra tegunda sem Vísi-Gísli ræktaði á 17. öld.
Á 18. öld bættust fleiri tegundir við þegar konungsvaldið lagði áherslu á aukna matjurtaræktun landsmanna með ýmsum ráðum. Á Bessastöðum voru til dæmis ræktaðar ýmsar mat- og nytjajurtir eins og stikilsber, garðablóðberg, sellerí, meiran, gulrætur, rófur, sykurertur, grænkál, hnúðkál, blómkál, piparrót og rifsrunnar auk kartaflna, en þar voru þær fyrst teknar til ræktunar árið 1758. Á Nesi við Seltjörn ræktaði lyfsalinn þar kryddjurtir, epli og ylli, auk margra lækningajurta.
Björn Halldórsson í Sauðlauksdal gerði einnig miklar athuganir á ræktun matjurta í Sauðlauksdal. Eftirtaldar tegundir voru reyndar í íslenskum görðum á 17. öld og fram eftir 19.öld: Nípa eða pastinakka, spínat, steinselja, sykurertur, blöðrukál, salat, garðablóðberg, rauðrófur, meiran, graslaukur, sellerí, piparrót, stikilsber, perur, sniðkál, rifsber, hafrar, bygg, rúgur, rauðlaukur, kerfill, hreðkur, næpur, rófur, hnúðkál, blómkál, grænkál, gulrætur, sykurertur, kúmen, salvía, rabarbari, gúrkur og kartöflur. Ýmsar fleiri tegundir bættust við undir lok 19. aldar og í byrjun 20. aldar
Heimildir og myndir:
Björn Halldórsson: Grasnytjar. Í ritinu Rit Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal. Búnaðarfélag Íslands, Reykjavík 1983.
Ingólfur Guðnason: Vísbendingar um garðrækt í Skálholti á fyrri öldum, í ritinu Frumkvöðull vísinda og mennta, Þórður Þorláksson biskup í Skálholti, Háskólaútgáfan 1998 bls. 143-158.
Ingólfur Guðnason. „Hvaða nytjajurtir ræktuðu landsmenn frá landnámi fram til 20. aldar?“ Vísindavefurinn, 3. október 2024, sótt 22. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=86886.
Ingólfur Guðnason. (2024, 3. október). Hvaða nytjajurtir ræktuðu landsmenn frá landnámi fram til 20. aldar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86886
Ingólfur Guðnason. „Hvaða nytjajurtir ræktuðu landsmenn frá landnámi fram til 20. aldar?“ Vísindavefurinn. 3. okt. 2024. Vefsíða. 22. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86886>.