Plantan var áður notuð sem lækningajurt og fersk njólablöð eru talin holl. Um njólann má lesa eftirfarandi í bókinni Matarást eftir Nönnu Rögnvaldsdóttur:
Blöð af njóla (Rumex longifolius), sem er af súruætt, voru töluvert notuð hérlendis áður fyrr, bæði í te, súpur og grauta og með ýmsum kjöt- og fiskréttum. Njólinn er bestur á vorin, áður en hann blómstrar, og var fyrsta græna matjurtin sem unnt var að fá á vorin áður fyrr. Hann má matreiða á sama hátt og grænkál. Um hann sagði Eggert Ólafsson í Matjurtabók sinni: „Þetta kál er tilreitt sem kálgrautur, túnsúrur eru góðar þar saman við.“ Sæt njólastappa var borin fram með steiktu kindakjöti í veislu sem Jörundi hundadagakonungi var haldin í Viðey árið 1809, en annað meðlæti með steikinni var vöfflur, flatbrauð og kex.Á vefnum Flóra Íslands má sjá kort af útbreiðslu njólans. Heimildir og mynd:
- Flóra Íslands.
- Nanna Rögnvaldsdóttir. Matarást. Reykjavík, Iðunn. 2002.
- Mynd: Wild Flower Society. Sótt 24. 3. 2011.
Þetta svar er í flokknum "bekkirnir spyrja" þar sem starfsfólk vefsins svarar spurningum frá grunnskólabekk í kennslustund, samkvæmt samningi. Lögð er áhersla á skjót svör, stutt og aðgengileg. Oft er byggt á öðrum svörum sem kunna að nýtast almennum lesendum betur.