Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjar eru nýjustu hugmyndir um aldur landnámslagsins og Eldgjárhrauna?

Sigurður Steinþórsson

Í stuttu máli myndaðist landnámslagið um 877 og Eldgjárhraun um 939 e.Kr. Í framhaldinu er saga þessara aldursgreininga rakin stuttlega.

Landnámslagið

Þegar fornleifafræðingar voru að grafa upp rústir á Stöng og víðar í Þjórsárdal árið 1939 var Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi falið að freista þess að ákvarða aldur rústanna með hjálp öskulaga. Ofan á rústunum lá þykkt vikurlag sem þá var talið vera úr Heklugosinu mikla árið 1300 (en síðar reyndist vera frá 1104). Undir rústunum á Stöng, og nokkru eldra en þær, var ótruflað tvílitt gjóskulag, ljóst neðan og dökkt ofan, sem Sigurður merkti VIIIa+b.[1] Frekari rannsóknir sýndu að merki mannvistar liggja nánast alfarið ofan við þetta lag[2] – rústir, breytingar á gróðri og jarðvegi (áfok) – og af því ályktuðu menn að lagið hefði myndast við upphaf landnáms á Íslandi, kringum 870 skv. tímatali Íslendingabókar Ara fróða (1067–1148).

Þegar aldursgreiningar með geislakoli (C-14) komu til skjalanna um 1950 sáu menn sér leik á borði að greina raunverulegan aldur Landnámslagsins – og þar með landnáms – en ekki tókst betur til en svo að misvísandi niðurstöður fengust um aldurinn, allt frá því um 800 til 900. Samanburður við árhringi trjáa sýnir raunar að sýnishorn frá mestum hluta 9. aldar gefa sama geislakolsaldur. Misvísandi aldursgreiningar urðu þó tilefni til deilna um „landnám fyrir viðtekið landnám“, jafnvel allt að 250 árum fyrir 870.

Efsta dökka lagið er tengt gosinu í Eldgjá en dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámslagið.

Árið 1995 urðu þau tímamót að korn úr landnámslaginu fundust í borkjarna (GRIP)[3] úr Grænlandsjökli á dýpi í jöklinum sem svaraði til ársins 871±2,[4] og sama ár fundust korn úr Eldgjárgosi í öðrum ískjarna (GISP2)[5] sem túlkanir dagsettu 838±4.[6] Með efnagreiningu glerkorna, ef fundust, var unnt að staðfesta frá hvaða eldstöð lagið var komið, en áður höfðu lögin einungis verið greind sem frávik í rafleiðni af sökum sýru (einkum brennisteinssýru) í úrkomu.

Ártalinu 871±2 fyrir landnámslagið hafði verið tekið fagnandi og meðal annars var landnámssýning sem opnuð var í miðborg Reykjavíkur nefnd því nafni. Frekari samanburður á djúpkjörnunum tveimur frá Summit á Grænlandi leiddi til þess 1997 að ársetning landnámslagsins var endurtúlkuð úr 871±2 (GRIP) í 877±4 (GISP2)[7] og nú mun árið 877 teljast næst sanni.

Eldgjárhraun

Í grein sinni um Bjarnagarð á Landbrotshrauni[8] skrifar Sigurður Þórarinsson um aldur hraunsins sem sé hluti þeirra víðáttumiklu hrauna, er upptök eiga í Eldgjá: Jón Steingrímsson hafi fyrstur víkið að aldri Landbrotshrauns og talið það yngra en landnám.[9] Sjálfur hafi Sigurður í eina tíð talið það vera frá um 700 e.Kr.[10] Jón Jónsson, jarðfræðingur, telji það um 5200 ára[11] en gjóskulagarannsóknir Guðrúnar Larsen[12] hafi nú fært sönnur á þá skoðun Þorvalds Thoroddsens, er fyrstur kannaði Eldgjá,[13] að Landbrotshraunið sé frá fyrri hluta 10. aldar. Niðurstöðu sína byggði Guðrún aðallega á jarðvegssniðum nærri Ytri-Dalbæ, þar sem tota úr Landbrotshrauninu hefur ekið þykkum moldarjarðvegi saman í fellingar „sem eru yngri en landnámslagið svokallaða, en það er frá um 900.“ Smiðshöggið á ákvarðirnar á aldri Landbrotshrauns segir Sigurður hafa verið rekið af dönskum eðlisfræðingi, C.U. Hammer, sem hafi unnið vísindalegt afrek er varði okkur Íslendinga flestum fremur, með aðferð til að finna menjar eldgosa í ískjörnum úr Grænlandsjökli og öðrum gaddjöklum: Í eldgosum berst meira eða minna af gasi, einkum brennisteinssamböndum og kolsýru, upp í lofthjúp jarðar og dreifist aðallega sem móðumyndandi ördropar (e. aerosol), sem smám saman berast aftur til jarðar. Þar sem móðan sest, eða rignir niður, á jökla eykur hún rafleiðni yfirborðslags hjarnsins, sem síðar breytist í ís, og það er þessi leiðni sem Hammer mælir og fær samtímis allgóða vitneskju um stærð gosanna. Nú hafa, skrifar Sigurður, árleg lög í Grænlandsjökli verið aldursákvörðuð með öðrum aðferðum, svo að ekki skakkar nema einu eða örfáum árum síðustu 1–2 árþúsundin og þetta gildir einnig um menjar eldgosanna. Eitt af allra fyrstu gosunum, sem Hammer fann menjar um í Grænlandsjökli, var gosið í Lakagígum 1783 og sker það sig mjög úr öðrum gosum varðandi stærð, svo sem vænta mátti. Þar eð Eldgjárhraunið er svipaðrar stærðar og Skaftáreldahraunið bað Sigurður Þórarinsson Hammer að leita í ískjörnunum að gosi svipaðrar stærðar og Skaftáreldar, frá öldunum næstu fyrir og eftir 900.[14] Eitt lag og aðeins eitt fannst svipaðrar stærðar, frá árinu 934.[15] Sigurður segir nú mega öruggt teljast, svo vart skakki meira en einu ári til eða frá, að Landbrotshraun og etv. Eldgjárhraunið allt, sé frá árinu 934. Athyglisverð í þessu sambandi séu þau ummæli séra Jóns Steingrímssonar, að stórhlaup hafi komið undan Mýrdalsjökli 934.[16]

Niðurstaða Hammers o.fl. 1980 um aldur Landbrotshrauns (934±2) var, eins og fyrr sagði, byggð á rafleiðni-útslagi í ískjarna nefndum Crète[17] og lýst var í Nature 1980,[18] og síðar í tímaritinu Jökli.[19] En 1995 höfðu gjóskukorn úr bæði Veiðivatnagosi (Landnámslag, Grönvold o.fl.)[20] og Eldgjárgosi (Ziemenski o.fl.)[21] fundist í ískjörnum frá Summit á Grænlands, og nú var Eldgjárlagið ársett 938±4. Frekari samanburður á djúpkjörnunum tveimur leiddi til þess að ársetning landnámslagsins var endurtúlkuð úr 871±2 (GRIP) í 877±4 (GISP2)[22] og nú mun árið 877 teljast næst sanni.

Í yfirlitsgrein 2017 um aldursgreiningu rústa á Íslandi frá landnámsöld með gjóskulögum – það er milli landnámslags og Eldgjárhrauna – þar sem rækilega er farið yfir aldursgreiningar gjóskulaga, nota höfundar ártölin 877±1 og 939 fyrir gjóskulögin tvö.[23]

Tilvísanir:
  1. ^ Sigurður Þórarinsson 1944. Tefrokronologiska studier på Island: Þjórsárdalur och dess forödelse. Ejnar Munksgaard, Köbenhavn.
  2. ^ Fáar öruggar undantekningar eru þekktar, t.d. á Reykjanesskaga: Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1988. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull 38: 71–85.
  3. ^ GRIP, Greenland Ice Core Project 1989–95; borun 1990–92 náði 3029 m kjarna niður á botn í Summit.
  4. ^ Karl Grönvold o.fl. 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land sediments. Earth and Planetary Sciencde Letters 135: 149–155.
  5. ^ GISP2, Greenland Ice Sheet Project 2; borun 1988-93 náði 3053,44 m löngum kjarna niður á botn í Summit.
  6. ^ G.A. Ziemenski o.fl. 1995. Evidence of the Eldgjá (Iceland) eruption in the GISP2 Greenland ice core: relationship to eruption processes and climatic conditions in the tenth century. Holocene 5: 129–140.
  7. ^ G.A Ziemenski o.fl. 1997. Volcanic aerosol records and tephrochronology of the Summit, Greenland, ice cores. Journal of Geophysical Research 102: 26.625-26.640.
  8. ^ Sigurður Þórarinsson 1981. Bjarnagarður. Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 78. árg. s. 4-49.
  9. ^ Safn til sögu Íslands IV, bls. 9.
  10. ^ Sigurður Þórarinsson 1955. Myndir úr jarðfræði Íslands IV. Eldgjá. Náttúrufræðingurinn 25: 148–153.
  11. ^ Jón Jónsson 1975. Nokkrar aldursákvarðanir. Náttúrufræðingurinn 45: 27–30; Jón Jónsson 1978. Eldstöðvar og hraun í Skaftafellsþingi. Náttúrufræðingurinn. 48: 196–230; Jón Jónsson 1979. Um aldur Eldgjárhrauna – athugasemd. Náttúrufræðingurinn. 49: 316–318.
  12. ^ Guðrún Larsen 1979. Um aldur Eldgjárhrauna. Náttúrufræðingurinn. 49: 1–26. Guðrún Larsen 1979. Um aldur – svar. Náttúrufræðingurinn. 49: 319–320.
  13. ^ Þorvaldur Thoroddsen 1911. Lýsing Íslands II, s. 155. Þorvaldur Thoroddsen 1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane. Kaupmannahöfn, s. 67, 122, 249.
  14. ^ Sigurður Þórarinsson 1977. Jarðvísindi og Landnáma. Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni. Stofnun Árna Magnússonar, s. 676.
  15. ^ C.U. Hammer, H.B. Clausen, W. Dansgaard 1980. Greenland ice sheet evidence of post-glacial volcanism and its climatic impact. Nature 288: 230-235. C.U. Hammer 1980. Acidity of polar ice cores in relation to absolute dating, past volcanism and radio achoes. Journal of Glaciology 25: 368–369.
  16. ^ Safn til sögu Íslands IV, s. 196.
  17. ^ Crète, 404 m langur ískjarni sem bandaríska jöklarannsóknastofnunin CRREL (Cold Regions Research and Engineering Facility) boraði á Crete-svæðinu á Grænlandi árið 1974 sem hluti af alþjóðlega verkefninu GISP (Greenland Ice Sheet Project).
  18. ^ C.U. Hammer, H.B. Clausen, W. Dansgaard 1980. C.U. Hammer 1980.
  19. ^ C.U. Hammer 1984. Traces of Icelandic Eruptions in the Greenland Ice Sheet. Jökull 34: 51–65.
  20. ^ Karl Grönvold o.fl. 1995.
  21. ^ G.A. Ziemenski o.fl. 1995.
  22. ^ G.A Ziemenski o.fl. 1997.
  23. ^ M.M.E. Schmid o.fl. 2017. Tephra isochrons and chronologies of colonisation. Quaternary Geochronology 40: 56–66.

Mynd:

Höfundur

Sigurður Steinþórsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

18.11.2021

Spyrjandi

Guðjón, ritstjórn

Tilvísun

Sigurður Steinþórsson. „Hverjar eru nýjustu hugmyndir um aldur landnámslagsins og Eldgjárhrauna?“ Vísindavefurinn, 18. nóvember 2021, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82674.

Sigurður Steinþórsson. (2021, 18. nóvember). Hverjar eru nýjustu hugmyndir um aldur landnámslagsins og Eldgjárhrauna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82674

Sigurður Steinþórsson. „Hverjar eru nýjustu hugmyndir um aldur landnámslagsins og Eldgjárhrauna?“ Vísindavefurinn. 18. nóv. 2021. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82674>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjar eru nýjustu hugmyndir um aldur landnámslagsins og Eldgjárhrauna?
Í stuttu máli myndaðist landnámslagið um 877 og Eldgjárhraun um 939 e.Kr. Í framhaldinu er saga þessara aldursgreininga rakin stuttlega.

Landnámslagið

Þegar fornleifafræðingar voru að grafa upp rústir á Stöng og víðar í Þjórsárdal árið 1939 var Sigurði Þórarinssyni jarðfræðingi falið að freista þess að ákvarða aldur rústanna með hjálp öskulaga. Ofan á rústunum lá þykkt vikurlag sem þá var talið vera úr Heklugosinu mikla árið 1300 (en síðar reyndist vera frá 1104). Undir rústunum á Stöng, og nokkru eldra en þær, var ótruflað tvílitt gjóskulag, ljóst neðan og dökkt ofan, sem Sigurður merkti VIIIa+b.[1] Frekari rannsóknir sýndu að merki mannvistar liggja nánast alfarið ofan við þetta lag[2] – rústir, breytingar á gróðri og jarðvegi (áfok) – og af því ályktuðu menn að lagið hefði myndast við upphaf landnáms á Íslandi, kringum 870 skv. tímatali Íslendingabókar Ara fróða (1067–1148).

Þegar aldursgreiningar með geislakoli (C-14) komu til skjalanna um 1950 sáu menn sér leik á borði að greina raunverulegan aldur Landnámslagsins – og þar með landnáms – en ekki tókst betur til en svo að misvísandi niðurstöður fengust um aldurinn, allt frá því um 800 til 900. Samanburður við árhringi trjáa sýnir raunar að sýnishorn frá mestum hluta 9. aldar gefa sama geislakolsaldur. Misvísandi aldursgreiningar urðu þó tilefni til deilna um „landnám fyrir viðtekið landnám“, jafnvel allt að 250 árum fyrir 870.

Efsta dökka lagið er tengt gosinu í Eldgjá en dökka lagið með ljósum botni þar fyrir neðan er Landnámslagið.

Árið 1995 urðu þau tímamót að korn úr landnámslaginu fundust í borkjarna (GRIP)[3] úr Grænlandsjökli á dýpi í jöklinum sem svaraði til ársins 871±2,[4] og sama ár fundust korn úr Eldgjárgosi í öðrum ískjarna (GISP2)[5] sem túlkanir dagsettu 838±4.[6] Með efnagreiningu glerkorna, ef fundust, var unnt að staðfesta frá hvaða eldstöð lagið var komið, en áður höfðu lögin einungis verið greind sem frávik í rafleiðni af sökum sýru (einkum brennisteinssýru) í úrkomu.

Ártalinu 871±2 fyrir landnámslagið hafði verið tekið fagnandi og meðal annars var landnámssýning sem opnuð var í miðborg Reykjavíkur nefnd því nafni. Frekari samanburður á djúpkjörnunum tveimur frá Summit á Grænlandi leiddi til þess 1997 að ársetning landnámslagsins var endurtúlkuð úr 871±2 (GRIP) í 877±4 (GISP2)[7] og nú mun árið 877 teljast næst sanni.

Eldgjárhraun

Í grein sinni um Bjarnagarð á Landbrotshrauni[8] skrifar Sigurður Þórarinsson um aldur hraunsins sem sé hluti þeirra víðáttumiklu hrauna, er upptök eiga í Eldgjá: Jón Steingrímsson hafi fyrstur víkið að aldri Landbrotshrauns og talið það yngra en landnám.[9] Sjálfur hafi Sigurður í eina tíð talið það vera frá um 700 e.Kr.[10] Jón Jónsson, jarðfræðingur, telji það um 5200 ára[11] en gjóskulagarannsóknir Guðrúnar Larsen[12] hafi nú fært sönnur á þá skoðun Þorvalds Thoroddsens, er fyrstur kannaði Eldgjá,[13] að Landbrotshraunið sé frá fyrri hluta 10. aldar. Niðurstöðu sína byggði Guðrún aðallega á jarðvegssniðum nærri Ytri-Dalbæ, þar sem tota úr Landbrotshrauninu hefur ekið þykkum moldarjarðvegi saman í fellingar „sem eru yngri en landnámslagið svokallaða, en það er frá um 900.“ Smiðshöggið á ákvarðirnar á aldri Landbrotshrauns segir Sigurður hafa verið rekið af dönskum eðlisfræðingi, C.U. Hammer, sem hafi unnið vísindalegt afrek er varði okkur Íslendinga flestum fremur, með aðferð til að finna menjar eldgosa í ískjörnum úr Grænlandsjökli og öðrum gaddjöklum: Í eldgosum berst meira eða minna af gasi, einkum brennisteinssamböndum og kolsýru, upp í lofthjúp jarðar og dreifist aðallega sem móðumyndandi ördropar (e. aerosol), sem smám saman berast aftur til jarðar. Þar sem móðan sest, eða rignir niður, á jökla eykur hún rafleiðni yfirborðslags hjarnsins, sem síðar breytist í ís, og það er þessi leiðni sem Hammer mælir og fær samtímis allgóða vitneskju um stærð gosanna. Nú hafa, skrifar Sigurður, árleg lög í Grænlandsjökli verið aldursákvörðuð með öðrum aðferðum, svo að ekki skakkar nema einu eða örfáum árum síðustu 1–2 árþúsundin og þetta gildir einnig um menjar eldgosanna. Eitt af allra fyrstu gosunum, sem Hammer fann menjar um í Grænlandsjökli, var gosið í Lakagígum 1783 og sker það sig mjög úr öðrum gosum varðandi stærð, svo sem vænta mátti. Þar eð Eldgjárhraunið er svipaðrar stærðar og Skaftáreldahraunið bað Sigurður Þórarinsson Hammer að leita í ískjörnunum að gosi svipaðrar stærðar og Skaftáreldar, frá öldunum næstu fyrir og eftir 900.[14] Eitt lag og aðeins eitt fannst svipaðrar stærðar, frá árinu 934.[15] Sigurður segir nú mega öruggt teljast, svo vart skakki meira en einu ári til eða frá, að Landbrotshraun og etv. Eldgjárhraunið allt, sé frá árinu 934. Athyglisverð í þessu sambandi séu þau ummæli séra Jóns Steingrímssonar, að stórhlaup hafi komið undan Mýrdalsjökli 934.[16]

Niðurstaða Hammers o.fl. 1980 um aldur Landbrotshrauns (934±2) var, eins og fyrr sagði, byggð á rafleiðni-útslagi í ískjarna nefndum Crète[17] og lýst var í Nature 1980,[18] og síðar í tímaritinu Jökli.[19] En 1995 höfðu gjóskukorn úr bæði Veiðivatnagosi (Landnámslag, Grönvold o.fl.)[20] og Eldgjárgosi (Ziemenski o.fl.)[21] fundist í ískjörnum frá Summit á Grænlands, og nú var Eldgjárlagið ársett 938±4. Frekari samanburður á djúpkjörnunum tveimur leiddi til þess að ársetning landnámslagsins var endurtúlkuð úr 871±2 (GRIP) í 877±4 (GISP2)[22] og nú mun árið 877 teljast næst sanni.

Í yfirlitsgrein 2017 um aldursgreiningu rústa á Íslandi frá landnámsöld með gjóskulögum – það er milli landnámslags og Eldgjárhrauna – þar sem rækilega er farið yfir aldursgreiningar gjóskulaga, nota höfundar ártölin 877±1 og 939 fyrir gjóskulögin tvö.[23]

Tilvísanir:
  1. ^ Sigurður Þórarinsson 1944. Tefrokronologiska studier på Island: Þjórsárdalur och dess forödelse. Ejnar Munksgaard, Köbenhavn.
  2. ^ Fáar öruggar undantekningar eru þekktar, t.d. á Reykjanesskaga: Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson 1988. Krýsuvíkureldar I. Aldur Ögmundarhrauns og miðaldalagsins. Jökull 38: 71–85.
  3. ^ GRIP, Greenland Ice Core Project 1989–95; borun 1990–92 náði 3029 m kjarna niður á botn í Summit.
  4. ^ Karl Grönvold o.fl. 1995. Ash layers from Iceland in the Greenland GRIP ice core correlated with oceanic and land sediments. Earth and Planetary Sciencde Letters 135: 149–155.
  5. ^ GISP2, Greenland Ice Sheet Project 2; borun 1988-93 náði 3053,44 m löngum kjarna niður á botn í Summit.
  6. ^ G.A. Ziemenski o.fl. 1995. Evidence of the Eldgjá (Iceland) eruption in the GISP2 Greenland ice core: relationship to eruption processes and climatic conditions in the tenth century. Holocene 5: 129–140.
  7. ^ G.A Ziemenski o.fl. 1997. Volcanic aerosol records and tephrochronology of the Summit, Greenland, ice cores. Journal of Geophysical Research 102: 26.625-26.640.
  8. ^ Sigurður Þórarinsson 1981. Bjarnagarður. Árbók Hins íslenska fornleifafélags, 78. árg. s. 4-49.
  9. ^ Safn til sögu Íslands IV, bls. 9.
  10. ^ Sigurður Þórarinsson 1955. Myndir úr jarðfræði Íslands IV. Eldgjá. Náttúrufræðingurinn 25: 148–153.
  11. ^ Jón Jónsson 1975. Nokkrar aldursákvarðanir. Náttúrufræðingurinn 45: 27–30; Jón Jónsson 1978. Eldstöðvar og hraun í Skaftafellsþingi. Náttúrufræðingurinn. 48: 196–230; Jón Jónsson 1979. Um aldur Eldgjárhrauna – athugasemd. Náttúrufræðingurinn. 49: 316–318.
  12. ^ Guðrún Larsen 1979. Um aldur Eldgjárhrauna. Náttúrufræðingurinn. 49: 1–26. Guðrún Larsen 1979. Um aldur – svar. Náttúrufræðingurinn. 49: 319–320.
  13. ^ Þorvaldur Thoroddsen 1911. Lýsing Íslands II, s. 155. Þorvaldur Thoroddsen 1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane. Kaupmannahöfn, s. 67, 122, 249.
  14. ^ Sigurður Þórarinsson 1977. Jarðvísindi og Landnáma. Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni. Stofnun Árna Magnússonar, s. 676.
  15. ^ C.U. Hammer, H.B. Clausen, W. Dansgaard 1980. Greenland ice sheet evidence of post-glacial volcanism and its climatic impact. Nature 288: 230-235. C.U. Hammer 1980. Acidity of polar ice cores in relation to absolute dating, past volcanism and radio achoes. Journal of Glaciology 25: 368–369.
  16. ^ Safn til sögu Íslands IV, s. 196.
  17. ^ Crète, 404 m langur ískjarni sem bandaríska jöklarannsóknastofnunin CRREL (Cold Regions Research and Engineering Facility) boraði á Crete-svæðinu á Grænlandi árið 1974 sem hluti af alþjóðlega verkefninu GISP (Greenland Ice Sheet Project).
  18. ^ C.U. Hammer, H.B. Clausen, W. Dansgaard 1980. C.U. Hammer 1980.
  19. ^ C.U. Hammer 1984. Traces of Icelandic Eruptions in the Greenland Ice Sheet. Jökull 34: 51–65.
  20. ^ Karl Grönvold o.fl. 1995.
  21. ^ G.A. Ziemenski o.fl. 1995.
  22. ^ G.A Ziemenski o.fl. 1997.
  23. ^ M.M.E. Schmid o.fl. 2017. Tephra isochrons and chronologies of colonisation. Quaternary Geochronology 40: 56–66.

Mynd: ...