Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eins og á við um mörg fræðileg hugtök er erfitt að gefa nákvæma skilgreiningu á nýlendustefnu (e. colonialism). Oft er henni ruglað saman við heimsvaldastefnuna (e. imperialism) og eru þessi hugtök gjarnan notuð jöfnum höndum um sama eða svipað fyrirbæri.
Í nýlendustefnu felst að valdameira ríki (móðurlandið) leggur undir sig valdaminna ríki (nýlenduna), oftast með hervaldi, í þeim megintilgangi að græða á nýlendunni. Móðurlandið nýtir auðlindir nýlendunnar og nýlendan er síðan hentugur markaður fyrir unnar vörur móðurlandsins. Ef lítið er að græða á nýlendunni er hún samt oft talin upphefja móðurlandið – auka orðstír eða virðingu viðkomandi ríkis.
Nýlendur eru gjarnan flokkaðar eftir því hvort hvítir menn gerðust landnámsmenn (svo sem í Norður-Ameríku og Ástralíu) eða stjórnuðu nýlendunni að heiman (til dæmis Louisiana á 17. öld). Í síðarnefnda tilfellinu sendu ríkin út landstjóra og herlið til að stjórna nýlendunum og/eða studdust við innfædda stjórnendur sem höfðu hlotið menntun í móðurlandinu.
Á hátindi nýlendustefnunnar er talið að Evrópuríkin og Bandaríkin hafi stjórnað um 80% af landflæmi jarðar og á hafi réðu þau öllu sem þau vildu í krafti flota sinna.
Nýlenduveldi
Nýlenduveldi hafa þekkst um langt skeið og er kunnasta dæmið úr fornöld sjálfsagt Rómaveldi. Þegar rætt er um nýlendustefnu er þó oftast átt við stefnu seinni tíma nýlenduvelda Evrópu og er breska heimsveldið (e. The British Empire) þekktasta dæmið.
Fyrstu nýlenduveldin í þessum skilningi voru Atlantshafsríkin Portúgal og Spánn. Portúgalar hófu að sigla niður eftir strönd Afríku á 15. öld og spænsku konungshjónin Ferdínand og Ísabella styrktu hinn kunna sæfara Kólumbus til ferðar sinnar árið 1492. Eins og frægt er endaði sú sjóferð við strendur nýja heimsins – í Ameríku.
Ameríkuferðir Kólumbusar mörkuðu upphaf útrásar Evrópuþjóða til nýja heimsins.
Portúgalar voru fljótir að færa sig yfir Atlantshafið og samkvæmt Tordesillas-sáttmálanum svokallaða (e. Treaty of Tordesillas) frá árinu 1494 var nýja heiminum skipt á milli Portúgala og Spánverja. Þessi veldi seildust síðan einnig til áhrifa í Asíu og Kyrrahafi. Sem dæmi má nefna að Filippseyjar, sem heita í höfuðið á Filippusi II Spánarkonungi, voru innlimaðar í Spánarveldi á árunum 1565-1896 og er kaþólsk trú enn ríkjandi þar í dag.
Í lok 16. aldar voru Englendingar tilbúnir í slaginn og voru þeir fljótir að eignast þrettán nýlendur í Norður-Ameríku. Til að mynda lagði Sir Francis Drake undir sig landsvæði í nýja heiminum sem hann gaf nafnið Virginía, og heitir hún í höfuðið á Elísabetu I Englandsdrottningu (e. the virgin queen).
Á 17. öld tóku Frakkar og Hollendingar til óspilltra mála og hófu fulla þátttöku í nýlendukapphlaupinu; Hollendingar lögðu til dæmis undir sig Gvæjana í Suður-Ameríku, en Frakkar náðu yfirráðum í Kanada og stofnuðu Nýja Frakkland (Québec).
Á 19. öld var eingöngu stór hluti Afríku eftir til skiptanna og síðbúnar Evrópuþjóðir sem áttu ekki greiðan aðgang að sjó, svo sem Belgía, Ítalía og Þýskaland, hófu kapphlaup sitt; Belgía náði Kongó, Ítalía Abyssiníu og Þýskaland sölsaði undir sig suðvesturhluta Afríku svo nokkur dæmi séu nefnd.
Loks má ekki gleyma nýlenduveldi Dana. Danir réðu ekki eingöngu yfir Noregi, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi, heldur einnig sykureyjunum St. Croix, St. John og St. Thomas í Karabíska hafinu. Þeir réðu sömuleiðis yfir nokkrum verslunarstöðvum á Gíneuströndinni (d. Guldkysten) og Serampore og Tranquebar á Indlandi og áttu Nicobareyjarnar í Indlandshafi. Eins og margir vita teljast leifar nýlenduveldis Dana, Færeyjar og Grænland, ekki til sjálfstæðra ríkja, að minnsta kosti ekki enn sem komið er.
Sjálfstæði
Bresku nýlendurnar þrettán í Norður-Ameríku voru fyrstar til að krefjast sjálfstæðis frá móðurlandi sínu. Þær háðu frelsisstríð og lýstu yfir stofnun Bandaríkjanna árið 1776. Önnur ríki í Ameríku fylgdu fordæmi þeirra og þegar leið á 19. öld misstu Portúgalar og Spánverjar smám saman flestar nýlendur sínar.
Í lok 19. aldar og byrjun 20. aldar varð æ útbreiddari sú hugmyndafræði að þjóðir skyldu hafa sjálfsákvörðunarrétt. Gömlu heimsveldin í Mið- og Austur-Evrópu (Austurríki-Ungverjaland, Rússland og Þýskaland) leystust upp, og eftir síðari heimsstyrjöld og fram undir lok sjötta áratugarins fengu nýlendur Evrópuvelda í Afríku flestar frelsi sitt. Þó má til dæmis nefna að Namibía hlaut ekki sjálfstæði fyrr en 1990 og þá frá Suður-Afríku, en Þjóðverjar áttu þetta landsvæði um aldamótin 1900.
Frekara lesefni á Vísindavefnum og mynd:
Anna Agnarsdóttir. „Hvað er nýlendustefna? Hver voru helstu nýlenduveldin og af hverju sölsuðu þau undir sig önnur lönd?“ Vísindavefurinn, 23. nóvember 2006, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6400.
Anna Agnarsdóttir. (2006, 23. nóvember). Hvað er nýlendustefna? Hver voru helstu nýlenduveldin og af hverju sölsuðu þau undir sig önnur lönd? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6400
Anna Agnarsdóttir. „Hvað er nýlendustefna? Hver voru helstu nýlenduveldin og af hverju sölsuðu þau undir sig önnur lönd?“ Vísindavefurinn. 23. nóv. 2006. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6400>.