Æska Elísabetar var að mörgu leyti erfið. Það að hún var stúlkubarn olli föður hennar slíkum vonbrigðum að hann mætti ekki við skírnina. Tveimur árum síðar var móðir hennar hálshöggvin samkvæmt skipun föður hennar, sökuð um framhjáhald. Heift Hinriks var slík að hann lét ógilda hjónaband þeirra og lýsa því yfir að Elísabet væri óskilgetin. Síðar tók hann dóttur sína þó í sátt. Hinrik giftist fjórum sinnum enn, í eilífri leit að skilgetnum erfingjum. Hann hafði þó ekki erindi sem erfiði og eignaðist Elísabet aðeins einn hálfbróður, Játvarð, árið 1537. Hinrik dó tíu árum síðar og ungi prinsinn tók þá við völdum. Játvarður VI hafði verið alinn upp í mótmælendatrú en hann lést á 16. ári (1553) og þá tók við ríkjum eldri hálfsystir Elísabetar og Játvarðs, hin rammkatólska María I. Aðalmarkmið Maríu var að koma katólskri trú á að nýju sem ríkistrú í Englandi og þurfti Elísabet, sem hafði verið alin upp sem mótmælandi, nú að fara dult með trú sína. Á þessum árum gisti hún jafnvel Tower-fangelsið í London, grunuð um samsæri gegn systur sinni. Elísabet var óvenjuvel gefin og hlaut hina ágætustu menntun. Hún kvaðst sjálf tala níu tungumál og víst er að hún kunni grísku, latínu, frönsku, ítölsku og spænsku og lærði meðal annars ræðumennsku sem var fátítt um konur þá. Hún las sagnfræðirit og orti kvæði. Hún var hugrökk, viljasterk, bjó yfir mikilli stjórnkænsku og hafði lag á að velja hæfileikaríka ráðgjafa. En hún var afar hégómagjörn og eyðslusöm (hún átti mörg hundruð kjóla og ógrynni af skartgripum) og það sem verra var að hún átti oft erfitt með að taka ákvarðanir. Trúardeilur og valdatíð
Eftir lát Maríu I árið 1558 komst Elísabet til valda. Margir breskir sagnfræðingar telja að valdatíð hennar hafi verið gullaldartímabil í sögu Englands. Helsta afrek Elísabetar var að endurreisa mótmælendatrú og koma föstu skipulagi á ensku kirkjuna. Hún þurfti að sætta tvær andstæðar fylkingar í trúmálum, katólikka og púrítana (Kalvínstrúarmenn) og tókst það árið 1559. Í kjölfarið bannfærði páfi hana. Til að skilja hversu mikið afrek það var að leysa trúardeiluna verður að hafa í huga hin tíðu trúarskipti í Englandi á 16. öld. England var að sjálfsögðu katólskt land eins og nær öll Evrópa fram að siðaskiptum. Játvarður VI breytti engu en hann ríkti ekki lengi. María I, sem nefnd var Blóð-María, hamaðist við að snúa þegnum sínum aftur til katólskrar trúar og lentu sumir á bálinu, og í hennar stjórnartíð varð enska kirkjan hluti hinnar rómversk-katólsku kirkju á ný. Elísabet innleiddi síðan mótmælendatrú enn einu sinni með þvílíkum árangri að arftaki hennar, Elísabet II, er enn í dag verndari ensku biskupakirkjunnar (e. Defender of the Faith). Með því að festa mótmælendatrú í sessi, kom Elísabet í veg fyrir frekari blóðug trúarátök sem höfðu einkennt fyrri hluta ævi hennar. Elísabetu stóð hins vegar alltaf ógn af samsærum katólikka og neyddist hún loks til að samþykkja að hin katólska María Stúart Skotadrottning, frænka hennar og væntanlegur arftaki, væri tekin af lífi árið 1587 vegna meintrar aðildar hennar að samsæri gegn drottningu. Það er afar merkilegt að Elísabet giftist aldrei. Aðeins þrír mánuðir liðu frá valdatöku hennar þangað til neðri málstofa enska þingsins minnti hana á að það væri skylda hennar að giftast. Annað var á þeim tíma óhugsandi. Engum datt í hug að kona gæti stjórnað ein, það varð að tryggja ríkiserfðirnar og að giftast erlendum prins var sígild leið til að stofna til hagkvæmra bandalaga við önnur ríki. Ekki skorti biðla: Filippus II Spánarkonungur (fyrrverandi mágur hennar), bræður Frakkakonungs og Eiríkur ríkisarfi Svía voru meðal þeirra, auk þess sem margir enskir og skoskir aðalsmenn sýndu áhuga á að kvænast drottningu. Hún hélt þeim lengi volgum en giftist aldrei. Elísabet sýndi það að ógift kona gat stjórnað Englandi. Þetta er því merkilegra þegar haft er í huga að frá árinu 1100 (þegar William Rufus dó ókvæntur) höfðu allir enskir konungar á giftingaraldri, 39 að tölu, gert skyldu sína í þessum efnum. Þar sem Elísabet var drottningin gat hins vegar enginn neytt hana til að ganga í hjónaband. Hún sagði einu sinni: „Ég er gift kona. Eiginmaður minn er enska konungsríkið.“ Á dögum Elísabetar slógu Englendingar eign sinni á Norður-Ameríku (síðar Bandaríkin). Sir Walter Raleigh lagði undir sig Virginíu í nafni Englandsdrottningar árið 1584. Aðrir sægarpar sigldu um heimsins höf: Sir Francis Drake sigldi umhverfis hnöttinn og Sir John Hawkins efldi ítök Englendinga í Afríku og Karíbahafinu og nýtur þess vafasama heiðurs að vera upphafsmaður ensku þrælaverslunarinnar. Nokkur afrek
Elísabet var talin snjallur stjórnandi og tókst að að sigrast á mótþróa neðri málstofunnar í þinginu, ólíkt frænda sínum Karli I á 17. öld. Fátækt og vergangur voru vaxandi vandamál á seinni hluta 16. aldar í Englandi. Meðal afreka Elísabetar var setning fátækrarlöggjafar (e. the Poor Laws) árið 1601 sem var í gildi til ársins 1834. Í utanríkismálum voru samskiptin við katólsku stórveldin Frakkland og Spán aðalvandamálið. Friður var saminn við Frakka en Spánverjarnir reyndust erfiðir viðureignar og var hápunktinum náð þegar Filippus II Spánarkonungur sendi Flotann ósigrandi (e. The Spanish Armada) gegn Englandi árið 1588. Eins og frægt er beið hann ósigur og það jók enn á hróður Elísabetar. Elísabet ríkti í 45 ár, sem var langur tími þá og dó loks sjötug að aldri, árið 1603. Hafði enginn fyrirrennari hennar náð svo háum aldri, enda töldu samtímamenn Elísabetar langlífi drottningar afar merkilegt. Elísabet var ávallt vinsæl drottning. Hún ferðaðist mikið um England og ræddi þá við þegna sína. Í valdatíð hennar framan af átti England oftast velgengni að fagna og í lokin var ríkið á góðri leið með að verða stórveldi í Evrópu. Friður ríkti oftast innanlands og stöðugt stjórnarfar einkenndi valdatíð Elísabetar. Bókmenntir blómstruðu og nægir að þar að nefna leikskáldið Shakespeare. Skáld nefndu drottningu sína „Gloriana“. Skuggahliðar
En auðvitað voru skuggahliðar á stjórn hennar. Hún sendi herlið til Írlands árin 1579 og 1580 til að bæla niður uppreisnir og aftur 1598-1603, en ekki tókst henni fremur en öðrum að leysa vandamálið þar. Njósnarar voru stöðugt að leita að óvinum ríkisins, ýmsir voru dæmdir til dauða fyrir föðurlandssvik, bæði aðalsmenn og uppreisnarseggir. Pyntingar voru notaðar til að ná fram játningum sakborninga. Katólskir óttuðust um líf sitt. Þrátt fyrir þetta hafa margir sagnfræðingar talið Elísabetu vera farsælasta þjóðhöfðingja Englands. Dagurinn sem hún tók við völdum, 19. nóvember, var þjóðhátíðardagur Englendinga í 200 ár. Samtímamenn hennar voru almennt á þeirri skoðun að stjórnartíð Elísabetar I hafi verið svo farsæl að önnur eins tíð kæmi líklega aldrei aftur. Erkióvinur hennar, páfi kaþólsku kirkjunnar, sagði árið 1588: „Hún er mikilmenni; ef hún aðeins væri katólsk ætti hún engan sinn líka.“ Að lokum má nefna að þótt hin barnlausa drottning neitaði ávallt að tilnefna arftaka sinn, var öllum orðið ljóst að það mundi vera sonur Maríu Stúart, Jakob I (Jakob VI Skotakonungur). Ein arfleifð Elísabetar var því friðsamur og varanlegur samruni skosku og ensku krúnanna. Á undanförnum öldum hafa fjölmargar ævisögur verið skrifaðar um hana og margar eru aðgengilegar á Landsbókasafni Íslands - Háskólabókasafni. Sú sígilda er eftir J. E. Neale, Queen Elizabeth I, sem kom fyrst út árið 1933. Ein sú nýjasta er Elizabeth: Apprenticeship frá árinu 2000, eftir hinn þekkta sagnfræðing David Starkey. Myndir:
- History People. Sótt 7.5.2002.