Á myndinni hér að ofan má sjá úlnliðsbein og bein aðlæg þeim. Á hefðbundinni röntgenmynd eru bein hvítust vegna þess að þau eru það þéttasta sem geislarnir fara í gegn um. Þegar röntgenmyndir voru festar á filmu réðu eiginleikar filmunnar því að þar sem margar ljóseindir komust á filmuna varð hún svört, en hvít þar sem fáar ljóseindir skiluðu sér í gegn. Nú eru röntgenmyndir oftast stafrænar og venjuleg filma kemur ekki lengur við sögu. Röntgengeislun er rafsegulgeislun, en fleiri dæmi um rafsegulgeislun í umhverfi okkar eru útvarpsbylgjur og sýnilegt ljós. Allar rafsegulbylgjur ferðast á ljóshraða, en tíðni þeirra er mismunandi sem aftur veldur mismunandi eiginleikum og notagildi. Í svari við spurningunni: Eru rafsegulbylgjur frá farsímum og öðrum raftækjum skaðlegar heilsunni eða erfðaefninu? má lesa um samhengi tíðni, bylgjulengdar og orku ljóseinda í rafsegulgeislun. Röntgengeislun verður til í röntgenlampa og hægt er að hafa áhrif á orku röntgengeislunar með því að breyta stillingum röntgenlampans. Við röntgenrannsóknir er mikilvægt að orka ljóseindanna sé hæfileg til að geisli sem hefur farið gegnum efni beri með sér upplýsingar um það. Ef orka geislans er of lítil skila engar ljóseindir sér í gegn, en sé orka geislans of mikil fara allar ljóseindir viðstöðulaust gegnum efnið. Hvort sem orkan er of mikil eða of lítil verður niðurstaðan í raun sú sama: Engar upplýsingar fást um það sem geislinn var sendur í gegnum til að kanna. Röntgengeislun er notuð við ýmiss konar myndgerð og flestir kannast við röntgenmyndir sem teknar eru til að greina sjúkdóma. Notkun röntgengeisla í læknisfræðilegri myndgreiningu hefur fleygt fram og nú er röntgengeislun notuð til að gera tölvusneiðmyndarannsóknir, hjartaþræðingar og til að aðstoða við bæklunaraðgerðir auk hefðbundinna röntgenrannsókna. Tölvutækni er mikið nýtt og myndir sem búnar eru til í dag eru oft afurðir útreikninga, fremur en einföld mynd af dofnun röntgengeislans. Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hvað gerir geislafræðingur? eftir Hildi Guðmundsdóttur
- Mig vantar svo að vita hvernig segulómun (MRI) fer fram? eftir Jón B. Hauksson
- Hvað sendir frá sér geislun, í til dæmis röntgentækjum? eftir Jónínu Guðjónsdóttur
- Er hægt að sjá í gegnum málma með röntgengeislum? eftir Jónínu Guðjónsdóttur
- Hvað er geislun og hvað eru til margar gerðir af henni? eftir Kristján Leósson og Þorstein Vilhjálmsson
- Hver var Wilhelm Röntgen og hver er saga hans? eftir Jónínu Guðjónsdóttur
- Úr safni höfundar.
Kennarinn minn sagði mér frá röntgenmyndatöku og að hún færi síður í gegnum þétta hluti! En hvernig virkar hún?