Hvernig vita fræðimenn að Íslendingasögurnar eru aðeins varðveittar í uppskriftum af öðrum handritum? Er alveg öruggt að eldri handrit sem nú eru glötuð hafi alltaf legið til grundvallar? Kemur þetta fram í varðveittu handritunum? Hefur hugtakið frumrit einhverja merkingu í þessum fræðum?Þetta eru mjög góðar spurningar og þakkarvert að fá að glíma við þær. Sannleikurinn er sá að fræðimenn vita einmitt ekki hvað frumrit gæti þýtt í þessu samhengi. Í lifandi handritamenningu – eins og var hér á landi fram að því að menn fengu þá hugmynd að reyna að gera nákvæm afrit af eldri handritum fremur en að endurskrifa þau og búa til ný – er hvert handrit frumrit í þeim skilningi að það er ekkert annað handrit alveg eins. Til að einfalda vandamálið er þó hægt að reyna að hugsa um það hvenær tiltekinn texti var fyrst ritaður. Sé um sögur og kvæði að ræða geta þau listform að sjálfsögðu verið til án ritunar. Það er hins vegar ekki vandalaust að skrá sögur og kvæði sem lifa eingöngu munnlega og því er ólíklegt að þeir skrifuðu textar sagna og kvæða sem varðveist hafa séu nákvæm hljóðritun þess sem hefur hljómað á munnlegu stigi án ritunar. Sum kveðskaparform geta þó verið svo fastmótuð á munnlegu stigi að það séu nokkrar líkur á að hægt sé að skrá orðrétt kvæði á borð við dróttkvæði. Það er miklu óvissara með frjálslegri bragform eins og hætti eddukvæða. Þar má gera ráð fyrir að hinir rituðu textar séu á ýmsan hátt ólíkir þeim kvæðum sem hafa hljómað í lifandi flutningi. Fyrstu ritun slíkra kvæða væri hægt að kalla frumrit þeirra þó að kvæðin hafi ekki verið ort í okkar skilningi við skrifpúltið.

Helsta handrit eddukvæða, Konungsbók eddukvæða frá seinni hluta 13. aldar, er ekki talið hafa verið skrifað beint eftir lifandi flutningi kvæðanna, heldur eru ótvíræðar vísbendingar í textanum um að skrifari handritsins hafi unnið með skrifaðar fyrirmyndir.
„Hver er landrekiÍ seinna kvæðinu er skrifarinn að stytta textann úr forriti sínu af því að honum finnst kvæðið eiginlega alveg eins og það sem hann er búinn að skrifa áður og vitnar þá óbeint í erindið hér að ofan með þessum hætti:
sá er liði stýrir
og hann feiknalið
færir að landi?“
„Hver er fylkirÞessar línur telur skrifarinn vera „eins“ og það sem hann er búinn að skrifa áður en nokkru síðar sér hann að seinna kvæðið er nógu ólíkt til að hann telur rétt að skrifa það allt saman. Og þá kemur í ljós hvað honum fannst svo líkt því sem hann var búinn að skrifa áður að hann taldi enga þörf á að endurskrifa það:
sá er flota stýrir
og feiknalið
færir að landi?“
„Hver er skjöldungurÞarna höfum við dæmi um þrjá ólíka texta kvæðis sem skrifari Konungsbókar hefur talið vera eins – þó að þeir séu það ekki í okkar skilningi. Þessi dæmi sýna því með óvenju skýrum hætti að efnisleg líkindi hafa skipt ritarann meira máli en orðrétt endurtekning. Notuð eru jöfnum höndum samheiti um konunga, fylkir, skjöldungur og landreki, sem verður til þess að í annarri hendingu hvers erindis þarf einnig að skipta um orð til að stuðlasetning haldist. Þessi þrjú tilbrigði við sama erindið segja því mikið um varðveislu eddukvæða og viðhorf manns sem þekkti hefðina vel til þess hversu mikið mátti bregða út af í orðalagi án þess að um nýtt kvæði væri að ræða. Ef við snúum okkur að sagnarituninni þá flækist málið enn meira því að hin skrifuðu handrit eru nær því sem í nútímamenningu væri prentuð bók. Við skiljum öll að prentaðar bækur eru ekki frumrit höfundanna – sem þeir skila inn til útgefanda löngu áður en bókin kemur út. Í handritamenningunni hafa sérstakir skrifarar séð um að skrifa á bókfellið, líkt og prentarar sem prenta bækurnar okkar. Af varðveittum handritum fornsagna má sjá af þeim villum sem skrifarar gera að þeir hafa iðulega verið að skrifa eftir öðrum textum. Sama villumynstur kemur upp hjá skólabörnum sem þurfa að afrita skrifaðan texta sem þau hafa fyrir framan sig eða heyra lesinn upphátt – og er ólíkt því sem kemur fram þegar fólk er að frumsemja texta með skriffæri í hönd. Villumynstur á milli handrita er síðan notað til að rekja skyldleika þeirra – líkt og hægt er að gera þegar nemendur svindla á prófum. Þetta er að jafnaði nokkuð ljóst af lengri textum en málið vandast þegar aðeins eru varðveitt stutt brot eins og hið svokallaða þetubrot Egils sögu, tímasett til miðrar 13. aldar með venjulegum fyrirvara um +- 20/30 ár.[1] Textinn á þessu broti gæti verið ansi nálægt þeim texta sem hefur orðið til á skrifarapúltinu í Reykholti á efstu dögum Snorra Sturlusonar sem var hálshöggvinn í kjallaranum heima hjá sér að kvöldi dags 23. september 1241. En jafnvel þó að ljóst sé að hinn skrifaði texti á handriti sé skrifaður eftir öðrum skrifuðum texta þá er ekkert sem útilokar að sá texti hafi verið skrifaður á vaxtöflu eftir þeim sem „las“ skrifaranum fyrir, hvort sem hann hefur þulið sögu eða kvæði sem hann kunni fyrir eða samið söguna sem skrifarinn skráði jafnóðum á vaxtöfluna. Hafi þulurinn farið með vel þekkta sögu er hugsanlegt að skrifarinn hafi verið frjálslegur í skráningunni og ekki talið sig of bundinn af orðalagi og/eða efnistökum þess sem þuldi yfir honum. Að auki blasir við að það hefur verið mikið átaksverkefni að láta skrifa langa sögu á borð við Brennu-Njáls sögu – og það hefur kostað svo mikið að við verðum að gera ráð fyrir að einhver hafi séð sér hag í að leggja í verulegan kostnað til að miðla orðlistinni – sem er bæði ódýrara og skemmtilegra að miðla án ritunar. Njála er til í ólíkum gerðum allt frá elstu handritunum sem eru tímasett rétt uppúr 1300. Fræðimenn hafa ekki getað rakið þær gerðir saman þannig að þær eigi sér eitt upphaf í einum og sama skrifaða textanum – sem væri þá hægt að kalla *frumrit Njálu.[2] Það er hins vegar ekki víst að slíkt frumrit Njálu hafi nokkurn tímann verið til ef aðstæður í skrifarastofunni hafa til dæmis verið þannig að fleiri en einn „kostunaraðili“ sögunnar hafi komið að verkinu og hver þeirra sent sinn skrifara á vettvang þegar kom að því að færa söguna á bókfellið – eftir að búið var að semja hana, jafnvel með því að skrifa eitthvað á vaxtöflur. Þessir ólíku kostunaraðilar gætu hafa haft sínar skoðanir á því hvort þeir vildu til dæmis hafa vísur með í sögunni en að öðru leyti treyst sínum skrifurum til að skrifa það sem þulið væri yfir þeim, með þeim óhjákvæmilegu aðlögunum í máli og stíl sem alltaf verða á leiðinni frá eyrum og/eða augum skrifara til handarinnar. Slíkar aðstæður við tilurð Njálu gætu til dæmis skýrt breytileika textans í elstu handritum sögunnar – en það er vert að minna á að hvorki fræðimenn né aðrir vita hvernig það gerðist að Njála var færð til bókar. Hvað þá að nokkur viti hver hafi sett söguna saman fyrir bókarformið. Niðurstaðan er því sú að allar aðstæður í kringum tilurð hins fyrsta ritaða texta sem hægt væri að kalla frumrit eru mjög á huldu. Af þessari óvissu leiðir að það er fyllsta ástæða til að endurskoða allar hugmyndir um aldur Íslendinga sagna og rýna betur í þau rök sem að baki hinum eldri kenningum um aldur þeirra standa. Ef til vill voru sumar sögurnar fyrst skrifaðar nær ritunartíma elstu handrita þeirra en talið hefur verið.[3] Tilvísanir:
sá er skipum stýrir,
lætur gunnfána
gullinn fyrir stafni?“
- ^ Tímasetningar handrita miðast við þróun skriftar og málbreytingar, og eru nokkuð áreiðanlegar innan þessara skekkjumarka.
- ^ Athugið að * merkir að slíkur texti er ekki til en að einhver geri ráð fyrir að hann hafi verið til.
- ^ Hægt er að lesa meira um öll þau vandamál sem hér er tæpt á í inngangi að útgáfu minni að Eddukvæðum (Mál og menning 1998, skólaútg. 1999 og endurútg. 2014), og í bókunum Túlkun Íslendingasagna í ljósi munnlegrar hefðar: Tilgáta um aðferð (2002) og Leiftur á horfinni öld: Hvað er merkilegt við íslenskar fornbókmenntir? (2013).
- Yfirlitsmynd: AM 426 fol. - Handrit.is. (Sótt 19.02.2025).
- GKS 2365 4to | Handrit.is. (Sótt 18.02.2025).
- Scribe from BL Sloane 2435, f. 1 - PICRYL - Public Domain Media Search Engine Public Domain Image. (Sótt 19.02.2025).