Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:17 • sest 16:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:40 • Sest 15:54 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:12 • Síðdegis: 22:46 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna?

Már Jónsson

Íslendingasögur voru flestar samdar á 13. öld og voru þá skrifaðar á bókfell eða með öðrum orðum verkað skinn, einkum af kálfum. Sögurnar voru ýmist hafðar stakar í handriti eða settar saman í stærri bækur, sumar mjög veglegar. Handritagerð á Íslandi stóð í mestum blóma á 14. öld en hnignaði síðan hægt og sígandi þangað til pappír tók alfarið yfir í byrjun 17. aldar.

Bókfell (pergament) er sérlega endingargott sé vel með það farið en morknar í bleytu og verpist í kulda. Ljóst má vera að einungis höfðingjar, veraldlegir sem andlegir, höfðu efni á að láta gera handrit og á ofanverðum miðöldum virðist sem hin fegurstu hafi gengið í arf sem dýrgripir en hin viðhafnarminni farið manna á milli í þágu aflestrar og upplestrar. Húsakynni þessa fólks voru góð og vel fór um gripina. Fræðimönnum er raunar nokkur vandi á höndum við athuganir því einungis verður byggt á þeim handritum sem hafa varðveist og eitthvað allt annað kann að hafa gilt um handrit sem ekki eru lengur til. Engin leið er að áætla hversu mikið er glatað.

Gráskinna er frá því um 1300, bundin inn í umslag úr selskinni. Hún geymir handrit að Njálu.

Á síðustu áratugum 16. aldar áttuðu fræðimenn í Danmörku og Svíþjóð sig á því að á Íslandi væri að finna gömul handrit að sögum og sagnaritum sem vörðuðu fjarlæga fortíð þessara landa, sem þá áttu í stöðugum styrjöldum og metingur var mikill. Íslenskir fræðimenn á borð við Arngrím Jónsson og biskuparnir Þorlákur Skúlason á Hólum og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti tóku þá að senda handrit til Kaupmannahafnar, mörg þeirra á skinni. Þekktust er sending Brynjólfs til Friðriks þriðja Danakonungs árið 1656, sem þá fékk að gjöf Flateyjarbók, konungsbók Grágásar og handrit Völsunga sögu og Ragnars sögu loðbrókar. Sex árum síðar sendi konungur Þormóð Torfason til Íslands að safna handritum og afhenti Brynjólfur honum þá Konungsbók Eddukvæða, konungasagnasafnið Morkinskinnu, handrit að Njálu sem kallast Gráskinna og annað með ófáum Íslendingasögum, sem nú er glatað. Sjálfur náði Þormóður í nokkur handrit annars staðar, þar á meðal Ólafs sögu helga og sennilega Njáluhandritið Skafinskinnu. Sænsk stjórnvöld, fyrir sitt leyti, sendu Jón Eggertsson til Íslands sumarið 1682 og hann náði allmörgum merkishandritum sem nú eru í söfnum í Svíþjóð. Fátt er þar reyndar Íslendingasagna, en þó sögubók með Heiðarvíga sögu og handrit sem meðal annars geymdi Þórðar sögu hreðu og Krókarefs sögu.

Þessir menn ásældust hvers kyns handrit, sem þó urðu að vera í heilu lagi. Þeir höfðu hins vegar minni áhuga á Íslendingasögum en til dæmis sagnaritum á borð við Heimskringlu og aðrar konungasögur. Vitnisburður um vandann sem þeir stóðu frammi fyrir birtist í bréfi séra Magnúsar Ólafssonar í Laufási til danska fræðimannsins Ole Worm haustið 1632, þar sem hann fullyrðir að leikmenn sem eigi handrit neiti að lána þau nokkrum manni, heldur liggi á þeim sem ormar á gulli, engum til gagns -- á latínu: „ut angvis auro incubant, nullo cum fructo.“ Þegar áhuginn svo vaknaði og biskupar landsins beittu sér létu höfðingjar til leiðast og slepptu handritunum, stundum fyrir fé en annars fyrir þrábeiðni, konungsboð eða til að afla sér velvildar. Gallinn var hins vegar sá að jafnframt því sem áhugi fór vaxandi og handritin skutu upp kollinum hvert af öðru varð ýmsum ljóst að skinnblöð voru fyrirtaks efniviður í kápur utan um prentaðar bækur og jafnvel í slíður utan um beitta hnífa. Mörg handritanna voru illa farin fyrir og því þótti ekki tiltökumál að rífa þau alveg í sundur, fyrir utan nú það að menn réðu ekkert endilega við að lesa hina fornu skrift. Þessa óheillaþróun má greina í varðveittum afritum glataðra skinnbóka, sem talsvert er til af, en jafnframt í skinnblöðum og skinnbútum sem helsti handritasafnari íslenskur, Árni Magnússon, náði saman. Söfnun hans hófst árið 1685, þegar hann var rétt rúmlega tvítugur, og stóð yfir í rúma fjóra áratugi.

Það sem Árni hafði umfram aðra safnara í samtímanum var að hann gerði sér grein fyrir því að minnsta skinnbrot hafði gildi út af fyrir sig -- eða eins og hann orðaði það í bréfi til vinar síns Björns Þorleifssonar vorið 1694:

hefi ég og mínum bróður til forna sagt hve superstitiosè [ákaft] ég pergamentsbækur þrái, jafnvel þótt það ei væri nema eitt hálfblað eða ringasta rifrildi ... hvar fyrir ég og oftlega hefi rúið kver og involucra [kápur] af þeim tekið, þá nokkuð soddan hefur á verið.

Árni safnaði bókstaflega öllu sem Íslendingar höfðu skrifað á miðöldum og voru Íslendingasögur þar á meðal, þótt ekki hefði hann mikið álit á þeim sem sögulegum heimildum. Það er svo sem skilgreiningaratriði hvað telst til þessarar bókmenntagreinar en ef tekið er mið af innihaldi glænýrrar fimm binda viðhafnarútgáfu (Saga forlag 2018) er staðreyndin sú að ekki er til nema rétt rúmlega tugur heillegra handrita með eiginlegum Íslendingasögum. Þeirra merkast er Möðruvallabók (AM 132 fol.) frá fyrri helmingi 14. aldar sem geymir fjölda sagna: Njála, Egla, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Vígaglúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra þáttur, Hallfreðar saga, Laxdæla og Fóstbræðra saga (óheil). Bókina eignaðist Árni Magnússon árið 1691 og hafði Björn Magnússon sent hana til Kaupmannahafnar fáum árum áður og gefið Tómasi Bartholín sagnaritara konungs, líklega í von um aðstoð í deilumálum. Árni starfaði fyrir Bartholín við handritarannsóknir og fékk bókina að honum látnum.

Það sem Árni Magnússon hafði umfram aðra safnara í samtímanum var að hann gerði sér grein fyrir því að minnsta skinnbrot hafði gildi út af fyrir sig

Enn voldugra sagnasafn frá fyrri hluta 16. aldar (AM 152 fol.) fékk Árni síðar frá sömu fjölskyldu og eru þar Grettis saga og Þórðar saga hreðu, en líka ævintýralegri textar á borð við Sigurðar sögu þögla og Hrólfs sögu Gautrekssonar. Fáein söfn frá 15. öld eru í safni Árna, svo sem Reykdæla saga, Gull-Þóris saga og Ljósvetninga saga (AM 561 4to). Handrit Egils sögu og Eyrbyggju frá miðri 14. öld er varðveitt í Wolfenbüttel í Þýskalandi og annað nokkru yngra með Grettis sögu í Uppsölum, bæði seld eða gefin frá Íslandi um miðbik 17. aldar. Reykjabók Njálu (AM 468 4to) fékk Árni að gjöf árið 1707 frá norskum vini sínum sem hafði keypt hana á uppboði í Hollandi árið 1696. Annað handrit sömu sögu, Kálfalækjarbók (AM 133 fol.), hafði Árni fengið sent frá Íslandi árið 1697. Síðast en ekki síst eru í safni hans tugir handritsbrota með texta úr Íslendingasögum, flest aðeins eitt eða tvö blöð. Þarna eru tíu brot með annars glötuðum texta Njálu og annað eins með Eglu, en líka bútar úr Bárðar sögu Snæfellsáss, Bjarnar sögu Hítdælakappa, Droplaugarsona sögu, Eyrbyggju, Finnboga sögu, Flóamanna sögu, Gísla sögu Súrssonar, Hrafnkels sögu Freysgoða, Hænsa-Þóris sögu, Kormáks sögu, Laxdælu, Ljósvetninga sögu, Svarfdæla sögu, Vatnsdælu, Vígaglúms sögu og Vopnfirðinga sögu. Margar þessara sagna eru að öðru leyti aðeins varðveittar í eftirritum sem flest voru gerð á Íslandi frá 17. og 18. öld, mörg hver illa unnin og gagnslítil við útgáfur á þessum helstu textum íslenskra bókmennta.

Ritaskrá:
  • Góssið hans Árna. Minningar heimsins í íslenskum handritum. Ritstjóri Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík 2014.
  • Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002.
  • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998.

Myndir:

Höfundur

Már Jónsson

prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

7.11.2019

Spyrjandi

Svanhildur Björt Siggeirsdóttir

Tilvísun

Már Jónsson. „Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna?“ Vísindavefurinn, 7. nóvember 2019, sótt 21. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=78181.

Már Jónsson. (2019, 7. nóvember). Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=78181

Már Jónsson. „Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna?“ Vísindavefurinn. 7. nóv. 2019. Vefsíða. 21. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=78181>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar fundust handrit Íslendingasagnanna?
Íslendingasögur voru flestar samdar á 13. öld og voru þá skrifaðar á bókfell eða með öðrum orðum verkað skinn, einkum af kálfum. Sögurnar voru ýmist hafðar stakar í handriti eða settar saman í stærri bækur, sumar mjög veglegar. Handritagerð á Íslandi stóð í mestum blóma á 14. öld en hnignaði síðan hægt og sígandi þangað til pappír tók alfarið yfir í byrjun 17. aldar.

Bókfell (pergament) er sérlega endingargott sé vel með það farið en morknar í bleytu og verpist í kulda. Ljóst má vera að einungis höfðingjar, veraldlegir sem andlegir, höfðu efni á að láta gera handrit og á ofanverðum miðöldum virðist sem hin fegurstu hafi gengið í arf sem dýrgripir en hin viðhafnarminni farið manna á milli í þágu aflestrar og upplestrar. Húsakynni þessa fólks voru góð og vel fór um gripina. Fræðimönnum er raunar nokkur vandi á höndum við athuganir því einungis verður byggt á þeim handritum sem hafa varðveist og eitthvað allt annað kann að hafa gilt um handrit sem ekki eru lengur til. Engin leið er að áætla hversu mikið er glatað.

Gráskinna er frá því um 1300, bundin inn í umslag úr selskinni. Hún geymir handrit að Njálu.

Á síðustu áratugum 16. aldar áttuðu fræðimenn í Danmörku og Svíþjóð sig á því að á Íslandi væri að finna gömul handrit að sögum og sagnaritum sem vörðuðu fjarlæga fortíð þessara landa, sem þá áttu í stöðugum styrjöldum og metingur var mikill. Íslenskir fræðimenn á borð við Arngrím Jónsson og biskuparnir Þorlákur Skúlason á Hólum og Brynjólfur Sveinsson í Skálholti tóku þá að senda handrit til Kaupmannahafnar, mörg þeirra á skinni. Þekktust er sending Brynjólfs til Friðriks þriðja Danakonungs árið 1656, sem þá fékk að gjöf Flateyjarbók, konungsbók Grágásar og handrit Völsunga sögu og Ragnars sögu loðbrókar. Sex árum síðar sendi konungur Þormóð Torfason til Íslands að safna handritum og afhenti Brynjólfur honum þá Konungsbók Eddukvæða, konungasagnasafnið Morkinskinnu, handrit að Njálu sem kallast Gráskinna og annað með ófáum Íslendingasögum, sem nú er glatað. Sjálfur náði Þormóður í nokkur handrit annars staðar, þar á meðal Ólafs sögu helga og sennilega Njáluhandritið Skafinskinnu. Sænsk stjórnvöld, fyrir sitt leyti, sendu Jón Eggertsson til Íslands sumarið 1682 og hann náði allmörgum merkishandritum sem nú eru í söfnum í Svíþjóð. Fátt er þar reyndar Íslendingasagna, en þó sögubók með Heiðarvíga sögu og handrit sem meðal annars geymdi Þórðar sögu hreðu og Krókarefs sögu.

Þessir menn ásældust hvers kyns handrit, sem þó urðu að vera í heilu lagi. Þeir höfðu hins vegar minni áhuga á Íslendingasögum en til dæmis sagnaritum á borð við Heimskringlu og aðrar konungasögur. Vitnisburður um vandann sem þeir stóðu frammi fyrir birtist í bréfi séra Magnúsar Ólafssonar í Laufási til danska fræðimannsins Ole Worm haustið 1632, þar sem hann fullyrðir að leikmenn sem eigi handrit neiti að lána þau nokkrum manni, heldur liggi á þeim sem ormar á gulli, engum til gagns -- á latínu: „ut angvis auro incubant, nullo cum fructo.“ Þegar áhuginn svo vaknaði og biskupar landsins beittu sér létu höfðingjar til leiðast og slepptu handritunum, stundum fyrir fé en annars fyrir þrábeiðni, konungsboð eða til að afla sér velvildar. Gallinn var hins vegar sá að jafnframt því sem áhugi fór vaxandi og handritin skutu upp kollinum hvert af öðru varð ýmsum ljóst að skinnblöð voru fyrirtaks efniviður í kápur utan um prentaðar bækur og jafnvel í slíður utan um beitta hnífa. Mörg handritanna voru illa farin fyrir og því þótti ekki tiltökumál að rífa þau alveg í sundur, fyrir utan nú það að menn réðu ekkert endilega við að lesa hina fornu skrift. Þessa óheillaþróun má greina í varðveittum afritum glataðra skinnbóka, sem talsvert er til af, en jafnframt í skinnblöðum og skinnbútum sem helsti handritasafnari íslenskur, Árni Magnússon, náði saman. Söfnun hans hófst árið 1685, þegar hann var rétt rúmlega tvítugur, og stóð yfir í rúma fjóra áratugi.

Það sem Árni hafði umfram aðra safnara í samtímanum var að hann gerði sér grein fyrir því að minnsta skinnbrot hafði gildi út af fyrir sig -- eða eins og hann orðaði það í bréfi til vinar síns Björns Þorleifssonar vorið 1694:

hefi ég og mínum bróður til forna sagt hve superstitiosè [ákaft] ég pergamentsbækur þrái, jafnvel þótt það ei væri nema eitt hálfblað eða ringasta rifrildi ... hvar fyrir ég og oftlega hefi rúið kver og involucra [kápur] af þeim tekið, þá nokkuð soddan hefur á verið.

Árni safnaði bókstaflega öllu sem Íslendingar höfðu skrifað á miðöldum og voru Íslendingasögur þar á meðal, þótt ekki hefði hann mikið álit á þeim sem sögulegum heimildum. Það er svo sem skilgreiningaratriði hvað telst til þessarar bókmenntagreinar en ef tekið er mið af innihaldi glænýrrar fimm binda viðhafnarútgáfu (Saga forlag 2018) er staðreyndin sú að ekki er til nema rétt rúmlega tugur heillegra handrita með eiginlegum Íslendingasögum. Þeirra merkast er Möðruvallabók (AM 132 fol.) frá fyrri helmingi 14. aldar sem geymir fjölda sagna: Njála, Egla, Finnboga saga ramma, Bandamanna saga, Kormáks saga, Vígaglúms saga, Droplaugarsona saga, Ölkofra þáttur, Hallfreðar saga, Laxdæla og Fóstbræðra saga (óheil). Bókina eignaðist Árni Magnússon árið 1691 og hafði Björn Magnússon sent hana til Kaupmannahafnar fáum árum áður og gefið Tómasi Bartholín sagnaritara konungs, líklega í von um aðstoð í deilumálum. Árni starfaði fyrir Bartholín við handritarannsóknir og fékk bókina að honum látnum.

Það sem Árni Magnússon hafði umfram aðra safnara í samtímanum var að hann gerði sér grein fyrir því að minnsta skinnbrot hafði gildi út af fyrir sig

Enn voldugra sagnasafn frá fyrri hluta 16. aldar (AM 152 fol.) fékk Árni síðar frá sömu fjölskyldu og eru þar Grettis saga og Þórðar saga hreðu, en líka ævintýralegri textar á borð við Sigurðar sögu þögla og Hrólfs sögu Gautrekssonar. Fáein söfn frá 15. öld eru í safni Árna, svo sem Reykdæla saga, Gull-Þóris saga og Ljósvetninga saga (AM 561 4to). Handrit Egils sögu og Eyrbyggju frá miðri 14. öld er varðveitt í Wolfenbüttel í Þýskalandi og annað nokkru yngra með Grettis sögu í Uppsölum, bæði seld eða gefin frá Íslandi um miðbik 17. aldar. Reykjabók Njálu (AM 468 4to) fékk Árni að gjöf árið 1707 frá norskum vini sínum sem hafði keypt hana á uppboði í Hollandi árið 1696. Annað handrit sömu sögu, Kálfalækjarbók (AM 133 fol.), hafði Árni fengið sent frá Íslandi árið 1697. Síðast en ekki síst eru í safni hans tugir handritsbrota með texta úr Íslendingasögum, flest aðeins eitt eða tvö blöð. Þarna eru tíu brot með annars glötuðum texta Njálu og annað eins með Eglu, en líka bútar úr Bárðar sögu Snæfellsáss, Bjarnar sögu Hítdælakappa, Droplaugarsona sögu, Eyrbyggju, Finnboga sögu, Flóamanna sögu, Gísla sögu Súrssonar, Hrafnkels sögu Freysgoða, Hænsa-Þóris sögu, Kormáks sögu, Laxdælu, Ljósvetninga sögu, Svarfdæla sögu, Vatnsdælu, Vígaglúms sögu og Vopnfirðinga sögu. Margar þessara sagna eru að öðru leyti aðeins varðveittar í eftirritum sem flest voru gerð á Íslandi frá 17. og 18. öld, mörg hver illa unnin og gagnslítil við útgáfur á þessum helstu textum íslenskra bókmennta.

Ritaskrá:
  • Góssið hans Árna. Minningar heimsins í íslenskum handritum. Ritstjóri Jóhanna Katrín Friðriksdóttir. Reykjavík 2014.
  • Handritin. Ritgerðir um íslensk miðaldahandrit, sögu þeirra og áhrif. Ritstjórar Gísli Sigurðsson og Vésteinn Ólason. Reykjavík 2002.
  • Már Jónsson, Árni Magnússon. Ævisaga. Reykjavík 1998.

Myndir:

...