Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ef marka má Færeyinga sögu, sem rituð var á fyrri hluta 13. aldar, voru það Færeyingar sem fyrstir eyþjóðanna í Norður-Atlantshafi gengu Noregskonungi á hönd. Samkvæmt Færeyinga sögu var það Ólafur helgi Haraldsson, Noregskonungur, sem fyrstur reyndi að fá færeyska höfðingja til að gerast sér skattskyldir, hugsanlega um 1020. Ekki gekk það þó eftir og var það fyrst og fremst að þakka bragðvísi Þrándar í Götu, eins helsta höfðingja í Færeyjum á þessum árum. Það var svo Leifur Össurarson, sem var mestur höfðingi í eyjunum eftir dauða Þrándar, sem fór til Noregs á fund Magnúsar góða Ólafssonar konungs „… og tekur af honum lén yfir Færeyjum;…“ Magnús var konungur frá 1035–1047 og er líklegt að þetta hafi verið á fyrri hluta valdatíma hans. Um þessa atburði höfum við þó engar samtímaheimildir.
Grænland varð hins vegar hluti af Atlantshafsveldi Noregskonunga um svipað leyti og Ísland. Fyrstu heimildir um að Hákon gamli Noregskonungur væri að seilast til valda á Grænlandi eru í Hákonar söguSturlu Þórðarsonar en þar segir frá því að árið 1247 hafi Ólafur biskup í Görðum á Grænlandi verið sendur til Grænlands í þeim til gangi að fá Grænlendinga til að játast undir vald Hákonar konungs. Þessi leiðangur tengist án efa valdabrölti konungs hér á landi því á sama tíma fara þeir Þórður kakali Sighvatsson og Heinrekur Kársson, þá nývígður Hólabiskup, til Íslands í sömu erindagjörðum gagnvart Íslendingum.
Grænland varð hluti af Atlantshafsveldi Noregskonunga rétt eftir miðja 13. öld, um svipað leyti og Ísland. Árið 1380 varð það síðan hluti af Danaveldi, ásamt Færeyjum og Íslandi. Á myndinni sjást rústir Hvalseyjarfjarðarkirkju í Eystribyggð í Grænlandi en talið er að hún hafi verið reist snemma á 14. öld.
Annaðhvort hefur Ólafur biskup rekið erindi konungs með hangandi hendi eða grænlenskir höfðingjar tekið því fálega því það er ekki fyrr en 1261 að Grænland gengur Noregskonungi á hönd. Hákonar saga greinir frá því að það ár hafi þeir Oddur af Sjöltum, Páll Magnússon, og Knarrar-Leifur snúið til baka til Noregs, eftir að hafa verið fjögur ár í Grænlandi og færðu konungi þær fréttir að Grænlendingar hefðu heitið honum skatti og þegngildi,[1] hvort sem var í byggð eða í Norðursetu, allt norður undir Pólstjörnuna. Líklegt verður að telja að Grænlendingar hafi talið það happasælast að ganga Noregskonungi á hönd til að tryggja verslun og samgöngur við landið því engar heimildir eru um að ófriður hafi plagað Grænlendinga á þessum tíma eins og Íslendinga á Sturlungaöld.
Eyþjóðirnar þrjár voru svo hluti af veldi Noregskonungs allt til ársins 1380, að Hákon 6. Noregskonungur lést, þótt stundum hafi gengið brösuglega að halda uppi samgöngum þangað, einkum þó til Grænlands.
Málverk eftir danska málarann Carl Rasmussen (1841-1893) sem á að sýna víkingaskip sigla við Grænland um árið 1000.
Eftir lát Hákonar tók Ólafur við ríkinu, sonur hans og Margrétar Valdimarsdóttur Danakonungs, þá barn að aldri. Sá hafði verið krýndur konungur Danmerkur eftir að afi hans, Valdimar Atterdag, lést árið 1376 og þegar Hákon, faðir hans dó, árið 1380, varð hann einnig konungur Noregs. Eftir þetta voru Noregur og Danmörk í konungssambandi þar sem Danmörk var ráðandi aðili og þar með urðu Færeyjar, Ísland og Grænland hluti af Danaveldi. Formlega voru þessi lönd þó undir norska ríkisráðinu þar til það var lagt niður í kjölfar siðbreytingarinnar á 16. öld, en síðasti fundur ráðsins var haldinn 1533. Eftir það var Íslandi og Færeyjum stjórnað frá Kaupmannahöfn þar til Íslendingar fengu takmarkaða sjálfstjórn á síðari hluta 19. aldar og Færeyingar á þeirri 20.
Samgöngur til Grænlands lögðust hins vegar af á 15. öld og náðust ekki aftur tengsl við fólk þar fyrr en Hans Egede hóf trúboð sitt á þriðja áratug 18. aldar. Grænlendingar fengu svo sjálfstjórn á síðari hluta þeirrar 20.
Tilvísun:
^ Þegngildi var bótagreiðsla til konungs fyrir vegna menn.
Heimildir:
Færeyingasaga. Ólafur Halldórsson sá um útgáfuna. Iðunn. Reykjavík 1978.
Guðmundur J. Guðmundsson, Á hjara veraldar. Saga norrænna manna á Grænlandi. Sögufélag. Reykjavík. 2005.
Sturla Þórðarson, Hákonar saga Hákonarsonar II. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík 2013.
Guðmundur J. Guðmundsson. „Hvenær og hvernig náðu Danir yfirráðum yfir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi?“ Vísindavefurinn, 21. janúar 2025, sótt 1. febrúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=87413.
Guðmundur J. Guðmundsson. (2025, 21. janúar). Hvenær og hvernig náðu Danir yfirráðum yfir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=87413
Guðmundur J. Guðmundsson. „Hvenær og hvernig náðu Danir yfirráðum yfir Færeyjum, Íslandi og Grænlandi?“ Vísindavefurinn. 21. jan. 2025. Vefsíða. 1. feb. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=87413>.