Hvaða áhrif hafa fólksflutningar milli landa á hag þeirra sem fyrir eru og þeirra sem eftir sitja?„Varanlegur“ flutningur fólks á aldrinum 16-70 ára milli landa hefur margþætt hagræn áhrif bæði á fráflutnings- og aðflutningsstað. Á fráflutningsstað fækkar fólki á vinnumarkaði. Slík hreyfing fólks getur dregið úr atvinnuleysi á fráflutningsstað og aukið umfang tekjutilfærslna frá útlöndum til fráflutningslandsins. Bandaríki Norður-Ameríku eru helsta uppspretta tekjutilfærslna til þróunarlanda. Árið 2023 sendi fólk af indverskum uppruna sem svarar 125 milljörðum Bandaríkjadala til heimalandsins, fólk af mexíkóskum uppruna sendi 67 milljarða dala, fólk af Kínverskum uppruna sendi 50 milljarða dala en aðrir minna.[1] Áhrifin á fráflutningsland geta líka verið neikvæð, til dæmis ef stór hluti menntaðs og sérhæfðs starfsfólks flytur úr landi.[2] Talað er um spekileka (e. brain drain) í því sambandi. Brottflutningur heilbrigðisstarfsfólks hefur oft valdið áhyggjum.[3] Á aðflutningsstað fjölgar á vinnumarkaði svo fremi sem innflytjandinn fái heimild til vinnu. Með sama hætti fækkar þeim sem eiga rétt á opinberri þjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu og skólagöngu á fráflutningsstað en fjölgar á aðflutningsstað. Til að meta áhrif innflytjenda á hagkerfi aðflutningslands þarf með einhverjum hætti að áætla eða meta virðisaukann sem verður til í hagkerfinu vegna aðflutnings, sérstaklega þarf að áætla hvernig virðisaukinn skiptist milli einstaklingsins annars vegar og skattayfirvalda hins vegar. Það þarf líka að áætla eða meta kostnað sem fellur til hjá hinu opinbera vegna innflytjandans og sem hann ekki greiðir beint. Þetta á við um niðurgreidda heilbrigðisþjónustu, félagslega þjónustu (atvinnuleysisbætur, húsnæðisbætur) og þjónustu skólakerfis til dæmis við börn viðkomandi.

Ítalsk-bandaríski hagfræðingurinn Giovanni Peri hefur komist að því að við 1% fjölgun á vinnumarkaði í einhverju ríki Bandaríkjanna, vegna aðflutnings erlends vinnuafls, aukist tekjur starfsmanna sem fyrir eru um 0,4-0,5%.
- ^ Sjá: Remittance Flows Continue to Grow in 2023 Albeit at Slower Pace - Migration and Development Brief 39. (Sótt 22.10.2024).
- ^ Dæmi eru um að einstök, fátæk, lítil lönd í hitabeltinu tapi allt að 80% af vinnuafli með háskólamenntun (Haítí, Jamaíka og fleiri lönd). Um 20 önnur lönd sáu á eftir 1/3 til 2/3 háskólamenntaðs vinnuafls. Flest þeirra landa voru í Afríku sunnan Sahara og í Asíu (Afganistan og Kambódía), IZA World of Labor - The brain drain from developing countries. (Sótt 22.10.2024).
- ^ Sjá: The great nursing brain drain and its effects on patient safety - Antimicrobial Resistance & Infection Control - Full Text. (Sótt 22.10.2024).
- ^ Sjá: The Effect of Immigration on Productivity: Evidence from US States - NBER. (Sótt 22.10.2024).
- ^ Docquier, F. The brain drain from developing countries.. IZA World of Labor 2014: 31 doi: 10.15185/izawol.31.
- US migrants' faces | This flag, "sorta", is one of the items… | Flickr. (Sótt 28.10.2024). Myndina tók Gerson Galang og hún er birt undir leyfinu Deed - Attribution-NoDerivs 2.0 Generic - Creative Commons.