Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 09:06 • sest 17:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:24 • Sest 16:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:17 • Síðdegis: 17:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:24 • Síðdegis: 23:36 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig er hægt að skilgreina hugtakið innflytjendur?

Þórólfur Matthíasson

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út ráðleggingar um hvernig beri að skilgreina hugtakið innflytjandi. Tilgangurinn er að samræma skilning þeirra sem setja fram tölur fyrir einstök lönd. Áhersla er á að skilgreina hugtakið „international migrant“ sem þýða má sem farandmaður eða innflytjandi. Orðið „farandmaður“ nær inntaki orðsins „migrant“ betur en orðið „innflytjandi“, en hefð hefur skapast um að notkun orðsins „innflytjandi“ í þessu samhengi.

Sameinuðu þjóðirnar skilgreina aðaldvalarland (e. country of ususal residence) sem það land sem einstaklingur dvelur í á hvíldartíma sínum. Langdvalarfarandmaður er sá sem flytur frá aðaldvalarlandi til lengri dvalar en 12 mánaða. Skammtímafarandmaður er sá sem flytur frá aðaldvalarlandi til skemmri dvalar en 12 mánuði.[1]. Hagstofa Evrópusambandsins styðst við ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna í sínum hagtölum og gögnum.[2]

Hér á landi er hugtakið útlendingur skilgreint í lögum um útlendinga (lög nr. 80/2016 með síðari breytingum) sem einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt. Lögin skilgreina ekki hugtakið „innlendingur“ eða „Íslendingur“ og það er freistandi að gagnálykta að „innlendingar“ séu þess vegna þeir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. Sú gagnályktun stenst hins vegar illa því margir íslenskir ríkisborgarar eru búsettir erlendis og falla því illa að hugtakinu „innlendingur“ þó þeir kunni að gangast við því að vera „Íslendingar“.

Ríkisborgarar EES og EFTA-ríkja hafa víðtækari réttindi á íslenskum vinnumarkaði og gagnvart íslenskum stofnunum en þegnar annarra ríkja. Með sama hætti hafa íslenskir ríkisborgarar víðtæk réttindi á vinnumarkaði Norðurlandanna og vinnumarkaði annarra aðildarríkja EES. Lögum um málefni innflytjenda (lög nr. 116/2012 með síðari breytingum) er ætlað að stuðla að inngildingu[3] innflytjenda í íslenskt samfélag. Lögin skilgreina þó ekki hugtakið innflytjandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út ráðleggingar um hvernig beri að skilgreina hugtakið innflytjandi. Tilgangurinn er að samræma skilning þeirra sem setja fram tölur fyrir einstök lönd.

Hagstofa Íslands er einn þeirra aðila sem safnar upplýsingum um útlendinga og þarf þar af leiðandi að skipta mannfjöldanum eftir uppruna. Þar fær breytan „bakgrunnur“ gildið „íslenskur“ ef viðkomandi einstaklingur er fæddur á Íslandi eða að minnsta kosti annað foreldri er fætt á Íslandi. Einstaklingur sem er fæddur erlendis er talinn hafa íslenskan bakgrunn ef annað foreldri hefur íslenskan bakgrunn. Breytan fær gildið „innflytjandi“ ef einstaklingur er fæddur erlendis og báðir foreldrar einnig. Með þessum hætti „leysir“ Hagstofan þann vanda sem felst í að andstæða orðsins „innflytjandi“ er hvergi skilgreind í lögum.

Skiptingin í „innflytjendur“ og „íslenskur bakgrunnur“ fellur ekki endilega að þeim skiptingum sem stuðst er við í mörgum rannsóknum í hagfræði. Hagstofan birtir einnig upplýsingar um skiptingu þeirra sem eru með lögheimili á Íslandi eftir því hvort ríkisfang (ríkisborgararéttur) sé íslenskt eða erlent.

Eins og fyrr segir falla skilgreiningar sem snúa að bakgrunni og ríkisfangi ekki saman. Þannig getur bakgrunnur íbúa á Íslandi talist íslenskur (fæddur á Íslandi, eða annað eða báðir foreldrar íslenskir) þó svo viðkomandi sé með erlendan ríkisborgararétt. Það getur jafnvel gerst að einstaklingur með íslenskan ríkisborgararétt sem býr á Íslandi sé flokkaður sem innflytjandi. Hagstofan birtir upplýsingar um vinnumarkaðsþátttöku eftir bakgrunni en ekki eftir ríkisfangi.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá: immigrant - European Commission. (Sótt 22.10.2024).
  2. ^ Hér er skilgreining ESB á hugtakinu innflytjandi: „Immigrant. Definition(s): (a) In the global context, a non-resident (both national or alien) arriving in a State with the intention to remain for a period exceeding a year.
    (b) In the EU context, a person who establishes their usual residence in the territory of an EU Member State for a period that is, or is expected to be, of at least 12 months, having previously been usually resident in another EU Member State or a third country.“
  3. ^ Íslenska nýyrðið inngilding er þýðing á enska hugtakinu 'inclusion'. Það orð hefur einnig verið þýtt sem án aðgreiningar, til dæmis 'skóli án aðgreiningar', 'samfélag án aðgreingar'.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan koma nýbúar/innflytjendur? og hvað eru nýbúar/innflytjendur?

Höfundur

Þórólfur Matthíasson

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

29.10.2024

Spyrjandi

Hulda Pálsdóttir

Tilvísun

Þórólfur Matthíasson. „Hvernig er hægt að skilgreina hugtakið innflytjendur?“ Vísindavefurinn, 29. október 2024, sótt 30. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=27023.

Þórólfur Matthíasson. (2024, 29. október). Hvernig er hægt að skilgreina hugtakið innflytjendur? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=27023

Þórólfur Matthíasson. „Hvernig er hægt að skilgreina hugtakið innflytjendur?“ Vísindavefurinn. 29. okt. 2024. Vefsíða. 30. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=27023>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að skilgreina hugtakið innflytjendur?
Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út ráðleggingar um hvernig beri að skilgreina hugtakið innflytjandi. Tilgangurinn er að samræma skilning þeirra sem setja fram tölur fyrir einstök lönd. Áhersla er á að skilgreina hugtakið „international migrant“ sem þýða má sem farandmaður eða innflytjandi. Orðið „farandmaður“ nær inntaki orðsins „migrant“ betur en orðið „innflytjandi“, en hefð hefur skapast um að notkun orðsins „innflytjandi“ í þessu samhengi.

Sameinuðu þjóðirnar skilgreina aðaldvalarland (e. country of ususal residence) sem það land sem einstaklingur dvelur í á hvíldartíma sínum. Langdvalarfarandmaður er sá sem flytur frá aðaldvalarlandi til lengri dvalar en 12 mánaða. Skammtímafarandmaður er sá sem flytur frá aðaldvalarlandi til skemmri dvalar en 12 mánuði.[1]. Hagstofa Evrópusambandsins styðst við ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna í sínum hagtölum og gögnum.[2]

Hér á landi er hugtakið útlendingur skilgreint í lögum um útlendinga (lög nr. 80/2016 með síðari breytingum) sem einstaklingur sem ekki hefur íslenskan ríkisborgararétt. Lögin skilgreina ekki hugtakið „innlendingur“ eða „Íslendingur“ og það er freistandi að gagnálykta að „innlendingar“ séu þess vegna þeir sem hafa íslenskan ríkisborgararétt. Sú gagnályktun stenst hins vegar illa því margir íslenskir ríkisborgarar eru búsettir erlendis og falla því illa að hugtakinu „innlendingur“ þó þeir kunni að gangast við því að vera „Íslendingar“.

Ríkisborgarar EES og EFTA-ríkja hafa víðtækari réttindi á íslenskum vinnumarkaði og gagnvart íslenskum stofnunum en þegnar annarra ríkja. Með sama hætti hafa íslenskir ríkisborgarar víðtæk réttindi á vinnumarkaði Norðurlandanna og vinnumarkaði annarra aðildarríkja EES. Lögum um málefni innflytjenda (lög nr. 116/2012 með síðari breytingum) er ætlað að stuðla að inngildingu[3] innflytjenda í íslenskt samfélag. Lögin skilgreina þó ekki hugtakið innflytjandi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út ráðleggingar um hvernig beri að skilgreina hugtakið innflytjandi. Tilgangurinn er að samræma skilning þeirra sem setja fram tölur fyrir einstök lönd.

Hagstofa Íslands er einn þeirra aðila sem safnar upplýsingum um útlendinga og þarf þar af leiðandi að skipta mannfjöldanum eftir uppruna. Þar fær breytan „bakgrunnur“ gildið „íslenskur“ ef viðkomandi einstaklingur er fæddur á Íslandi eða að minnsta kosti annað foreldri er fætt á Íslandi. Einstaklingur sem er fæddur erlendis er talinn hafa íslenskan bakgrunn ef annað foreldri hefur íslenskan bakgrunn. Breytan fær gildið „innflytjandi“ ef einstaklingur er fæddur erlendis og báðir foreldrar einnig. Með þessum hætti „leysir“ Hagstofan þann vanda sem felst í að andstæða orðsins „innflytjandi“ er hvergi skilgreind í lögum.

Skiptingin í „innflytjendur“ og „íslenskur bakgrunnur“ fellur ekki endilega að þeim skiptingum sem stuðst er við í mörgum rannsóknum í hagfræði. Hagstofan birtir einnig upplýsingar um skiptingu þeirra sem eru með lögheimili á Íslandi eftir því hvort ríkisfang (ríkisborgararéttur) sé íslenskt eða erlent.

Eins og fyrr segir falla skilgreiningar sem snúa að bakgrunni og ríkisfangi ekki saman. Þannig getur bakgrunnur íbúa á Íslandi talist íslenskur (fæddur á Íslandi, eða annað eða báðir foreldrar íslenskir) þó svo viðkomandi sé með erlendan ríkisborgararétt. Það getur jafnvel gerst að einstaklingur með íslenskan ríkisborgararétt sem býr á Íslandi sé flokkaður sem innflytjandi. Hagstofan birtir upplýsingar um vinnumarkaðsþátttöku eftir bakgrunni en ekki eftir ríkisfangi.

Tilvísanir:
  1. ^ Sjá: immigrant - European Commission. (Sótt 22.10.2024).
  2. ^ Hér er skilgreining ESB á hugtakinu innflytjandi: „Immigrant. Definition(s): (a) In the global context, a non-resident (both national or alien) arriving in a State with the intention to remain for a period exceeding a year.
    (b) In the EU context, a person who establishes their usual residence in the territory of an EU Member State for a period that is, or is expected to be, of at least 12 months, having previously been usually resident in another EU Member State or a third country.“
  3. ^ Íslenska nýyrðið inngilding er þýðing á enska hugtakinu 'inclusion'. Það orð hefur einnig verið þýtt sem án aðgreiningar, til dæmis 'skóli án aðgreiningar', 'samfélag án aðgreingar'.

Mynd:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvaðan koma nýbúar/innflytjendur? og hvað eru nýbúar/innflytjendur?
...