Hvað getið þið sagt mér um gríska gyðju sem á dönsku heitir Oizys og er gyðja sorgarinnar. Ég hef aldrei heyrt hennar getið. Er til íslenskt nafn á hana?Forngríska orðið oizys, ὀιζυς, þýðir eymd en þýðendur, eins og Helgi Hálfdanarson og Jón Gíslason notuðu einnig íslensku orðin harmur eða kvöl til þess að þýða þetta forngríska orð. Í þýðingum sínum á kviðum Hómers notaði Sveinbjörn Egilsson íslenska orðið raun. Í þessum verkum sem þeir þýddu[1] er orðið notað eins og hvert annað orð og er ekki heiti á gyðju eða annars konar goðmagni. Enda var oizys ekki eiginleg gyðja sem Grikkir tignuðu. Henni voru ekki reist nein hof eða ölturu og henni voru ekki færðar neinar fórnir eða tileinkaðar neinar hátíðir. Þetta orð kemur einnig fyrir í kvæðum eftir skáldið Hesíódos sem nefnast Goðakyn og Verk og dagar. Hesíódos ætlar sér (einkum í Goðakyni) að rekja uppruna og ætterni guða um leið og hann útskýrir tilurð og skipulag heimsins. Hann lýsir því hvernig heimurinn varð til úr gapinu kaos, χάος. Úr gapinu varð til myrkrið erebos og nóttin (nyx, νύξ) ásamt jörðinni og Erosi. Jörðin gat af sér himininn, fjöllin og sjóinn. Í kjölfarið urðu svo til alls konar verur og öfl.

Aðeins einstaka sinnum eru frumöfl Forngrikkja persónugerð. Svefn og dauði eru til dæmis sendir með Hermesi að sækja kappann Sarpedon sem lést í Trójustríðinu, eins og sést á attískum vasa eftir Evxíþeos sem málarinn Evfróníos er talinn hafa myndskreytt um 515 f.o.t.
- ^ Það eru verkin Ilíons- og Ódysseifskviða eftir Hómer, leikrit Æskýlosar sem heita Agamemnon og Hollvættir (sem einnig kallast Refsinornir á íslensku) og leikritið Hekúba eftir Evripídes.
- File:Hermes e Sarpedon.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 24.06.2024).