Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Í Landnámabók er maður sem heitir Finni kynntur til sögu og fjörðurinn Finnafjörður, þar sem nú er Langanesbyggð, kenndur við hann:
‘Finni hét maðr, er nam Finnafjǫrð ok Miðfjǫrð. Hans son var Þórarinn, faðir Sigurðar, fǫður Glíru-Halla’.[1]
Finna-örnefni, bæði samsett og ósamsett, eru nokkur á Íslandi. Meðal annars koma bæjarheitin Finnastaðir, Finnmörk og Finnsstaðir fyrir í skriflegum heimildum og á landakortum. Sem ósamsett nafn er til dæmis varðan Finna nefnd í örnefnalýsingum fyrir Bessastaði og Skriðuklaustur, Fljótsdalshreppi, Norður-Múlasýslu.[2][3] Einnig má geta þess að tveir mýrarblettir í landi Berustaða, Ásahreppi, Rangárvallasýslu, heita Stóra- og Litla-Finna.[4]Finnafjarðará á upptök sín í tjörn sem heitir Finnatjörn, í landi Fells í Skeggjastaðahreppi, Norður-Múlasýslu[5]; Finnagil og Finnaskurður koma fyrir í örnefnalýsingu fyrir Ormarslón í Svalbarðshreppi, Norður-Þingeyjarsýslu (skurðurinn er sagður vera í grónum mónum, og gilið „í skurðinum við vesturbrún Fjallgarðsins“[6]; Finnakrókur, Finnadalur og Finnstunga koma fyrir í örnefnalýsingu fyrir Skeggjastaði, Bólstaðarhlíðarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu[7]; Finnaheiði er nefnd í sambandi við landamerkjalýsingu í fornbréfi frá því um 1500 fyrir Snæfuglsstaði/Snæfoksstaði í Grímsnesi[8]; Finnasund er graslendi í Saurbæjarhreppi, Eyjafjarðarsýslu[9]; Finnastapi er tvínefni á skerinu Kaupmannsstapa í Loðmundarfirði.[10]
Finnafjörður og Gunnólfsvíkurfjall.
Upprunaleg merking Finn- örnefna á Íslandi og í Noregi hefur verið rannsökuð af nokkrum örnefnafræðingum, meðal annars Ola Stemshaug (1985, 1997), Svavari Sigmundssyni (2009), Þórhalli Vilmundarsyni (1980, 1983), og nú síðast af Sigurði R. Helgasyni og Marteini Helga Sigurðssyni (2015). Skýringar hafa verið sóttar í náttúruna, í mannanöfn og í þjóðflokkaheiti. „Ljóst er að nafnliðurinn (-)finn(-) getur haft margvíslegar merkingar í norskum örnefnum og eru þessar þær helstu samkvæmt Stemshaug“ skrifa Sigurður og Marteinn í grein sinni um nöfnin Goðfinna og Guðfinna, stakar steinstrýtur í Akrafjalli (2015, bls. 106). Þeir taka saman lista yfir þessar merkingar:
Staðarsamheitið finn(e) kk. ‘hvass kantur, spíss, toppur,’;
Mannsnafnið Finn (fornvesturnorræna Finnr (Fiðr) eða Finni) eða kvennafnið Finna;
Þjóðflokksheitið finn(e) ‘Finni, (í eldra máli) Lappi, Sami’ eða ‘finnlendar’, þ.e. Finnar sem fluttu til Noregs (Austlandet) frá Finnlandi (um Svíðþjóð) á sautjándu öld’ (2015, bls. 106).
Með tilvísun til örnefnisins Finnafjörður færði Þórhallur Vilmundarson á sínum tíma rök fyrir því að hér væri um afbökun að ræða. Þórhallur vildi meina að fjarðarheitið hafi upprunalega verið *Firnafjörður, þar sem ‘*Firni merkti einfaldlega ‘fjörðurinn, sem er fjarlægur, fjær eða fjærstur’ miðað við annan fjörð eða aðra firði séð frá meginbyggð eða miðstöð byggðar’ og að ‘*Firna- hefði þá snemma breytzt í Finna- vegna tilhneigingar til að lesa mannanöfn úr örnefnum’ (1980, bls. 82).
Sigurður og Marteinn hallast hins vegar frekar að skýringu sem felur í sér grunnmerkingu sem virðist ‘lúta að einhverju sem er oddlaga, stendur upp úr eða er frammjótt, strýtumyndað’ (2015, 107). Hvort það eigi þó við Finnafjörð sjálfan er ef til vill erfitt að segja með vissu nema með því að gera frekari rannsókn „í felti“, það er á staðnum og rannsóknarvettvanginum sjálfum.
Tilvísanir:
Óskar Þorsteinsson, Jóhann Þorsteinsson. (e.d.). Berustaðir. Nafnið.is
Sigurður R. Helgason og Marteinn Helgi Sigurðsson. (2015). Goðfinna og Guðfinna. Um tvö strýtuheiti í Akrafjalli og nafnliðina finna, finni og finnr (fiðr) í fornum mannanöfnum og örnefnum. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 2014: 101-120.
Stemshaug, Ola (1985). Finnen og Finnafjorden i Sogn. Namn og Nemne 2: 43-51.
Stemshaug, Ola (1997). Finnanger og Finnforsen, Finnen, Vindfinn og Tatafinn. Maal og minne: 75-90.
Svavar Sigmundsson (2009). Personnamn som ortnamn på Island. Nefningar. Greinar eftir Svavar Sigmundsson gefnar út í tilefni af sjötugsafmæli hans 7. september 2009, bls. 275-282. Reykjavík: Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Þórhallur Vilmundarson (1980). Finnafjörður. Grímnir. Rit um nafnfræði 1: 81-82.
Emily Lethbridge. „Hvað þýðir Finna- í örnefninu Finnafjörður?“ Vísindavefurinn, 6. nóvember 2024, sótt 28. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=86193.
Emily Lethbridge. (2024, 6. nóvember). Hvað þýðir Finna- í örnefninu Finnafjörður? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=86193
Emily Lethbridge. „Hvað þýðir Finna- í örnefninu Finnafjörður?“ Vísindavefurinn. 6. nóv. 2024. Vefsíða. 28. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=86193>.