Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Hvað getið þið sagt mér um ætt sem ég held að heiti stúfmýs á íslensku: Arvicolinae. Þekki bara læmingja af tegundunum en hvað heita dýrin vole og muskrat á íslensku? Gúggl með krókaleiðum gefur eina niðurstöðu um vole, vatnastúfa.
Arvicolinae er ein af fimm undirættum nagdýraættarinnar Cricetidae.[1] Ættin Cricetidae er stundum nefnd hamstrar eða hamstraætt á íslensku en stundum stúfur eða stúfmýs.[2] Hins vegar virðist undirættin Arvicolinae ekki eiga sér íslenskt heiti.
Í heild eru tegundir innan Arvicolinae-undirættarinnar rúmlega 150 og skiptast þær í 28 ættkvíslir og 11 ættflokka,[3] þar af eru tveir ættflokkar læmingja (e. lemmings), einn ættflokkur bísamrotta (e. muskrats) og átta ættflokkar dýra sem á ensku kallast vole og hafa verið nefnd stúfur eða stúfmýs á íslensku (eins og ættin).
Arvicolinae-undirættin er mjög útbreidd um norðurhvel jarðar, á tempruðum landsvæðum, barrskógasvæðum, heimskautasvæðum og í fjalllendi. Tegundir finnast um alla Norður-Ameríku og suður til Gvatemala, mjög víða í Evrasíu, í Japan, Tævan, suðvesturhluta Kína, á Norður-Indlandi, í Mið-Austurlöndum og nyrst í Afríku. Svo mikil útbreiðsla þýðir að búsvæðin eru mjög fjölbreytt, til dæmis lauf- og barrskógar, runnavaxnar eða grýttar fjallshlíðar, steppur, ræktarland, hálfeyðimerkur, túndrur, votlendi og mosaþýfi.
Engjastúfa (Microtus agrestis).
Tegundaríkasta ættkvíslin innan Arvicolinae-undirættarinnar kallast Microtus og henni tilheyra alls 60 tegundir, sem finnast í Norður-Ameríku, Evrópu og Norður-Asíu. Best þekktu stúfurnar í Evrópu og þær sem stundum eru kallaðar hinar eiginlegu stúfur, eru í raun tvær tegundir, svo áþekkar í útliti að erfitt getur reynst að greina þær í sundur nema með rannsókn. Þessar tegundir kallast akurstúfa (Microtus arvalis, e. common vole) og engjastúfa (Microtus agrestis, e. short tailed field vole eða field vole).
Heimkynni beggja þessara tegunda ná yfir stóran hluta meginlands Evrópu, frá ströndum Atlantshafs austur um Rússland að Kyrrahafi. Engjastúfan er þó útbreiddari þar sem hún finnst á Bretlandseyjum, Noregi og Svíþjóð, ólíkt akurstúfunni, auk þess sem heimkynni hennar ná sunnar í Mið-Asíu til Kasakstan, Kína og Mongólíu.
Eins og áður sagði eru þessar tvær tegundir ákaflega líkar í útliti. Þetta eru lítil nagdýr, 8-13 cm að lengd með stutt skott, 20-50 g að þyngd með móleitan eða grábrúnan feld. Stúfur hafa stóra og hákrýnda afturjaxla sem henta vel til þess að vinna á jurtum. Afturjaxlarnir eru rótopnir eins og hjá öðrum tegundum í Arvicolinae-undirættinni og endurnýjast eða vaxa alla ævi. Slíkar tennur eru vel til þess fallnar að vinna á jurtum enda eru stúfur fyrst og fremst jurtaætur, lifa á grösum, stráum, mosa, berki og fræjum en sækja sér stundum fæðu á ræktarland bænda.
Akurstúfa (Microtus arvalis).
Á nokkurra ára fresti sjást mjög miklar sveiflur í stofnstærðum, bæði hjá akurstúfunni og engjastúfunni. Sveiflurnar lýsa sér þannig að við réttar aðstæður verður stofnstærðarsprenging þar sem fjöldi einstaklinga margfaldast. Stúfur fjölga sér fyrst og fremst yfir sumarið þótt þær geti átt unga yfir vetrartímann. Þegar nóg er af fæðu geta kvendýrin orðið kynþroska jafnvel aðeins tveggja vikna gömul. Meðgangan tekur um þrjár vikur. Algengt er að ungar í hverju goti séu þrír til átta talsins en geta orðið fleiri en tíu. Yfir sumarið getur kvendýr gotið nokkrum sinnum.
Þegar fjölgunin verður mikil og þröngbýli eykst fara mæður að ala unga upp í sama bæli. Jafnframt valda þrengsli því að eldri karldýrin gerast árásargjarnari í garð þeirra yngri og reka þá úr bælinu. Eftir því sem frjósemin eykst og dýrunum fjölgar verður hlutfall kvendýra stöðugt hærra og fjölgunin vindur þannig meira upp á sig. Að lokum fer þó að gæta fæðuskorts vegna offjölgunar sem gerir dýrunum erfiðara að takast á við haustkomuna með kólnandi veðri og sölnuðum gróðri. Afleiðingin verður hrun í stofninum og eftir standa færri dýr en þau ár þar sem fjölgun er í meðallagi.
Það er ekki bara veturinn og fæðuskortur sem getur ógnað stúfum, engjastúfan og akurstúfan eru fæða fyrir uglur og ýmsa aðra ránfugla, refi, hreysiketti, snáka og fleiri dýr.
Tilvísanir:
^ Flokkun dýra í ættir, ættkvíslir og tegundir er flókið fyrirbæri og vísindamenn eru ekki endilega sammála um hvernig það skuli gert. Undirættin Arvicolinae hefur til dæmis líka verið flokkuð sem hluti af músaætt (Muridae) eða sem sértök ætt (Arvicolidae).
^ Íslensk heiti tegunda, ættkvísla og ætta geta verið ruglingsleg. Samkvæmt Íslensku dýra- og plöntuorðabókinni er íslenskt heiti ættarinnar Cricetidae stúfur eða stúfmýs og enska heitið voles. Samkvæmt Íðorðabankanum á vef Árnastofnunar kallast þessi sama ætt hamstrar eða hamstraætt. Í meistararitgerð um íslensk spendýraheiti kemur það sama fram, það er að ættin Cricetidae nefnist hamstrar en að eldra heiti hafi verið stúfmýs.
^ Í flokkunarfræðinni stendur ættflokkur (e. tribe) á milli ættar/undirættar (e. family/subfamily) og ættkvíslar (e. genus).
Heimildir og myndir:
Abramson, N. I., Bodrov, S. Y., Bondareva, O. V., Genelt-Yanovskiy, E. A., & Petrova, T. V. (2021). A mitochondrial genome phylogeny of voles and lemmings (Rodentia: Arvicolinae): Evolutionary and taxonomic implications. PloS one, 16(11), e0248198. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0248198
Jacob, J., Manson, P., Barfknecht, R., & Fredricks, T. (2014). Common vole (Microtus arvalis) ecology and management: implications for risk assessment of plant protection products. Pest Management Science, 70(6), 869–878. https://doi.org/10.1002/ps.3695
Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um ættina Arvicolinae sem ég held að heiti stúfmýs?“ Vísindavefurinn, 2. janúar 2025, sótt 8. janúar 2025, https://visindavefur.is/svar.php?id=85907.
Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2025, 2. janúar). Hvað getið þið sagt mér um ættina Arvicolinae sem ég held að heiti stúfmýs? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=85907
Jón Már Halldórsson og Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um ættina Arvicolinae sem ég held að heiti stúfmýs?“ Vísindavefurinn. 2. jan. 2025. Vefsíða. 8. jan. 2025. <https://visindavefur.is/svar.php?id=85907>.