Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Til eru tuttugu og þrjár tegundir refa í heiminum sem flokkaðar eru í fimm ættkvíslir. Tegundaríkasta ættkvíslin nefnist vulpes, innan hennar eru 12 tegundir. Meðal þeirra er rauðrefurinn (Vulpes vulpes) sem lifir á víðlendum svæðum í Evrasíu og Norður-Ameríku og mun vera útbreiddastur allra refa. Önnur tegund innan vulpes-ættkvíslarinnar er heimskautarefurinn eða tófan (Vulpes lagopus) sem finnst meðal annars hér á landi og á heimskautasvæðunum umhverfis norðurskautið.
Útbreiðsla rauðrefsins (Vulpes vulpes). Grænt sýnir náttúrleg heimkynni, blátt eru svæði þar sem hann hefur tekið sér bólfestu með aðstoð manna en á appelsínugula svæðinu er útbreiðsla hans óstaðfest.
Refategundirnar eru eftirtaldar:
Ættkvíslin Cerdocyon
Skógarrefur (C.thous). Finnst í skógum í austanverðri Suður-Ameríku allt norður til Panama.
Skógarrefur (Cerdocyon thous).
Ættkvíslin Vulpes
Rauðrefur (V. vulpes). Útbreiddastur og sennilega algengastur allra refa í heiminum. Vegna hlýnandi veðurfars hefur útbreiðsla hans færst norður á bóginn og er hann víða farinn að ógna tilvist heimskautarefsins.
Bengalrefur (V. bengalensis). Einnig kallaður indverski refurinn. Er útbreiddur á Indlandi allt frá rótum Himalajafjalla og suður eftir Indlandsskaganum.
Blanfordsrefur (V. cana). Einnig kallaður afganarefur. Finnst í hálf-eyðimörkum og steppum í Afganistan, Íran og einnig meðfram ströndum Arabíuskagans.
Glámurefur (V. chama). Lifir í suðurhluta Afríku aðallega í Namibíu og suður til sjávarstranda Suður-Afríku í Höfðafylki.
Glámurefur (V. chama).
Steppurefur (V. corsac). Finnst á steppusvæðum í Mið-Asíu austur til Mongólíu og vesturhluta Kína.
Eyðimerkurrefur (V. zerda). Lifir á eyðimerkursvæðum í norðanverðri Afríku.
Auðnarefur (V. macrotis). Norður-amerísk tegund sem lifir á þurrum svæðum í suðvestanverðum Bandaríkjunum og í norðurhluta Mexíkó.
Bleikrefur (V. pallida). Finnst á svæðum í Afríku frá Senegal til Súdan. Afar lítið er vitað um tegundina.
Sandrefur (V. rueppelli). Finnst á eyðimerkursvæðum Afríku og í Miðausturlöndum allt austur til Afganistan og Pakistan. Lifir á sömu svæðum og eyðimerkurrefurinn og er nokkuð líkur honum en marktækt stærri.
Sprettrefur (V. velox). Lifir í norðvesturríkjum Bandaríkjanna allt norður til Alberta í Kanada.
Tíbetskurrefur (V. ferrilata). Lifir eins og nafnið gefur til kynna í Himalajafjöllunum í Tíbet en einnig í Nepal, Kína, Indlandi og Bútan.
Heimskautarefur (V. lagopus). Sú tegund sem við Íslendingar þekkjum langbest. Þetta er gamla góða tófan eða lágfótan sem finnst hérlendis og á norðursvæðum í Norður-Ameríku og Evrasíu auk þess sem hann finnst á nokkrum eyjum á norðurhjaranum.
Ættkvíslin Urocyon (Norður-amerískir refir)
Grárefur (U. cinereoargenteus). Norður-amerísk tegund sem deilir að miklu leyti heimkynnum með rauðref og á í mikilli samkeppni við hann en teygir útbreiðslu sína mun sunnar eða til Kólumbíu og Venesúela í Suður-Ameríku.
Grárefur (U. cinereoargenteus).
Eyjarefur (U. littoralis). Finnst á sex smáum eyjum undan ströndum Kaliforníu. Rannsóknir hafa sýnt að þessir refir eru komnir af grárefum sem einangruðust frá meginstofninum á meginlandinu og úr hefur orðið sér tegund eyjarefa.
Cozumelrefur. Hefur ekki verið lýst almennilega til tegundar og ekki fengið tegundaheiti. Fannst á smárri eyju undan ströndum Mexíkó en síðast sást til hans árið 2001. Miklar líkur eru á því að tegundin sé nú þegar aldauða.
Ættkvíslin Otocyon
Blökurefur (O. megalotis). Eina tegundin af ættkvíslinni Otocyno. Lifir á staktrjáasléttum (e. savanna) í austan- og sunnanverðri Afríku.
Ættkvíslin Lycalopex (Suður-amerískir refir)
Darwinrefur (L. fulvipes). Finnst á takmörkuðum svæðum í sunnanverðu Síle. Er í mikilli útrýmingarhættu og telst heildarstofninn vera innan við 500 dýr.
Andesrefur (L. culpaeus). Finnst eins og nafnið gefur til kynna í Andes-fjöllunum. Útbreiddur eftir öllum fjallgarðinum og stofninn afar sterkur.
Andesrefur (Lycalopex culpaeus).
Suður-amerískur grárefur (L. griseus ). Finnst í sunnanverðri álfunni, í Argentínu og Síle.
Pampasrefur (L. gymnocercus). Lifir í mið Argentínu, Úrúgvæ, austur Bólivíu og í Paragvæ.
Perúskur-eyðimerkurrefur (L. sechurae). Var uppgötvaður í Sechurian-eyðimörkinni í Perú en finnst einnig í Ekvador. Þessum ref hefur fækkað nokkuð vegna þess að hann telst til meindýra auk þess sem gengið hefur á búsvæði hans.
Engjarefur (L. vetulus). Engjarefur er eina tegund refa sem nær einungis lifir á skordýrum svo sem termítum og bjöllum. Útbreiðsla hans er í sunnanverðri Brasilíu
Myndir:
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar refategundir í heiminum?“ Vísindavefurinn, 12. maí 2015, sótt 24. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=68604.
Jón Már Halldórsson. (2015, 12. maí). Hvað eru til margar refategundir í heiminum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=68604
Jón Már Halldórsson. „Hvað eru til margar refategundir í heiminum?“ Vísindavefurinn. 12. maí. 2015. Vefsíða. 24. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=68604>.